05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1941

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég ætla aðeins að minnast á þær fáu brtt., sem ég er flm. að.

Ég flyt brtt. þess efnis að hækka eftirlaun sr. Sigtryggs Guðlaugssonar úr 2300 kr. í 3000 kr. Í raun og veru er hér aðeins um leiðréttingu á fjárl. að ræða, eins og ég hefi skýrt hv. form. fjvn. frá, því að í það 11/2 ár, sem liðið er síðan hann lét af störfum, hafa honum verið greidd þessi eftirlaun, enda hefir stjórnarráðið skýrt svo frá, að hann hafi rétt til 3000 kr. eftirlauna.

Þá er till. um styrk til Súgfirðinga til að hafa lærða hjúkrunarkonu. Styrkur þessi, 1000 kr., hefir verið í fjárl. mörg undanfarin ár, og hygg ég, að það stafi meira af ókunnugleika, að hann hefir verið felldur niður. vænti ég því, að hann verði tekinn upp aftur.

Þá hefi ég flutt till. um, að Elínborgu Lárusdóttur skáldkonu verði veittar 1200 kr. Ég skipti mér ekki af því, hvort úthlutunin á styrkjum til skálda og listamanna fer fram hér eða verður í höndum menntamálaráðs. En fari svo, að menntamálaráð hafi úthlutunina með höndum, er till. áminning um það, að frú Elínborg hefir áður notið styrks í fjárl. fyrir ritstörf, og sízt ástæða til þess nú, að sá styrkur verði lækkaður.

Loks ber ég fram till. um styrk til Halldórs Kiljans Laxness. Hann hefir áður haft styrk. þann hæsta sem nokkur rithöfundur hefir haft. Þegar hann á unga aldri hlaut svo háan ritstyrk, verður að álíta, að Alþ. hafi þá þegar talið hann hafa unnið þau afrek, sem þjóðin vildi minnast. Síðan hefir hann bætt við mörgum bókum, sem ekki er hægt að segja, að hann hafi minnkað af, enda þótt menn dæmi þær misjafnlega. Fæ ég því ekki skilið, að Alþ. eða menntamálaráð geti lækkað styrk til hans, verulega. Ég hefi að vísu í brtt. minni lækkað styrkinn nokkuð frá því, sem áður var, en eingöngu af þeim ástæðum, að sá rithöfundur. sem hefir hæstan ritstyrk nú, Gunnar Gunnarsson, hefir ekki nema 3500 kr. Vildi ég þannig hafa Halldór jafnan þeim, sem hæstan ritstyrk hefir nú.

Um þá hlið málsins, að Halldór kunni að hafa því pólitískar skoðanir, sem við óskuðum, að væru öðruvísi, ætla ég ekki að, ræða. Rithöfundar eins og Halldór Kiljan Laxness verða að vera frjálsir og óháðir um þá hluti. Ef þeir hafa þegar unnið þau afrek, sem lengi verður minnzt og verð eru talin mikilla launa, hefir þjóðin ekki misst neitt. Á þeim aldri, sem Halldór er nú, má og vænta þess að hann bæti miklu við. Slíkir menn, sem auka andlegan arf þjóðarinnar, eiga að njóta styrks, og við megum ekki láta það henda okkur að taka styrkinn af slíkum mönnum, þótt okkur kunni að mislíka eitthvað við þá í bili. Annars er mér persónul1ega ókunnugt um, hvaða pólitískar skoðanir Halldór hefir nú, en ég hefi alltaf talið, eftir hans eigin sögn, að hann væri ekki flokksbundinn.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessa till. mína. Mér þótti vanvirða að því fyrir Alþ., ef ekki kæmi fram till. um það, að Halldór Kiljan Laxness skyldi njóta sama styrks og sá rithöfundur, er hæstan styrk hefir. Er till. mín skilaboð til menntamálaráðs, ef það kemur í þess hlut að úthluta styrkjum til skálda og listamanna, að til þess sé ætlazt, að Halldór hljóti þennan styrk.