29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

90. mál, friðun arnar og vals

*Magnús Gíslason:

Allshn. hefir flutt þetta frv. eftir beiðni hæstv. forsrh., því að samkv. gildandi l. var friðunartíminn útrunninn 1. jan. 1940. Allshn. er þeirrar skoðunar, að nú þegar sé orðið svo lítið um þennan fugl, að nokkur hætta sé á því, ef hann verður ekki friðaður áfram, að honum yrði algerlega útrýmt. Hinsvegar var n. ljóst, eins og kom fram við 1. umr. þessa máls, að þetta yrði nokkuð hart fyrir þá, sem verða fyrir búsifjum af völdum arnarins, eins og hv. 1. þm. N.-M. lýsti hér yfir. Hann tók það fram, að ýmsir bændur hefðu beðið fjártjón af völdum arnarins. Það getur komið til álita, hvort ekki er rétt, þegar slík friðunarl. eru sett, að láta hið opinbera taka á sig skaðabótaskyldu gagnvart þeim, sem fyrir slíku tjóni verða. En þá kemur það til greina, að það er oftast erfiðleikum bundið fyrir hlutaðeigendur að sanna, að tjón það, er þeir hafa orðið fyrir, sé af völdum arnarins. Af þessum ástæðum mun það hafa verið, að n. taldi þýðingarlaust að setja slík ákvæði í l.

Ég er þeirrar skoðunar, að það muni sjaldan koma fyrir, að örn verpi þar, sem æðarvarp er; þó er mér sagt, að dæmi um slíkt séu til hér á landi. En ég held ekki, að svo mikil brögð séu að því, að mikil hætta sé í því fólgin, þó að brtt. á þskj. 253 yrði samþ. Þó gæti það e. t. v. orðið til þess, að slík friðunarl. næðu ekki tilgangi sínum og kæmu eigi að fullum notum, ef menn yrðu í hverju tilfelli að leita til viðkomandi lögreglustjóra og krefjast þess, að hann gerði ráðstafanir til þess, að örninn yrði ekki friðaður. Það væri e. t. v. heppilegra að láta þetta ekki vera komið undir áliti lögreglustjóra, heldur að ráðh. skyldi á hverjum tíma úrskurða, hverjum mætti veita undanþágu frá ákvæðum l., þannig að lögreglustjóri þyrfti að bera það undir hlutaðeigandi ráðh., hvort slík heimild yrði veitt. Ég tel það tryggara heldur en að láta það einungis vera komið undir áliti lögreglustjóra. Ef hægt væri að koma slíkri breyt. inn í frv., vildi ég fyrir mitt leyti, að hún fælist í brtt. á þskj. 253.