11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það hefur verið spurt að því, hvort Bessastaðir verði keyptir fyrir ríkisstjórabústað, og fyrir hvaða verð. — Það stendur í frv., í 10. gr. þess, að ríkisstjóri skuli hafa aðsetur í Reykjavík eða næsta nágrenni, og það er því enn þá á valdi Alþ. að ákveða, hvort ríkisstjórinn situr í Reykjavík eða á Bessastöðum. Þeir, sem ekki vilja, að hann sitji á Bessastöðum, geta komið með brtt. við 10. gr., og ef sú brtt. yrði samþ., þá eru Bessastaðir útilokaðir, því þá nær heimildin ekki lengra en til Reykjavíkur. — En ef 10. gr. frv. helzt óbreytt og frv. verður samþ. þannig, þá verða Bessastaðir keyptir, og ég get upplýst hér, að eigandi Bessastaða mundi afhenda jörðina án þess að hækka hana frá því, sem hann keypti hana, en það verð er miðað við fyrir stríð. — Viðgerðarkostnaður yrði aldrei mjög mikill, því nýlega hefur verið gert við húsið allmikið.

Í sambandi við þetta má geta .þess, að í umr. um þetta mál hér um daginn var talið sjálfsagt af mörgum að kaupa húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg hér í bænum. Ég neita því ekki, að þetta er mjög myndarlegt hús, en það er nálægt 40 ára gamalt. (Fjmrh: 30 ára mun vera nærri sanni.) Það er nú sama, hvort það er 30 eða 40 ára gamalt, mér er nær að halda, að það sé 40 ára, þá er vitað, að gömul timburhús eru farin að láta á sjá. Járnið í þeim er ryðgað og viðurinn fúinn, og nú hefur það síðustu árin verið notað undir skrifstofur. — Þar að auki mundi það kosta nálægt 300 þús. kr., og viðgerðarkostnaður yrði aldrei lægri en 100 þús. kr.

Ég vil ekki eiga þátt í, að gamalt timburhús sé keypt fyrir 400 þús. kr. Það þekkist heldur hvergi í víðri veröld, að forseta sé holað niður í námunda við íshús eða unglingaskóla. Ef ríkisstjóri eða forseti ættu að eiga sæti hér í. Reykjavík, þá yrði að byggja sérstakan bústað einhvers staðar á góðum stað í útjaðri bæjarins.

Það yrði ekki hjá því komizt; að rífa þyrfti húsið á Fríkirkjuvegi 11 eftir 8–10 ár, og margir eru þeirrar skoðunar, að það bæri að rífa það strax, og þar að auki er lóðin líka of lítil fyrir bústað þessa manns.

Hins vegar má benda á það, að þegar talað er um, að Bessastaðir séu of langt frá bænum, þá mun sú vegalengd ekki vera meiri en víða í stórborgum erlendis, og Hafnarfjörður og Reykjavík mundu vaxa saman með tímanum, svo ég tel, að sú ráðstöfun að kaupa Bessastaði fyrir ríkisstjórabústað beri aðeins vott um, að hugsað sé fram í tímann. Hitt, að þessi staður hafi verið aðsetursstaður valds, sem var illa liðið hér á landi, það eru svo hlægileg rök, að halda því fram, að einhver staður sé vanhelgaður af því einu, að þar hafi verið beitt erlendu valdi. Þvílík fjarstæða!

Hvernig var með Skálholt, þennan helga stað? Ekki eru ljúfari minningar tengdar við hann. Og hvernig var með Hóla?

Ég ætla, að ef við ættum að telja hvern þann stað á Íslandi vanhelgan, þar sem erlendu valdi hefur verið beitt, þá yrðu þeir nokkuð margir staðirnir, sem yrðu í þeirri tölu, og takmark okkar með því að fá fullt frelsi er að gera hvern þann stað, þar sem erlendu valdi hefur verið beitt, að íslenzkum stöðum, þaðan sem íslenzku valdi er beitt, eins og komizt var að orði af einum þeirra, sem mælt hafa með því, að Bessastaðir yrðu keyptir.

Að þessi staður sé ljótur, hef ég satt að segja ekki heyrt fyrr en fyrir tveimur dögum, enda er vitað, að þeir, sem hafa valið þann stað fyrir skólasetur, og þeir menn, sem úr fjarlægð hugsuðu heim til Íslands, þeir völdu sér fegursta staðinn í nágrenni Reykjavíkur. Þar vildu þeir eiga heima, bæði læknirinn, sem bjó þar, og eins Grímur Thomsen. Það var þessi staður, sem dró þá til sín. Það vita allir, að þetta er höfuðból, og þeir, sem bjuggu þarna, vissu, að þetta var einn af þeim 3 fegurstu stöðum vestan heiðar í nágrenni Reykjavíkur, sem um var að velja, og um það hefur heldur aldrei verið deilt.

Ég vil því vekja sérstaka athygli á ákvæðum 10. gr. og vil, að það komi skýrt fram, að þegar verið er að velja aðsetursstað fyrir ríkisstjóra eða forseta, þá á að velja honum fallegan stað, þar sem rúmt er um hann, og það verður gert, nema Alþingi taki þar fram fyrir hendurnar um að hola honum niður á einni láð, þó að sá staður sé fallegur og það hús, sem þar er byggt, sé eitt af myndarlegustu húsum í bænum.

Ég vil því, að það komi skýrt fram, að gefnu tilefni vegna þeirrar fyrirspurnar, sem fram hefur komið, hver er vilji Alþingis í þessu máli, því að án þess að taka beina afstöðu til þess vil ég ekki taka á mig þá ábyrgð að kaupa gamalt timburhús fyrir hundruð þúsunda, sem ekki getur dugað nema svo sem 8 ár. Ég vil ekki, að það komi fram í Alþt., að ég hafi mælt með því.