01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

74. mál, verðlag

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir að vera sakaður um að hafa ekki farið með þetta mál eins og ástæða var til. Ég get upplýst, að þetta mál bar ég undir alla ríkisstj., og þar varð að samkomulagi, að ég bæri það til allshn. til flutnings á Alþingi. Svo mörg mál lágu þá fyrir ríkisstj., að ekki var tóm til að ræða frv. ýtarlega. En aðfinnslur hv. þm. um þetta eru óþarfar. Þá taldi hann sum ákvæði frv. sérstaklega til þess fallin að vekja tortryggni og andúð. Þetta held ég eigi við lítil rök að styðjast, enda hafa allir nm. í allshn. getað fallizt á ákvæði frv., með þeim breyt., sem lagt er til í nál. á þskj. 283. Þar haldast öll þau ákvæði, sem mestu máli skipta, m. a. þau, sem snerta iðnaðarmenn. Ákvæði 9. gr. voru svo vægilega sett, að þau gengu skemmra en í nálægum löndum, nema Danmörku, þar sem þau eru eins eða hliðstæð. Það má því segja, að 1. gr. veiti næga heimild í stað 9. gr., svo að hér sé ekki um mikla efnisbreyting að ræða hjá n. Og viðurkennt mun verða, að andúðin gegn frv., eins og n. gengur nú frá því, sé ekki rökstudd. Til viðbótar öðrum varnöglum frv. tók ég fram á fundi n., að tillit mundi verða tekið til þess við ákvæði um álagningu, ef umsetning vörutegunda minnkaði af óviðráðanlegum orsökum, og mun ríkisstj. sjá til þess, að svo verði gert.

Það er ekki rétt, að frv. sé illa undirbúið. Bak við það liggur nokkurra mánaða starf verðlagsnefndar og rannsóknir, sem í sambandi við það hafa verið gerðar, og athuganir á slíku fyrirkomulagi í fjórum nágrannalöndum okkar. Hitt er annað mál, að orðalag gæti orðið betra.

Ég vona, að hv. þdm. geti fallizt á að samþ. frv. með breyt., sem samkomulag er um milli mín og n.