05.04.1940
Efri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

90. mál, friðun arnar og vals

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég var riðinn við afgreiðslu þessa máls á sínum tíma og líkaði ekki allskostar, hvernig hún varð. Nú hefir Nd. sett inn í frv. friðunarákvæði um val, svo að hann sé friðaður á sama hátt og örninn. Ég gat þess við umr. hér um daginn, að ég gæti sætt mig við þau ákvæði 2. gr., að ráðh. sé heimilt að gefa mönnum heimild til að friða varplönd sín fyrir þessum ránfuglum, ef þeir leggjast á þau, en mér finnst hinsvegar, að lágmark sektarinnar, 500 kr., sé óhæfilega hátt sett, þegar það á að ná bæði til vals og arnar, þegar líka á það er litið, að menn verða alltaf að leita til ráðh. í hvert skipti, sem þeir kunna að þurfa að friða eign sína gegn þessum vargi. Til þess að gera ekki ósamkomulag mun ég bera fram skrifl. brtt. um, að í staðinn fyrir 500–1000 kr. komi 100–1000 kr., svo að ef seinlega gengur að ná í ráðh., ef örn eða fálki leggst á varp, þá þurfi það ekki að kosta meira en 100 kr., þó að menn geri ráðstafanir til að friða varpið og neyðist til að drepa varginn þrátt fyrir lagabannið.

Ég vil svo afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. og vona, að hv. d. geti fallizt á hana.