27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

Sveinbjörn Högnason:

Það var aðeins út af till. hv. 2. þm. Skagf. um að vísa þessu máli, sem komið er frá menntmn., til fjhn. Ég sé enga ástæðu til þess, enda er það a. m. k. óvenjuleg meðferð á máli, ef það er gert. Mér er óhætt að fullyrða að fá mál hafa fengið jafngóðan undirbúning og þetta mál. Það er ekki heldur nokkur vafi á því, að full nauðsyn er á afgreiðslu þess og að það verði sem fyrst gert að l. Ef ástæða er til að vísa þessu frv. til fjhn., vegna þess að útgjöldin yrðu svo mikil við fjölgun prestsembætta í Reykjavík, þá væri meiri ástæða til að vísa ýmsum öðrum frv. til hennar. T. d. hefir ekki þótt nauðsynlegt að láta fjhn. hafa héraðsskólalögin til meðferðar, þó að þau hafi mörg hundruð þús. kr. útgjöld í för með sér. Það hefir ekki heldur verið orðað að senda frv. um rannsóknir í þágu landbúnaðarins, sem hv. 2. þm. Skagf. hefir flutt ásamt öðrum þm., til fjhn. Svo er og um fjölda frv., sem komið hafa frá n., þó að þau hafi mikil útgjöld í för með sér, að ekki hefir þótt ástæða til að vísa þeim til fjhn. Hér er því verið að gera tilraun til að fresta afgreiðslu þessa máls með því að senda það frá einni n. til annarar, og eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Skagf., þá fannst honum, að málið mætti bíða. Ég hygg, að hugur þessa hv. þm. hafi verið bundinn við önnur verkefni um dagana en kristindómsstarfið, og við því er ekkert að segja. Hann hefir hugsað meira um landbúnaðinn og er ákafur að koma fram þeim málum, sem þar mega að gagni koma. En hv. þm. þarf að skiljast, að þarfir fjöldans takmarkast ekki við afkomuna eina, heldur felast og í margvíslegum menningarstörfum engu síður. Því að enn eru í gildi þau orð, að „maðurinn lifir ekki á brauði einu saman“. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að kirkjulífið hér í Reykjavík hefir ekki fylgt þeirri þróun, sem verið hefir á öðrum sviðum á síðustu árum, vegna þess að ekkert hefir verið hirt um kirkjumálin. Ef við lítum til annara landa, þar sem þessi mál eru í sæmilegu horfi, þekkist vart sá prestur, sem hefir meira en 5 þús. manna söfnuð. Við vitum líka, að í mörgum stærri kaupstöðum þessa lands, t. d. Akureyri, eru söfnuðir ekki stærri, en samt hafa prestarnir þar meira en nóg að gera. Hér í Reykjavík er söfnuður með 30 þús. meðlimi, og hver maður, sem er sanngjarn, getur séð, að það er alveg óhugsandi að ætla tveimur mönnum svo mikið verk. Svo er deilt á prestana fyrir að þeir ræki ekki sitt starf, þó að það sé svo umfangsmikið, að þeir geti ekki gert betur. Ef við lítum til kristindómsfræðslunnar, þá hefir sami presturinn fleiri hundruð börn til að uppfræða í einu. Við getum sagt okkur það sjálfir, að hvaða gagni það muni koma, að kenna svo stórum hóp á skömmum tíma, enda þarf ekki að búast við sæmilegum árangri. Þetta verður óumflýjanlega að lagfæra, ef við eigum að fylgjast með tímanum í þessum efnum.

Að kirkjur hér séu sjaldan eða aldrei nema hálffullar, er of mikið að fullyrða, og hér í Reykjavík eru þær fremur vel sóttar. Ég fer sjálfur oftast í kirkju, þegar ég er í bænum, og mér virðist fólk sækja þær vel og það ekkert vera frábitið kristindómi.

Í Sogamýri hefir sérstakur prestur myndað söfnuð, og guðsþjónustur hans eru mjög vel sóttar. Það er nauðsynlegt að koma upp kirkjum víðar í bænum fyrir þá, sem álíta, að kristindómsstarfið hafi einhverja þýðingu fyrir þjóðina. Það er hægt að áfella kirkjulega starfið í landinu af þeim, sem hvorki hafa þekkingu eða skilning á því, enda er það óspart gert. Í hinni

öru þróun seinni tíma er kirkjan eina stofnunin í landinu, sem staðið hefir í stað hvað ytri starfsskilyrði snertir. Hún hefir ekki verið byggð upp til þess að geta verið fær um að taka við nýjum verkefnum, heldur látin sitja við það gamla. En í hvert skipti, sem minnzt hefir verið á, að þetta þyrfti að lagfæra, hafa komið fram hjáróma raddir um, að bezt sé að láta málið bíða. En þeir, sem vilja láta allt bíða þar, eru manna fúsastir til að deila hart á kirkjulífið í landinu. Það væri gaman að sjá, hvernig væri ástatt um félagsstarfsemi í skólum og búnaðarfélagsins, ef hún fengi alltaf slíkar undirtektir á Alþ. Það væri líka hægt að koma með harðar ádeilur á slíka starfsemi og hvernig hún leysti sín verkefni, ef ekki væri fyrir hendi fullur skilningur á starfinu hjá þjóðinni. Ef einhver stofnun á að taka við nýjum verkefnum, væri óhugsandi annað en allt fari aflaga, hver svo sem stofnunin væri, við slíkar aðstæður. Ég vil fyrir mitt leyti mælast til þess, að frv. verði ekki frestað, heldur fái fljóta og góða afgreiðslu og verði ekki látið fara til fjhn.