05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1941

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég er hér meðflm. að alimörgum brtt. á þskj. 308, og hefir að vísu verið mælt fyrir sumum þeirra af hv. 1. landsk. (BrB) og hv. 4. landsk. (ÍslH), en ég vil drepa nánar á ýmsar þeirra.

1. brtt. er um að lækka borðfé konungs úr 75 þús. í 15 þús. kr. Það er heldur meira en við höfum lagt til áður, en við viljum fylgja fordæmi þjóðstj. í því að skera rösklega niður þar, sem gjarnan sýnist mega spara. Þetta borðfé hefir nú hækkað mjög, að samt skapi og dönsk króna, og kemur fram í því, að ekki er litið á konunginn sem íslenzkan embættismann. Fara þá skyldurnar við hann að verða harla vafasamar.

Þá leggjum við til að fella niður 50 þús. kr. greiðslu til verzlunarfulltrúa erlendis. Ég býst við, að þau verzlunarfyrirtæki, sem standa að innflutningi til landsins og útflutningi, muni hvort sem er hafa sína viðskiptafulltrúa í Ameríku og annarstaðar í aðalmarkaðslöndum okkar, og muni vera fær um að bera kostnaðinn af þeim sjálf.

Þá er brtt. um að spara 50 þús. af hinum áætlaða kostnaði við lögregluna í Reykjavík. Ég álít það óhætt, og þeim peningum betur varið til atvinnuaukningar en til að vopna lögregluna, í þeim tilgangi, að hún geti þá betur slegið atvinnuleysingjana niður. Sakamálakostnaður ætti líka að geta lækkað, eins og við leggjum til, úr 65 þús. í 50 þús. Þó að hið háa Alþingi stefni nú í flestu í öfuga átt við þessar brtt. okkar, kemur að því, að menn sjái, að þær stefna rétt.

Þá vil ég nefna XV. brtt., um 20 þús. kr. til kennslu í nýjum námsgreinum samkv. till. háskólaráðs, og falli þá niður styrkurinn til viðskiptaháskóla, ennfremur að framlag til íþróttasjóðs hækki úr 30 þús. í 50 þús. kr. Um fyrri liðinn get ég vitnað til þeirra raka, sem háskólaráðið hefir borið fram, og óska um miklu fjölbreyttari kennslu en nú er kostur. Um mál íþróttasjóðs hefir nú orðið sú breyting, sem ég sé á þskj. 327, að fjvn. vill hækka tillögu sína um framlagið úr 32 þús. í 40 þús. kr. Þó að það gangi fram, væri ekki fullnægt þörfunum, og munum við sósíalistar halda fram till. okkar og reyna, hvort alvara hefir verið bak við fögur orð hv. þm. hér um daginn, þegar þessi upphæð, 50 þús., þótti yfirleitt ekki of há, en fellt var að binda hana til margra ára.

Um XXIX brtt. hefir hv. 1 landsk. rætt. Um atvinnuþörfina, sem er fyrir höndum, eru allir sammála. Ófaglærðir verkamenn hafa það kannske ekki bölvaðra en áður, ef hitaveitan heldur áfram og útgerð verður allmikil vegna styrjaldarmarkaðs. En fiskverkun sýnist enga atvinnu munu gefa í sumar. Og menn vita, hvernig lítur út með byggingarvinnuna. Hér er því ekki að ræða um þörfina, heldur vilja hv. þm. Þessu skyld er XXXVI. brtt., unt að hækka framlag til byggingarsjóða kaupstaða og kauptúna úr 120 þús. í 300 þús. kr., eða til vara í 180 þús. kr. því örðugra sem er um byggingar almennt, því meiri er nauðsynin að byggja fyrir þá fátækustu í landinu, strax þegar um hægist eftir stríð. Þeir hv. þm., sem berjast nú fyrir ýmsum till. um að leggja fé í sjóði, nýja sjóði. ættu a.m.k. að vera með því að halda loforð, gefin um 1930, við þá sjóði, sem fyrir eru, og horfa til slíkra þjóðþrifa sem þessir byggingarsjóðir.

Síðasta brtt. okkar er um að fella burt lækkunarheimild gjalda, er nemur 35% og er geysileg skerðing á fjárveitingarvaldi Alþingis. Annað eins á ekki að standa í fjárl. Alþingis, sem er að ræða um það að treysta sinn lýðræðislega rétt. Ef ástandið breytist svo, að slíkrar lækkunar sé þörf, á að kalla þingið saman, því að þá verður hvort sem er að grípa til nýrra ráðstafana og þyngja álögur á þeim, sem geta borið þær, eða skera niður önnur gjöld en þessi heimild nær til.

Þá vildi ég að lokum minnast á brtt. um styrk til skálda og listamanna. Ég held ég hafi aldrei áður talað um það mál hér á þingi, en kemst ekki hjá því, þegar deilt er um, hvort vísa eigi þeim málum til menntamálaráðs, illu heilli, að ég tel, eða samþ. till. fjmrh., sem vill halda þessu fjárveitingarvaldi í höndum þingsins, og ennfremur liggja fyrir brtt. einstakra þm. um styrk til manna, sem útiloka átti af pólitískum ástæðum.

Hæstv. fjmrh. (JakM) vildi skýra það í ræðu sinni. hvers vegna hann hefði skorið niður styrkveitingar til Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og Jóhannesar úr ilötlunt. Það var af því, að þessir menn væru annarar stjórnmálaskoðunar en hann; þeir væru móti hagsmunum þjóðfélagsins, og hann hafði mjög einkennileg orð um þeirra afstöðu. Hann dæmdi skáldin eingöngu eftir því, hvaða pólitískar skoðanir þau hefðu, minntist ekki á skáldskap þeirra, og ekki Jónas Jónsson heldur, hv. þm. S.-Þ. Það var eins og þessir hv. þm. teldu listargildi verka þeirra hafið yfir allan efa, og er það gleðilegt, ef það sýndi háttstandandi listarsmekk þeirra þm.

En hvað átti hæstv. ráðh. við, þegar hann hélt því fram, að skáldin væru „móti lýðræðinu“? Ekki þó móti mannréttindunum, lýðræðinu í eiginlegri merkingu sinni? Nei, þarna eru skáld, sem hafa ráðizt á óréttlætið og hræsnina í þjóðfélaginu með brennandi hita og fordæmt það mannréttindaleysi og Iýðræðisskort, sem lamar alla alþýðu. Um þetta eitt eru þeir í rauninni sakaðir og fundnir sekir. Þess vegna þora menn ekki að vega að skáldskap þeirra.

Ég ætla ekki að hafa upp neitt úr skáldskap þessara manna fyrir hv. þm., þeir telja sig ekki varða um annað en pólitískar skoðanir þeirra. Að því hefir verið fundið, hve Leiðinlega var deilt hér á þinginu um skáldskap Þorsteins Erlingssonar af líku tilefni fyrir rúmum mannsaldri. Þær deilur urðu mörgum þm. til skammar síðar. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkrar setningar, sem gefa hugmynd unt. hvernig þær umr. voru. Fyrst tek ég orð eftir Skúla Thoroddsen 1903 (Alþt. B, 448–49):

„Sumir hafa fundið það að Þorsteini Erlingssyni, að skáldskapur hans hafi gengið í eina of ákveðna stefnu; en þingið á í þessum efnum eigi að dæma milli mismunandi lífsskoðana, ekki að gá að því, hvort maðurinn aðhyllist þá trúarstefnu, sem ríkið hefir sett stimpil sinn á, heldur líta á hitt, hvort maðurinn er skáld, sem bókmenntum þjóðar vorrar er sómi að.“

Ég býst við því, að þessi fáu orð Skúla eigi fullt erindi til okkar enn í dag. Eru það lífsskoðanir þeirra eða skáldskapurinn, sent á að dæma þá eftir?

Þá er að taka nokkur atriði upp eftir þeim þm., sem deilt höfðu um Þorstein fyrr á þingum, t.d. 1897 (Alþt. B, 1007, 1157). Guðjón Guðlaugsson segir:

„En svo er ein ástæða til: mér finnst það næsta óviðkunnanlegt að veita þeim einum af skáldunum styrk, sem annaðhvort opinberlega hafa ráðizt á kristindóminn og reynt til að rífa það niður, sem þjóðinni er helgast, eða starfa í þjónustu kirkjunnar, en gera það þannig, að þeir eru hvorki heilir né hálfir, heldur bera kápuna á háðum öxlum. Menn gætu dregið af því þá ályktun, að alþingi áliti það sérstaklega verðlaunavert að níða niður kirkju og, kristindóm.“

Bæði Þorsteinn og Matthías Jochumsson eiga þessar hnútur. Sr. Sigurður Gunnarsson segir, að Þorsteinn hafi ekki aðeins gert árásir á kirkjuna, sem geti náttúrlega verið verðskuldaðar og þarfar, heldur einnig á sjálfa guðstrúna, og bætir við (Alþt. 1897, B. 1127):

„Á þennan hátt grefur hann sumstaðar í kveðskap sínum grundvöllinn undan hinni réttu siðferðislegu tilfinningu — ég get ekki verið með því að launa þessar tilraunir með því að veita til þeirra styrk af opinberu fé.“

Jens Pálsson er einkum hneykslaður yfir því, hvert léttmeti kveðskapur Þorsteins sé, og heldur svo áfram (Alþt. 1897, B. 1097):

„Hitt er verra, að efnið er sumstaðar ljótt og spillandi, bæði andlega og siðferðislega. — En ljóð hans eru snauð að því, sem gefur skáldskapnum sitt sannarlega gildi. Hann skortir lyftandi kraft og göfugar hugsanir.“

Nú hafið þið heyrt, hvað þessir þrír virðulegu þm. 19. aldarinnar höfðu að leggja til mála. Loks tek ég orð eftir Jón Jónsson í Múla, 2. þm. Eyfirðinga (Alþt. 1897, B. 1157 ):

“Þegar hann (Jens Pálsson) t.d. talar um, að „tendens“ í kvæðum Þorsteins Erlingssonar sé siðspillandi, þá verð ég að gera á algerlegu gagnstæðu máli, því að ég held, að við eigum ekkert íslenzkt skáld, sem sé minna siðspillandi en Þorsteinn Erlingsson.“

Nú vildi ég aðeins segja við ykkur, hv. þm., að þessir gömlu kirkjulega sinnuðu menn, sem töluðu á sínum tíma móti Þorsteini Erlingssyni, gerðu það af eðlilegri sannfæringu, sem við ættum að geta skilið. Sagan má ekki dæma þá of hart. þó að hún hafi þegar dæmt málstað þeirra. Sagan á miklu örðugra með að afsaka á sínum tíma afstöðu þeirra, sem tala nú gegn mönnum eins og Halldóri Laxness gegn sinni betri vitund. Ástæðan er sú, að þrá var þessi barátta miklu síður stéttareðlis en nú og yfirdrepsskapur auðvaldsþjóðfélagsins miklu minna ráðandi. Það er eftirtektarvert, að ákærurnar á hendur Þorsteini miðast allar við kristindóminn, enginn fæst um það, þótt hann hafi sagt ljótt um þjóðfélagið. Og hafði hann þó sannarlega ort svo, að eftir mundi tekið nú á dögum og sagt hann væri fjandmaður þjóðarinnar og lýðræðisins og mannréttindanna. Hann tók fram, að árásir sínar á kirkjuna kæmu af því, að hún væri verkfæri auðvaldsins:

„Á prestana og trúna vér treystum þó mest

að tjóðra og reyra ykkur böndum,

því það eru vopnin, sem bíta hér bezt

í böðla og kúgara höndum.

við vonum það gullokið standi í stað

og stöðvi ykkar sonu og dætur,

sem herðir nú frjálsbornu hálsunum að

og hryggina svínbeygjast lætur.“

Þó að þessir 19. aldar þm. væru fullir af hleypidómum sinnar tíðar, hlustuðu þeir á annað eins og þetta óttalaust. Nú er óttinn kominn hjá þeim, sem standa vörð um auðvaldsskipulagið, og þá finnst þeim þetta, en ekki guðleysið, vera brot gegn því allrahelgasta. Ég held okkur sé það nauðsynlegt, einmitt í sambandi við þessar umr. um skáldin og andlegt frelsi í landinu, að líta aftur til 19. aldar mannanna, sem deildu um 600 kr. styrkinn til Þorsteins Erlingssonar. Já, það er ekki hlæjandi að 600 krónum, þær voru a.m.k. eins mikið þá og þrjú þúsund nú; hv. þm., sent hér sitja, þurfa ekkert að vera upp með sér af vaxandi rausn sinni við andans menn. Og líklega muna allir þm. þá landfleygu vísu, sem út af þeim 600 kr. var ort. Nú veit ég, að formælendur afturhaldsins á þingi afsaka sig með því, að Þorsteinn hafi ekki verið þjóðskipulaginu eins andstæður og t.d. Halldór Laxness, og því sé ekki víst um sig, að afturhaldið og ofstækið sé verra nú en afturhald 19. aldar. Þeim skjátlast. var það ekki Þorsteinn, sem kvað:

„Þá nötrar vor margyllta mannfélagshöll,

sem mæðir á kúgarans armi,

sem rifin og fúin og rammskekkt er öll

og rambar á helvítis barmi.“

Ég veit ekki, hvort þeir kveða núna öllu fastar að orði eða djarflegar móti þjóðfélaginu en í þessum vísum Þ. E. Ef skáldin núna vilja eyðileggja þjóðfélagið, eins og hæstv. fjmrh. talaði um, held ég mætti snúa því öllu skarpar upp á Þorstein.

Þá mun verða sagt, að ekki hafi Þorsteinn verið slíkur föðurlandsleysingi sem skáldin séu nú. Og jæja, hvað nefna þeir Þorstein annað en föðurlandsleysingja, þegar hann

„kallar sitt föðurland viðstöðulaust

af harðstjórum himins og jarðar“?

Þorsteinn vissi, að fjöldinn átti ekki föðurland sitt, heldur varð að vinna það af þeim, sem hafa rænt því af honum.

Eða þó ef þm. telja, að afstaða til stríðs og utanríkismála geti réttlætt styrksvipting og fordæming á skáldum, sem neita að fylgja valdhöfunum eftir, skal ég minna á skáldið Stephan G. Stephansson, sem flestir þm. meta ekki minna en Þ. E. Það stóð stríð 1917. Bandamenn voru, eins og alltaf, að berjast fyrir lýðræðinu, en þjóðverjar höfðu tekið Belgíu líkt og Pólland núna. Það var sagt, að þeir væru ættlerar, sem færu ekki til vígvallanna til að berjast fyrir lýðræðið, og fjandmenn þjóðfélagsins hétu þeir, sem leyfðu sér að segja, að stríðið væri ekki háð fyrir lýðræðið, heldur fyrir auðvaldið. Þessa er gott að minnast, þegar Halldór Laxness eða Þórbergur eru merktir fjandmenn þjóðfélagsins fyrir skoðanir, sem þeir hafa — eða skoðanir, sem þeir hafa ekki — á þessu stríði og orsökum og tilgangi þess. Ég vil minna á, hvernig Stephan G. lsir því í kvæðinu vopnahlé, að hermaðurinn, sem berst, „á hvergi fet af föðurlandi“, og á hina bitru og átakanlegu kveðju Fjallkonunnar til íslenzkra Kanadahermanna við heimkomuna:

„Mér hrynja tár um kinnar,

mér hrekkur ljóð af vör

við heimkomuna ykkar

úr slíkri mæðuför,

með skarð í hverjum skildi,

með bróðurblóð á hjör.

Þann allra stærsta greiða

en vildarlaust — mér vann

sá vopnum fletti börnin mín,

og sátt er ég við hann,

um gest minn síðan óhrædd er

og hult um heimamann.

En vei sé þeim! og vei sé þeim,

sem véla knérunn minn

að vega blindra höndum

í grannaflokkinn sinn,

eins hermilega og Höður

til óráðs auðsvikinn.

Minn frið til þeirra, er féllu.

Þú kyrrð og kös þá geym !

Og Kainsmerki leyndu

undir blóðstorkunni á þeim.

En að fá þá minni menn,

sem heimtast aftur heim,

er hugarraun mér þyngst.“

Þetta er ort til þeirra manna, sem berjast fyrir lýðræðinu og föðurlandi sínu. Þetta kvæði er ort af þeim manni, sem ég veit. að hver einasti þm. lítur upp til, ekki einungis sem skálds, heldur einnig sem mesta spekings, er íslenzka þjóðin hefir alið. Mynduð þið nú, hv. þm., ef þið ættuð kost á því að bjóða St. G. St. heim, segja, að þið vilduð ekki líta við slíkum manni, vegna þess að hann tæki svona afstöðu í erlendri pólitík. En ég vil nú spyrja ykkur, hv. þm.: Gætuð þið nú ekki byrjað á því að viðurkenna skáldin, meðan þau eru lifandi, en sleppa heldur hinu, að reisa fagra legsteina, þegar þau eru dáin? Ég held a.m.k., að það væri mikið framfaraspor. Þarf það að endurtaka sig, að alitaf sé leikinn sami leikurinn í þessu efni?

Ég vil svo að síðustu segja það, að af hálfu Þm. virðist eingöngu rætt um það, hvort þessi þrjú skáld eigi að fá styrk vegna sinna pólitísku skoðana. en alls ekki um hitt, hvort þau séu þess verðug vegna sinna listamannahæfileika. Ég vil í þessu sambandi minna ykkur. hv. þm., á tvær bendingar úr níðkvæði um Breta, eftir Stephan G. Stephansson. Þær eru svona: „Og öllu, er skrifa skáldin þín,

er skildingsmerkið sama á !“

Alþ. Íslendinga er, með því að ætla að gera þá kröfu til skáldanna, að þau yrki eins og hagsmunir hinna ríku bjóða, að þrýsta skildingsmerkinu á enni hvers einasta manns, sem vill halda uppi skáldskap og listum á því herrans ári 1940. Það á að refsa þessum skáldum með því að taka af þeim styrkinn, vegna þess að þau hafa ráðizt á ranglætið og óréttlætið í þjóðfélaginu. Það er aðalsmerkið, sem ein hin beztu skáld Íslendinga fá hjá Alþ. 1940.