26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

60. mál, bifreiðalög

*Sigurður Kristjánsson:

Af því að ég geri ráð fyrir, að við flm. brtt. á þskj. 149 munum, ef hún verður felld, taka aftur samskonar brtt. okkar við næsta mál á dagskrá, frv. til umferðarl., þykir mér rétt að ræða þessar brtt. lítið eitt áður en umr. lýkur, þótt ég sé þar ekki 1. flm. Að sjálfsögðu tökum við þær ekki aftur að óreyndu, þótt hv. frsm. þætti það æskilegt, en munum ekki vekja kappræður um þær.

Það vil ég vona, að ekki reyndist stórkostlegur háski að breyt. fyrir vegfarendur, þótt hún yrði samþ. Slysahættan yxi auðvitað, en ég vil ekki gera það að höfuðatriði. Ég treysti flestum ökumönnum til þeirrar gætni og vakandi athygli, að þeirra vegna sé þetta fært og þeir verði nokkuð fljótir að læra nýjar akreglur. En ég tel það miklu eðlilegra og tamara manni frá náttúrunnar hendi, ef svo má segja, að umgangast bifreiðir og ýmis farartæki á hægri hlið, en ekki vinstri, og víkja jafnan til vinstri. Þetta man ég, að ég vandist ósjálfrátt á í bernsku, fyrr en nokkrar umferðarreglur komu til, og þannig veit ég flestum hafa farið, hvort sem víkja skyldi fyrir fólki eða farartækjum. Það er barnalegt að halda, að þetta eigi skylt við það, hvorum megin söðulfjöl er á hesti. Tilfinningin fyrir því, að betra sé að hafa áreksturshættuna ætið hægra megin, stafar m. a. af því, hve hægri hönd er tiltækari en vinstri, raunar ekki til að víkja bifreiðum úr vegi frá sér, heldur til að sjá manni sjálfum farborða á allan hátt. Þetta er höfuðástæða mín gegn breytingunni. Annað atriði er kostnaðurinn, sem a. m. k. liggur ekki á að steypa sér út í. Það hefir hæstv. forsrh. eflaust hermt rétt eftir heimildarmönnum sínum, að breytingar á bifreiðum vegna hægri umferðar mundu kosta tiltekna upphæð, 30 þús. kr., og ekkert fram yfir það. En hversu merkir sem þeir heimildarmenn kunna að vera, leyfi ég mér að efast um, að þetta standist, enda óhugsandi, að hægt sé að reikna þetta þannig fyrirfram. Bæði handverksmenn, sem ég hefi talað við, og bílstjórarnir sjálfir gera ráð fyrir miklu meiri kostnaði. Loks verð ég að segja, að stærstu andmælin gegn breyt. eru þau, að fylgismönnum hennar hefir ekki tekizt að finna nokkurn hlut, sem sanni nauðsyn hennar. Hv. frsm. taldi að vísu, að við ættum að taka þarna upp alþjóðavenju. Það held ég, að einmitt sé hin mesta firra. Ég held, að við eigum aldrei að apa neitt eftir, nema við sjáum nauðsyn til þess. Það er margbúið að benda á sérstöðu okkar, að búa í eylandi, svo að við erum lausir við öll vandkvæði þeirra, sem eiga landamæri að ríki með hægri umferð. Eins og ég geri engin ósköp úr slysahættu af breytingunni, tel ég litla hættu á öðru en að vanir ferðamenn, sem hingað koma og kunna að stýra hér ökutækjum, venjist fljótt við gildandi reglur, eða að Íslendingar venjist áhættulítið reglum þeim, sem þeir verða að fylgja í ferðum erlendis í hverju þjóðlandi um sig. Í þessum efnum tel ég sýnt, að ekki sé unnt að finna nýtileg rök fyrir breyt. Nú verða menn að gera það upp í eigin huga, hvort þeir eru henni í raun og veru fylgjandi.

Þeir, sem fylgja þessu atriði frv., ættu að gera sér ljóst, að breyt. liggur ekki svo á, að þinginu megi ekki ljúka án hennar. Á þessum tímum, þegar allir eru í vandræðum að fleyta sér og sínum fyrirtækjum, á ekki að vera að grafa upp hluti, sem slíkur aukakostnaður er að. Ennfremur veitti ekki af að bæta enn um búning frv., eins og hv. þm. Mýr. (BÁ) sýndi. Óviðkunnanlegt er að tala um að „halda sér“ og að „aka fram úr“ einhverjum. Hvað sem öðru líður, ættu menn að sjá sóma sinn í að lagfæra slíkt sem lagfæra má.