12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

166. mál, Staðarprestakall á Reykjanesi

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þetta frv. mun vera komið frá ríkisstj. og hefur gengið í gegnum Nd. Frv. er um heimild til handa ríkisstj. að breyta um prestssetur í Staðarprestakalli á Reykjanesi, þ. e. a. s. að flytja prestssetrið að Reykhólum í sama hreppi. Allshn. þessarar d. leitaði sér upplýsinga um þetta mál og ræddi sérstaklega við þm. kjördæmisins og í öðru lagi við herra biskupinn, Sigurgeir Sigurðsson. Tilefni þessa máls má að nokkru leyti sjá í þeirri stuttu grg., sem fylgir frv., en höfuðástæðan fyrir því, að þetta mál er sótt af sóknarmönnum, er sú, að Reykhólar eru betur í sveit komnir sem prestssetur heldur en Staður. Það er mikill áhugi fyrir því, að á Reykhólum rísi upp menntasetur fyrir Breiðafjörð og ef til vill fyrir Vestfirði, og er þá mjög þægilegt að geta haft prestinn þar á staðnum sem virkan aðstoðarmann við slíkt menntasetur. Ég hygg, að þetta séu höfuðástæðurnar fyrir því, að þessi ósk hefur komið fram frá sóknarmönnum. Hins vegar er ekki því að neita, að af þessu hlyti að leiða það, að byggja þyrfti yfir prestinn á Reykhólum, en n. hefur verið tjáð, að bærinn á því núverandi prestssetri sé orðinn það forn, að óumflýjanlegt væri að byggja hann upp í náinni framtíð. Þá yrði sennilega að skipta einhverjum hluta úr jörðinni, til þess að presturinn gæti haft nokkurt bú, en það er kunnugt, að Staður á Reykjanesi er talinn með beztu bújörðum og hæg bújörð, og fyrir þá sök hafa prestar setið þar um langan aldur.

Að þessu öllu athuguðu telur n. rétt að mæla með því, að frv. verði samþ. og gefa þar með kirkjumálaráðuneytinu þessa heimild og láta það um það, hvort þessar ráðstafanir verða gerðar eða ekki.