05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1941

*Garðar Þorsteinsson:

Ég mun ekki tefja umr. lengi. Ég er flm. að nokkrum brtt. við fjárl., en ekki 1. flm. nema að tveimur till.

Það, sem ég vildi leggja sérstaka áherzlu á, er 5000 kr. fjárveiting til sjóvarnargarðs og uppfyllingar í Ólafsfirði. Þetta verk er þegar unnið og kostaði 30000 kr. Alþ. mun hafa álitið, að hér væri um einkafyrirtæki að ræða, sem ekki ætti að njóta opinbers styrks. Þessi skoðun er á misskilningi byggð. verk þetta er reist eftir teikningum og áætlunum vitamálastjóra og að öllu leyti að hans fyrirsögn. Þessi sjóvarnargarður og uppfylling er þess eðlis, að það kemur til góða allri útgerð Ólafsfjarðar og þeim, sem vildu leggja þar upp síldveiði. Samskonar mannvirki hafa verið styrkt áður með 1/3 hl. kostnaðarverðs. Ég skil ekki í því, að neitt það hafi komið fram, er geri það að verkum, að Ólafsfirðingar eigi ekki að njóta sama styrks og venja hefir verið að veita áður.

Þá vildi ég og leggja áherzlu að, að till. um 25000 kr. fjárveitingu til Siglufjarðarskarðsvegar verði samþ. hað er vitanlegt, að fjöldi manna streymir til Siglufjarðar yfir sumartímann, en Siglfirðingar eru útilokaðir frá því að hafa samband við uppsveitirnar landveg. Sú búfjárrækt, sem unnt er að stunda í Siglufirði sjálfum, fullnægir á engan hátt þörfum kaupstaðarins, og verður því að flytja það, er til vantar af landbúnaðarafurðum. annaðhvort á hestum yfir Siglufjarðarskarð eða á bátum innan úr Eyjafirði.

Þá vil ég að lokum minnast á eina brtt., sem ég álít, að hv. framsóknarmenn hljóti sóma síns vegna að samþ. Undanfarið hefir styrkur til verzlunarskóla Íslands og samvinnuskólans í Reykjavík numið 10000 kr. samtals, og hafa verið greiddar 5000 kr. til hvors skólans. Ég legg til, að veitt verði sama upphæð áfram, en að greiðsla til hvors skólans fari eftir nemendafjölda. Síðastl. ár voru í verzlunarskóla Íslands 300 nemendur og í samvinnuskólanum 52 nemendur. Finnst mér fjarri öllum sanni, að skóli, sem hefir sex sinnum færri nemendur, njóti sama styrks og hinn; í samvinnuskólanum hefir komið um 100 kr. styrkur á hvern nemanda, en um 16 kr. á hvern nemanda verzlunarskólans. Hér er ekki farið fram á annað en að lögfesta það, sem áður hefir verið lögfest í öðru tilfelli. Á ég þar við samþykktir síðasta þings viðvíkjandi héraðsskólunum, þar sem styrkveitingar eru miðaðar við nemendafjölda. auk þess hefir hin góða og gilda höfðatöluregla verið látin gilda hér í öðrum tilfellum sérstaklega. (BSt: Er hv. þm. genginn inn á hana?). Ég hefi sagt, að þessi regla geti verið góð, en hún er það ekki alltaf. Í þessu tilfelli er hún sanngjörn, en öðru máli er að gegna um þau tilfelli, þar sem flokksbræður þessa hv. þm., sem greip fram í, beita henni til hins ýtrasta.

Ég vænti þess. að Alþ geti fallizt á þessa till. mína, sérstaklega með tilliti til þess, að lögfest hefir verið samskonar ákvæði í héraðsskólalögunum. Ég myndi mótmæla því, ef því væri haldið fram um nokkurn þm., að hann væri svo ósanngjarn, að hann vildi láta greiða sama styrk til skóla, sem hefir 300 nemendur, og skóla, sem hefir 52 nemendur.