26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

60. mál, bifreiðalög

*Bjarni Ásgeirsson:

Við hv. 6. þm. Reykv. eigum hér smábrtt., sem er í samræmi við þá skoðun, sem við héldum fram við 1. umr. málsins, um það að breyta aftur ákvæðum frv. um hægri handar umferð í vinstri handar umferð.

Það hafa ekki komið fram nein rök, sem hafa sannfært okkur um nauðsyn þess að breyta til um þessa reglu frá því, sem nú er, og þær röksemdir, sem hæstv. forsrh. kom með, virðast mér ekki þungvægar. Það leiðir fyrst og fremst mikinn kostnað af þessari breyt. og hefir hinsvegar enga praktíska þýðingu. Það gegnir allt öðru máli um þetta í þeim löndum, sem eiga sameiginleg landamæri við önnur lönd og akstur bifreiða á sér stað daglega sitt á hvað út og inn í löndin, en í löndum, sem liggja alveg út af fyrir sig, hefir þetta enga þýðingu. Það er eðlilegt, að lönd eins og Tékkóslóvakía og Svíþjóð breyti þessu, en hinsvegar sýnir það sig með Englendinga, að þeir hafa ekki talið þörf á að breyta til í þessu efni hjá sér. Alveg sama gildir hér hjá okkur. Það atriði, að einstaka maður fer með bifreið sína til útlanda og einstaka útlendingur kemur hingað með bifreið, sýnist mér ekki stórt. Það ætti að vera ákaflega auðvelt fyrir þá menn, sem þannig stendur á um, að setja sig inn í þær umferðarreglur, sem gilda í hverju landi fyrir sig. Alveg sama er að segja um útlendinga, sem hingað koma. Og auk þess má geta þess um þá, að ef við viljum sérstaklega taka tillit til útlendinga, sem koma hingað með bifreiðir, þá eru flestir, sem hingað flytja bifreiðir með sér, einmitt Englendingar, sem hafa sömu reglu og við í þessu efni. Ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að slysahættan hafi ekkert aukizt þar, sem þessi breyting hefir verið gerð á umferðarreglunum, þá ætti síður en svo að vera mikill vandi fyrir þá, sem ferðast til útlanda með bifreiðar sínar, að setja sig inn í þær umferðarreglur, sem gilda þar, sem þeir ferðast. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að stofna til útgjalda til að breyta þessu.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vildi aðeins að lokum segja það, að mér fyndist þetta frv. ekkert ógagn hafa af því, þótt það biði og væri endurskoðað til næsta þings, því að mér virðist heldur flausturslega frá því gengið. II. kafli frv. á til dæmis að vera um gerð bifreiða, en mér virðist, að í þessum kafla séu ýms önnur atriði, sem ekki eiga þar heima. Mér virðist yfirleitt, að frv. þarfnist betri athugunar, og býst við, að ekkert tjón myndi af því leiða, þótt það gengi ekki fram á þessu þingi.