16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Menntmn. flytur þetta frv. fyrir hönd kirkjumálastj., og frv. er samið af biskupi Íslands og vígslubiskupnum á Akureyri.

Það eru tvö höfuðatriði í þessu frv. Annað er það, að dómkirkjan eða kirkjunefnd í Reykjavík skuli fá greitt 300 þús. kr. tillag úr ríkissjóði á 30 árum, með 10 þús. kr. árlegri fjárveitingu. Dómkirkjan hefir verið nokkurskonar landskirkja, og það er gömul venja, að kirkjueigandinn viðhaldi kirkjunni. En nú verður ekki sagt, að ríkið viðhaldi kirkjunni svo að nægi, þó veittar verði til Reykjavíkur á 30 árum þessar 300 þús. kr. Til kirkjubyggingar í Reykjavík, svo að viðunanlegt væri, þyrfti miklu meira fé og því mikil viðbót að koma frá því opinbera.

Hitt aðalatriði frv. er að skipta Reykjavíkursókn í 4 prestaköll og fjölga prestum. Í l. er nú ekki gert ráð fyrir nema 2 prestum í Reykjavík, en með fjárlagaákvæði hefir þeim verið fjölgað upp í 4, og er eitt sætið autt sem stendur. Með þessu frv. er ætlazt til að verði 6 prestar í Reykjavík með núverandi mannfjölda, eða einn prestur fyrir hverja 5 þús. sóknarmenn. Um það atriði má náttúrlega deila nokkuð, og mun það verða rætt nánar í n. áður en frv. kemur til 2. umr.

Hygg ég, að allir geti verið sammála um það, að ef á að halda uppi þjóðkirkju í landinu, þá verði að taka tillit til þeirra miklu mannflutninga, sem orðið hafa í seinni tíð til Reykjavíkur. En í löggjöf um skiptingu prestakalla hefir ekki verið tekið tillit til slíks svo neinu nemi síðan 1907. Nokkur fjölgun presta hefir líka nýlega verið viðurkennd, og má vera, að það þurfi að fjölga prestum enn meir heldur en þá var gert.

Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. Og þó að það sé borið fram af n., verður það til nánari athugunar í n. í samráði við kirkjustjórn hér í Reykjavík á milli umr.