26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

60. mál, bifreiðalög

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. og hv. samgmn., hvort nokkuð hefði verið leitað álits bifreiðarstjóra um frv. Hvað sem líður gömlum hestum og uxum, er engin stétt, sem meira á undir þessum lögum en bifreiðarstjórar. Ég hefi fregnir af því, að á fundi bifreiðarstjóra hér í bænum voru samþ. fyrir skömmu mótmæli gegn hægri handar akstri. Ég vildi fá upplýsingar um það frá hv. samgmn., hvort henni hafa borizt þessi mótmæli og hún tekið til þeirra rökstudda afstöðu.

Mér er ekki alveg ljóst, hvers vegna hæstv. forsrh. telur þurfa að gera þessa breytingu einmitt nú. Mér finnst þvert á móti, að einmitt nú sé minnst ástæða til þess að gera þessa breyt. á umferðarreglunum. Það eru engar minnstu líkur til þess, að meðan á styrjöldinni stendur komi menn frá útlöndum með bifreiðar sínar, svo að nokkru nemi, og það eru heldur engar líkur fyrir því, að mikið verði flutt inn af bifreiðum, svo að þess vegna verði það mikill kostnaðarauki, ef þessi breyting verður gerð síðar.

Ég skal ekki gera það að umræðuefni nú, hvort ástæða er til að taka upp hægri akstur. Um það verða alltaf skiptar skoðanir. Ég sé enga ástæðu til þess — og hefi enga fundið í rökum þeirra manna, sem mæla með því — að fara að taka upp þann sið. Síður en svo.

Hæstv. ráðh. taldi, að það myndi kosta um 30 þús. kr. að breyta dyrunum á stóru bílunum, og ég fæ ekki séð neinar líkur til þess, að þeim bílum muni fjölga svo mjög meðan stríðið stendur yfir, að sá kostnaður muni aukast stórkostlega. Útlendingar munu ekki fara að koma svo margir með bifreiðar sínar hingað, meðan á stríðinu stendur, að ástæða sé til að greiða þetta sérstaklega fyrir þeim, og sama er að segja um það, að menn munu alls ekki fara héðan með bíla sína til þess að ferðast um meginland Evrópu meðan núverandi ástand helzt. Það, sem ég meina, er það, að það er að minni hyggju tilefnislítið að knýja þetta atriði frv. fram nú, þ. e. að breyta akstursreglunum í hægri akstur. Ég held, að full ástæða sé til að athuga það atriði vel, og tíminn til þess einmitt heppilegur nú, áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar þessu viðvíkjandi. Þætti mér gott að fá upplýsingar um það, hvort menn hafa við undirbúning þessa máls ráðfært sig við stéttarfélag bifreiðarstjóra.