27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé, að hæstv. kirkjumálarh. er ekki viðstaddur. En vegna þess að ég hefi kynnzt þessu máli í meðferð þess og verið þar, sem það hefir verið rætt í ríkisstj., og mér finnst, eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram um það, að það sér komið á svo breiðan grundvöll, að hv. þm. geti ekki vel áttað sig á aðalbreyt., þá langar mig til að segja örfá orð um það.

Mér skilst, að það sé um 4 aðalbreyt. að ræða, ef frv. verður að l.

1. og 2. breyt. er sú, að nú hafa verið skipaðir prestar í viðbót af sóknarn., og þeir hafa ekki verið kosnir af söfnuðinum hér í Reykjavík. Get ég ekki séð, að hv. þm. geti haft á móti því, að Reykvíkingar kjósi sína presta eins og annarstaðar er gert á landinu. Og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu sammála um það, að leggja ekki þessi prestsembætti niður. Þá er einnig talað um það, að Reykjavík skuli skipta í sóknir. Mér skilst, að það hljóti að eiga að teljast skynsamlegt, að prestarnir séu ekki skipaðir hver við hliðina á öðrum og allur bærinn svo óskiptur, heldur verði skipt í sóknir eins og annarstaðar á landinu.

Þriðja atriðið er, að fjölgað verði um tvo presta frá því, sem nú er. Það kann að vaxa mönnum í augum. En ekki hefir það nú samt við athugun á málinu verið látið standa í vegi hjá kirkjumálastjórn, þar sem tekið var tillit til þeirra óska, sem komu fram um það, og haldið var fram, að prestsþjónustunni gæti ekki verið sómasamlega borgið með færri en fjórum prestum, eins og Reykjavík er nú orðin stór bær.

Þetta mál má skeggræða fram og aftur og menn geta haft um það misjafnar skoðanir, en það virðist nú ekki verða hjá því komizt að breyta prestakallaskipuninni í samræmi við fólksfjölgun á einstökum stöðum á landinu. Og mér skilst bæði á biskupi og öðrum mönnum, sem hafa athugað málið, að þeir sjái fært að fækka á öðrum stöðum í landinu.

Fjórða atriðið er svo það, að dómkirkjusöfnuðinum er afhent kirkjan í Reykjavík, og skuli ríkið borga honum 300 þús. kr. á 30 árum. Þetta er byggt beinlínis á gögnum þeim, sem liggja fyrir ríkisstj., að ríkissjóður hafi hér beinlínis tekið af safnaðarfólkinu í Reykjavík og haft töluverðar tekjur af þeim gjöldum, sem til kirkjunnar hafa runnið. Og ég verð að telja vel sloppið, frá sjónarmiði ríkissjóðs, þegar búið er að athuga, hve miklir peningar hafa runnið þarna til ríkissjóðs, að borga nú á 30 árum 300 þús. kr. Það mun hafa verið miklu meira, sem ríkissjóður hefir fengið af slíkum gjöldum, og mundi þessi upphæð ekki vera einu sinni vextir af henni.

Ef á að gera þetta upp og menn vilja, að ríkið sleppi við að hafa kirkjuna, sem mjög er heppilegt frá sjónarmiði ríkissjóðs, þar sem kirkjunni verður að viðhalda, þá er hagkvæmara fyrir ríkissjóð að sleppa við að reka kirkjuna og hafa síðan hvorki veg né vanda af kirkjubyggingum.

Það er misskilningur, að verið sé að ræða um það hér í frv., hve stórar kirkjubyggingarnar eigi að vera, því að það verður eftir mati safnaðanna eins og annarstaðar. Heldur er hér um það að ræða, að ríkissjóður kaupi sig undan þeirri kvöð, að sjá um byggingu kirkju, með því að greiða þessar 300 þús. kr. Og tel ég þar vel sloppið hvað fjárhagsatriðið snertir út af fyrir sig. Hér þarf ekkert að fara út í það að ræða um, hve margar kirkjur þurfi að byggja; það er safnaðanna sjálfra að sjá um það.

Þetta virðist mér aðalatriði málsins eins og það liggur fyrir nú.

Ég ætla mér ekki að fara að blanda mér hér inn í neinar umr. um nauðsyn á starfsemi kirkjunnar. En hv. þm. verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja hlynna að starfsemi kirkjunnar eða ekki. Og ef menn eru ekki með því, að kirkjan geti haft sæmileg starfsskilyrði, verða þeir að taka afleiðingunum af því.