29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

90. mál, friðun arnar og vals

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi ekki spurt málfróða menn um það atriði, sem hv. 2. landsk. minntist síðast á, en ég vil aðeins benda á það, að það hefir verið venja í lagamáli að nota eignarfall eintölu um fugla, t. d. ófriðun svartbaks, friðun rjúpu; og þess vegna tel ég réttara að nota sömu mynd hér eins og almennt hefir verið notuð, og auk þess tel ég það heldur fallegra þarna.

Hv. 2. landsk. sagði, að örn verpti aldrei í varplandi. Það getur þó komið fyrir. Ég get gefið þær upplýsingar, að síðastl. vor verpti örn í varplandi Háskóla Íslands, þ. e. a. s. eyju, sem háskólinn á. Það hefir komið mjög oft fyrir á Breiðafjarðareyjum, að örn hafi orpið þar, einkum áður fyrr, meðan örninn var algengur, og þá hrakti hann æðarfuglinn mjög úr eyjunum, og það getur komið fyrir aftur, því að búast má við, að honum fari að fjölga þegar hann er friðaður. En sem sagt, þegar það kemur fyrir, er ekki nema eðlilegt, að varpeigendur reyni með einhverju móti að eyða erninum, þegar lífsbjörg þeirra er í voða, og það væri miklu betur viðeigandi, að menn þyrftu ekki að brjóta l. til þess. Enda þótt venjulegast verði engir til að kæra slík lögbrot, virðist þó vera rétt að gera þessa undantekningu. Ég geri ráð fyrir, að lögreglustjórar fari ekki illa með þessi ákvæði og þeir leyfi ekki þessa undanþágu nema full þörf sé til.

Ef Alþ. samþ. að þessu sinni l. um friðun arnar, þá held ég, að réttara sé að samþ. brtt. á þskj. 253 en að fella hana.