05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1941

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér nokkrar brtt., sem ég vil fara um nokkrum orðum. Fyrst er brtt. 327,II, 16 þús. kr. til að lengja hafskipabryggjuna í Borgarnesi. Þessi hafskipabryggju var byggð 1930, en var þá ekki fullgerð, og hefir hafnarstjórnin nú látið gera teikningu, mælingar og áætlanir um það, hvað þessi fyrirhugaða lenging myndi kosta. Það liggur nú fyrir áætlun frá vitamálastjóra, og gerir hann ráð fyrir, að þetta muni kosta 32 þús. kr. að vísu var þessi áætlun gerð fyrir stríðið, en hafnarstjórnin gerir ráð fyrir því, að með því að tryggt sé að nokkru leyti innlent efni til þessara framkvæmda, þá muni mega komast af með svipaða upphæð til að fullgera verkið og áætlað var síðastl. ár. Það er mjög nauðsynlegt að lengja bryggjuna nokkuð, vegna stærri skipa, sem þar koma. En auk þess er vegna vetrarferða „Laxfoss“ nauðsynlegt að gera bryggjuna nokkuð veigameiri; oft verða skip að liggja við hana í stórviðri og sjógangi, og stundum hafa skip verið komin mjög hætt, vegna þess að bryggjan er ekki eins veigamikil og hún myndi verða, ef hún yrði lengd.

Þá er brtt. á sama þskj., V. tölul., um útgáfu héraðssögu Borgarfjarðar. Það hefir verið unnið að þessu verki í nokkur ár af ýmsum mönnum; eru komin út 2 bindi og hið 3. í undirbúningi. Þarna er saman kominn mikill fróðleikur um sögu héraðsins, sem á sínum tíma mun verða einn þáttur þeirrar menningarsögu, sem skráð verður um líf þjóðarinnar á liðnum öldum. Þar sem ég sé, að ýmsir aðrir hv. þm. bera fram svipaðar fjárbeiðnir, þá þykir mér mjög sennilegt, að útgáfa héraðssögu Borgarfjarðar fái góðar undirtektir meðal þm., þar sem hér er um mjög merkilegt mál að ræða.

Þá á ég brtt. á samt þskj., VIII. töluliður, a. og b. Það er nýr liður um styrk til Guðmundar Böðvarssonar skálds og Halldórs Helgasonar á Ásbjarnarstöðum. Halldór hefir fengið smástyrk á fjárl. undanfarið, þangað til í fyrra, að þessir styrkir voru teknir út af fjárl., en þá fékk hann einnig viðurkenningu frá menntamálaráði með svipuðum styrk og áður. Halldór er ágætur hagyrðingur, og má segja, að hann sé með betri alþýðuskáldum landsins. Ég geri ráð fyrir, að þm. hafi nokkuð kynnzt verkum hans, og þurfi því ekki að lýsa þeim með mörgum orðum. Ef svo fer, að skáld og listamenn verða aftur teknir inn á fjárl., því vona ég, að Halldór verði látinn fylgja öðrum skáldum, sem styrks hafa notið undanfarið.

Þá kem ég að hinum manninum, hann er ungur og hefir einskis styrks notið á fjári., en hlaut styrk af því fé, sem menntamálaráð hafði með höndum síðastl. ár. Það er skoðun þeirra manna, sem dómbærir eru um þessa hluti og hafa kynnt sér skáldskap þessa manns, að hann sé mjög efnilegt skáld, og skoða margir hann nú þegar í röð fremstu skálda, sem látið hafa frá sér fara kvæðabækur hin síðari ár. Ég treysti því fullkomlega, ef sterkur verður veittur til skálda og listamanna nú eins og undanfarið, þá láti hv. þm. atkv. sín falla á þá lund, að veita þessu unga skáldi þann styrk. sem hér er farið fram á. Annars skal ég geta þess, að á síðasta þingi var ég einn meðal þeirra manna, sem greiddu atkv. með því, að menntamálaráð hefði úthlutun þessa styrks með höndum, og ég sé ekki ástæðu til þess að breyta um stefnu. En ef það skyldi verða ofan á, að þingið afsalaði sér þessum styrkveitingum í hendur menntatnálaráðs, þá mun ég taka þessar brtt. aftur.

Þá er brtt. á sama þskj., XV. Það er byggingarstyrkur til Magnúsar Ásgeirssonar skálds. 1000 kr., og er ætlazt til, að það verði lokastyrkur. Ég skýrði frá því á síðasta þingi, þegar ég fór fram á samskonar styrkbeiðni, að Magnús hefði byggt sér smáhús uppi í sveit og hefði þar afnot af laugahita. Magnús hefir gert margar og merkilegar þýðingar, Bæði í bundnu og óbundnu máli, og það má telja það víst, að hann nýtur sín miklu betur við þetta starf uppi í sveit heldur en ef hann væri hér í Reykjavík. Hinsvegar er hann félaus maður, eins og þm. Er kunnugt, og hefir hann átt mjög erfitt með að koma upp þessari byggingu og standa straum af kostnaðinum. Það hefir ekki þótt tiltækilegt að veita honum byggingarstyrk af fé, sem verið er til að styrkja bændur til endurbygginga, vegna þess að hann hefir ekki þótt fullnægja þeim skilyrðum, sem til þess þarf. Hinsvegar sótti hann um þennan styrk. Þessi styrkur, sem ég vænti, að verði samþ., er mjög svipaður þeim hámarksstyrk, sem bændur fá til að koma upp varanlegum húsum í sveitum, og vildi ég vænta þess, að Magnús verði ekki settur skör lægra. Magnús er þegar búinn að fá viðurkenningu fyrir því, að vera einn hinn bezti þýðandi, bæði í bundnu sem óbundnu máli, sem þjóðin hefir átt. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. þm. veiti honum þennan styrk, svo að hann geti unnið að þessu menningarmáli, sem hann hefir tekið að sér. Það verður ekki betur gert á annan hátt en þann að hjálpa honum til þess að eignast heimili á þeim stað, sem hann hefir þegar valið sér, svo hann geti þar óskiptur unnið að sínum hugðarmálum.

Ég á brtt. á þskj. 308, XXX, sem flutt er af mér og hv. a. þm. Skagf. Hann er 1. flm. till. og mun hann mæla fyrir henni. Ég skal þó geta þess, að hún er um hækkun styrks til Búnaðarfélags Íslands, til þess að unnt verði fyrir það að standa við þær skyldur, sem því munu sennilega verða lagðar al herðar með samþykkt á launauppbót til starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Fé það, sem félagið hefir yfir að ráða, er af skornum skammti, og þannig var frá gengið á síðasta búnaðarþingi, að ekkert fé var ætlað til þessarar hækkunar. Það er því nauðsynlegt fyrir félagið að leita til þingsins um þessa lækkun. — Ég á einnig aðra brtt. á þessu sama þskj., XXXIV, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Skagf., og mun hann líka gera grein fyrir henni.

Þá vil ég minnast á brtt., sem ég sá sama þskj., sem ég flyt ásamt hv. 8. landsk., um 100 þús. kr. styrk til áburðarkauka, sem varið sé til lækkunar á útsöluverði erlends áburðar á árunum 1940 og 1941 samkvæmt reglum, sem Búnaðarfélag Íslands setur.

Það er kunnugt frá síðasta þingi, að verðhækkun sú, sem orðið hefir á útlendum áburði vegna gengislækkunarinnar fyrst og síðan vegna hinar almennu verðhækkunar af völdum styrjaldarinnar, er orðin svo geigvænleg, að fullar horfur eru á því, að ekki sé unnt fyrir bændur að kaupa þann áburð, sem nauðsynlegur er til þess, að hægt sé að framleiða þær kartöflur, sem við þurfum að nota, og halda við ræktun á túnum, til þess að fullt gagn geti af þeim orðið. við áttum því láni að fagna á síðastl. ári, að kartöfluframleiðslan varð í fyrsta skipti það mikil, að telja má, að þjóðin hafi orðið sjálfri sér nóg í þeim efnum. Þetta eru gleðilegar framfarir, auk þess sem það er einn liður í því öryggi, sem þjóðin verður að keppa að um að verða sem mest sjálfbjarga um eigin framleiðslu matvara. Ef svo fer fram, að verð á útlendum áburði stórhækkar, þá er þessu máli teflt í tvísýnu, svo að því getur rekið, að annaðhvort verði að flytja á ný inn kartöfiur eða þjóðin verður að einhverju leyti að fara á mis við þessa dýrmætu fæðu og tapa auk þess þeirri atvinnu, sem framleiðsla kartaflna veitir landsmönnum.

Ég skal geta þess til frekari upplýsinga, að þessi verðhækkun, sem skall fyrirvaralaust á áburðinn á síðastl. ári, var svo mikil, að þrátt fyrir 25% hækkun á áburðinum síðastl. vor, þá varð áburðareinkasala ríkisins, auk þess sem hún átti 50 þús. kr. í varasjóði, að safna skuldum, sem nema 150 þús. kr., til þess að forðast það, að áburðurinn yrði ekki algerlega ófullnægjandi. Hina síðustu mánuði hefir fragtin hækkað svo, að hún er þrisvar sinnum hærri en á sama tíma í fyrra, og það er útlit fyrir, að verð áburðarins hækki frá 31% upp í 71% frá því, sem það var á síðastl. ári. Ef þessu fer fram, þá verður ekki unnt, hvorki fyrir bændur né þorpsbúa, sem margir afla sér atvinnu að sumrinu með því að stunda kartöflurækt, að stunda hana að neinu ráði, og horfir því til hins óvænna um framleiðslu þessarar vöru og þeirrar atvinnuaukningar, sem hún getur skapað í landinu. Ég vil mjög vænta þess, að Alþ. geri það, sem í þess valdi stendur, til þess að firra þeim vandræðum, sem af því myndu hljótast, ef kartöfluræktin yrði að dragast mikið saman, og samþ. því þessa till., sem myndi koma að nokkru liði, þó vitanlega þyrfti að taka dýpra í árinni, ef vel ætti að vera.

Ég mun eiga eina brtt. ennþá, sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þm., um að veita Rögnvaldi Sigurjónssyni 1500 kr. til náms í píanóleik. Það mun verða mælt fyrir þessari till. af öðrum, en ég vil aðeins geta þess, að þessi maður er óvenjulega efnilegur píanóleikari. Hann er snillingsefni í þeirri grein eftir því, sem fróðir menn á því sviði láta uppi, svo hann er sannarlega þess verður, að hann sé studdur til að fullkomna sig í þessari grein, svo framarlega sem nokkurt fé verður veitt á þessum tímum til slíkra hluta.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.