11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil ekki, að þetta frv. fari svo í gegnum þingið, að ég geri ekki grein fyrir, hvers vegna ég mun greiða atkv. eins og ég mun gera. — Þetta mál lá áður fyrir Sþ. og var þá rætt með öðrum málum þar, og þá greiddi ég atkvæði á móti því, og hér vil ég gera grein fyrir hvers vegna, og er það því fremur ágætt tækifæri til þess, þar sem málið hefur fengið viðauka, nefnilega í 10. gr., en þar er ákveðið, að ríkisstjóri skuli hafa aðsetur í Reykjavík eða næsta nágrenni. — Þetta atriði er mjög óákveðið, og það er undarlegt, að ekki skuli fást nánari greinargerð fyrir þessu. Það hefur þó ekki svo litla þýðingu, hvað. þetta kostar. — Í heilt ár hefur það verið svo, að ríkisstj. hefur farið með æðstu stjórn landsins, og á meðan sveina ástand ríkir í heiminum og við lifum undir stjórnarl., sem eru úr gildi fallin, þá finnst mér óþarfi og í hæsta máta undarlegt að vera að breyta þessu óskipulega skipulagi. Hér er um nýjan kostnað að ræða, og svo á að kaupa jarðnæði og hús í fjarlægð frá Reykjavík fyrir æðsta mann landsins á stað, sem er bæði óhentuglega og ósmekklega valinn. Það mun og kosta mikið að kaupa hann og útbúa þannig, að hann verði boðlegur jafnháttsettum manni.

Þetta finnst mér nægilegt tilefni til að gera athugasemd við, og vil ég fá því svarað, hvort ákveðið sé að kaupa þennan stað og þá, hvað hann eigi að kosta. — Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra að þessu, því ég sé, að það er eini ráðherrann, sem nú er staddur hér í hv. deild.

Svo er annað, sem ég vil minnast á í sambandi við þetta, og það er, með hverjum hætti ríkisstjórinn verður kosinn. Það á að kjósa hann af Alþ. — Það finnst mér ekki rétt, og þetta getur orðið fordæmi síðar, þegar um forsetakosningu yrði að ræða, að hann yrði kosinn á sama hátt. Það hlýtur að vera krafa alþjóðar, að æðsti maður landsins sé kosinn af almenningi, en ekki af Alþ., af því að á Alþ. eru svo mikil flokkaskipti og er hætt við bræðingi um málið þar og ekki víst, að sá maður yrði fyrir valinu, sem alþjóð hefði kosið. Það verður að kjósa mann í þetta embætti, sem er alveg óbundinn af pólitískum málum, en því miður er erfitt að finna góðan mann, sem er alveg laus við pólitísk mál. Bezta tryggingin er að kjósa æðsta mann landsins af kjósendunum. Þetta er nokkurs konar millibilsembætti, og ég býst við, að hv. ríkisstjórn svari þessu með því, að þetta eigi ekki að vera til frambúðar, og síðar verði öðruvísi háttað með kosningu æðsta valdsmanns landsins. En ég álít, að þetta geti orðið hættulegt fordæmi síðar.

Nú eru líkur til, að fyrir valinu verði ágætur maður, og þess vegna væri hægt að segja síðar, að í þetta sinn hefði Alþ. tekizt vel í vali sínu, og því þá að vera að breyta til um kosningu. Þannig gætu menn talað síðar, en slíkt má ekki vera, að æðsti maður landsins verði kosinn af Alþ., og framvegis verður að gera kröfu til þess, að hann verði kosinn af kjósendum landsins. Bæði af þessari ástæðu og eins vegna þess, að mér finnst engin þörf á að taka þetta vald af ríkisstjórninni, þá mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv.