27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

90. mál, friðun arnar og vals

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég sé, að frv. þetta er flutt af hv. allshn., en ég vona, að hv. n. vilji athuga það nánar milli umr., og vil ég skjóta hér fram nokkrum aths. um málið. Ég tel vafa, hvort ekki sé rétt að taka í frv. ákvæði um það, að leyfilegt skuli vera við ákveðin skilyrði að drepa erni. Ég veit til þess, að þeir geta sumstaðar verið mestu skaðræðisgripir. Árið 1929 verpti örn í varphólma í Barðastrandarsýslu. Ráðh. var þá símað og spurzt fyrir um það, hvað gera skyldi við örninn. Hann drap unga fyrir varpeigendum og flæmdi fugl burtu og kostaði 26 pund af dún, en um það rýrnaði dúntekjan miðað við árin á undan og eftir. Vorið 1929 drap örn 28 lömb fyrir bónda á Skógarströnd. 13óndi vissi, hvar örninn átti hreiður, en mátti ekki hreyfa við hreiðrinu. Árið 1934 drap örn milli 10 og 20 lömb frá Litlanesi á Barðaströnd. Ég veit ekki nema rétt væri að setja í l. ákvæði varðandi svona tilfelli, sem eru að vísu fá, þar sem leyft sé að ráða niðurlögum arnar, en annars sé hann ekki drepinn.