11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Hv. þm. Borgf. taldi, að ef valinn væri bústaður, sem er utan við bæinn nú, en mundi verða í honum eftir nokkur ár, þá mundi það auka kostnaðinn. Ég held, að ekki sé lengra suður að Bessastöðum en innan bæja í öðrum ríkjum. Vitanlega yrði ríkisstjóri að hafa skrifstofu utan bústaðar síns, hvort sem hann sæti að Bessastöðum eða í Reykjavík. Mundi hann vinna hér ýmis störf og embættisverk, en þegar hann tæki á móti gestum, mundi hann að jafnaði bjóða þeim heim og halda uppi risnu á bústað sínum. Held ég því, að enginn aukakostnaður yrði að þessu. Ég held, að fá megi staðinn fyrir gott verð, þó að eigandanum sé ekkert áhugamál að selja hann, en eigandinn getur hins vegar ekki vel lagzt á móti því að selja ríkinu staðinn í þessum tilgangi, þó að hann gæti vitanlega selt eignina síðar fyrir miklu hærra verð. Sá maður, sem seldi honum, hefði litlu síðar getað fengið 1000 kr. meira fyrir eignina. Þá má benda á það, að Reykjavík og Hafnarfjörður eru staðir, sem eru þegar orðnir hafnlitlir, en Bessastaðir liggja þar á milli, og hafnarskilyrði eru þar góð. (PO: Einar Benediktsson sagði einu sinni, að höfnin lægi nær Stóra-Bretlandi en Reykjavík). Já, Einar Benediktsson sá stundum margt betur en aðrir, og er sumt að koma fram, sem menn töldu draumóra hjá honum.

Ég álít því, að staðurinn sé hentugur bústaður fyrir þennan mann. Hins vegar tel ég ekki, að bústaður sá, sem forsrh. hefur nú, sé viðunandi. Var einu sinni stungið upp á því að taka undir hann lóðirnar þar í kring, eins og Hannes Hafstein vildi, en síðar var farið að stykkja þetta sundur og selja lóðirnar fyrir 1000–2000 kr. hverja. Annars hefði þetta getað orðið fallegur „park“. En smásálarskapurinn var svo mikill, að farið var að stykkja þetta land sundur, þar til orðið var eins þröngt um þetta hús og önnur hús í bænum.

Þó að ég hafi talað um íshús og skóla í sambandi við þetta mál, er það ekki af þeirri ástæðu, að ég hafi meiri andúð en aðrir menn á atvinnuvegunum og fræðslu unglinga. Í nánd við bústað ríkisstjóra á ekki að vera hávær skóli, þó að skólar eigi í sjálfu sér að vera háværir, og þar á ekki heldur að vera síldarfrysting, hversu vænt sem okkur kann að þykja um atvinnuvegi landsins. Ég geri ekki lítið úr þessum stórmyndarlega bústað, og lóðin umhverfis hann er stór, en umhverfis bústað ríkisstjóra þyrfti að vera fallegur trjágarður, og það ætti ekki að þurfa að auka kostnað mjög mikið, þó að slíkum garði yrði komið upp á Bessastöðum. (PO: Umhverfis húsið á Fríkirkjuvegi er fallegur trjágarður). Já, en gallinn er sá, að trén þrífast þar ekki, vegna þess, að þegar trén stækka og rætur þykkna, lenda þær niður í salt. Þess vegna deyr allur trjágróður hér, þegar hann er orðinn gamall og ræturnar komast niður í seltuna. Ef gera ætti þetta að ríkisstjórabústað, yrði fyrst

og fremst að kaupa eignina, en hún er raunar allt of lítil. Og ef svo á að gera við eignina fyrir á fjórða. hundrað þúsund kr., þá er það komið upp í hálfa millj. kr., sem kastað er á glæ og er orðið ónýtt eftir nokkur ár. Á undanförnum 15 árum er t. d. búið að kosta meira upp á forsrh.bústaðinn en kostað hefði að reisa nýtt sæmilegt hús úr steini, sem ekki þyrfti alltaf að vera að gera við.

Það er rétt, að ég hef ekki farið dult með vilja minn í þessu máli, og því tók ég það fram, að ég mundi taka samþykkt 10. gr. sem sönnun þess, að þingið vildi láta kaupa Bessastaði. Og ég vil ítreka þá ósk mína, að þingið láti í ljós vilja sinn að því er snertir 10. gr. Ég álít, að ríkið eigi að fá Bessastaði, því að þar er einhver fallegasti staðurinn hér í grenndinni. Og þó að fallegt sé að Laugarnesi, býst ég við, að fæstir vilji láta ríkisstjóra setjast að í því húsi. Það er líka fallegt í Viðey, en þar er sá ókostur, að yfir sjó er að fara til Reykjavíkur. Það getur verið erfitt að gera upp á milli þessara staða, en það er mikilsvert atriði, að hægt er að fá Bessastaði við góðu verði og gera þann stað íslenzkan. Mér þótti gott, að ég heyrði það ekki af vörum hv. þm. Borgf., sem er mikill áhugamaður um sjálfstæðismálin, að nokkur staður á landinu væri vanhelgaður af því, að þar hafi verið beitt ofbeldi við Íslendinga, því að þá væru margir staðir hér á landi vanhelgir.