10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

160. mál, ríkisreikningar 1939

Jón Pálmason:

Eins og hv. frsm. gat um, er enginn ágreiningur hjá fjhn. um að mæla með, að ríkisreikningurinn verði samþ. óbreyttur. En í tilefni af ágreiningi, sem á eldri rætur, þykir mér rétt að segja nokkur orð. Undanfarin ár hefur verið vísað til Alþingis nokkuð mörgum aths. En það sýnir sig, að Alþingi hefur ekkert með það gert. Nú hefur því verið slegið fram af einum þeim embættismanni, sem sætt hafði aðfinnslum í þessum aths., að þar sem Alþingi hefði ekki sinnt málinu, gæti þetta ekki verið aðfinnsluvert hjá sér. Þegar aukagreiðslur til embættismanna verða hærri en hin eiginlegu laun þeirra, eða þegar einum þeirra eru borgaðar nokkrar þúsundir fyrir að semja símaskrána eða búa til prentunar, þá er að sumu leyti eðlilegt, að þögn Alþingis um þá hluti, þótt þeim sé vikið undir dóm þess, sé skoðuð sem samþykki. En sá misskilningur má þó ekki festa rætur. Því höfum við tekið upp þá venju, að setja aths. til athugunar framvegis fyrir þá, sem hlut eiga að máli, og fyrir ríkisstjórnina, því að hún hefur betri tök á því en Alþingi hefur í önnum þingtímans.

Fáein einstök atriði vil ég nefna. Víða í reikningum ber tölunum ekki saman við ríkisreikninginn. Þegar við gerðum aths. um það; kom alltaf sama svarið: Það eru reikningar, gerðir upp á mismunandi tíma. — En það er mjög athugavert atriði, hvernig hægt er að koma á samræmi í reikningsfærslu og miða við sama tíma. Sem endurskoðunarmaður vil ég eindregið mælast til þess og að reikningum sé lokið eins fljótt og kostur er.

Hjá ýmsum stofnunum eða gjaldheimtumönnum ríkisins hefur innheimta dregizt. Útistandandi skuldir fara vaxandi ár frá ári og nema stórfé. Aðfinnslum er svarað út í hött af ráðuneytum, þegar hjá þeim er leitað svara og aðgerða. Þegar tekið er tillit til þess, sem strikað hefur verið út af töpuðum skuldum, hafa þær enn vaxið þrátt fyrir góðæri. Þá verður að minna á, að 340 þús. kr. krafa um stuðning til héraða, sem bíða tjón af mæðiveikinni, er enn óinnheimt frá þeim héruðum, sem hafa ekki beðið tjón af henni.

Fjárhald sumra einstakra stofnana er á líkum vegi og áður; þótt stríðið hafi raunar haft þar nokkur áhrif. Ríkisútvarpið hefur t. d. engum breytingum tekið í því efni, þótt ráðh. lofaði, að það skyldi verða athugað.

Hvanneyrarbúið og bændaskólabúin bæði skila mjög ófullkomnum reikningum, og vænti ég, að ríkisstj. sjái til þess, að því verði kippt í lag á næsta ári.

Með þessum fáu orðum vildi ég aðallega ítreka það og skýra, sem ég hef sagt, að við höfum tekið upp nýjan hátt um aths. okkar í þeirri von, að betri aðgæzla verði þá höfð framvegis en var á árinu 1939.