11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Eins og ég hef lýst yfir áður hér á þingi, er ég óánægður með þá lausn, sem orðið hefur á sjálfstæðismálunum hér, því að ég óska fulls skilnaðar við Dani nú og að ekki sé haldið í konungssambandið að nafninu til. Þegar fréttir bárust til Danmerkur um það, sem Alþ. hafði gert í málinu, tóku flest blöðin þessu eins og um fullan skilnað væri að ræða, svo að þær viðtökur, sem málið hefur fengið í Danmörku, eru þær sömu og ef fullur skilnaður hefði verið ákveðinn. Þeim, sem hafa viljað stíga sporið til fulls, hefur ekki skjátlazt um afstöðu Dana. Ég vildi auk þess óska, að við hefðum hér fyrir framan okkur frv. um forseta Íslands, en ekki ríkisstjóra, en um það er ekki að sakast, eins og komið er. Mér finnst hæstv. stj. hafa ærið vald, er hún hefur konungsvaldið í sinni hendi, svo að ég fylgi frv., úr því sem komið er. Ég álít ekki, að hún eigi að vera sá vörður stjórnarskrár og lýðræðis sem ríkisstjóránum er ætlað að vera, enda treysti ég henni ekki til þess.

Ég tek undir það, sem einn hv. þm. hefur sagt, að ef ráða ætti þessu til lykta nú til frambúðar, þá mundi ég ekki kjósa, að ríkisstjóri væri kosinn af Alþ., heldur þjóðinni, svo að ekki kæmist að það klíkuvald, sem nú veður hér uppi, einnig í þessu máli.

Í 8. gr. fjárlfrv. er kostnaður við æðstu stj. landsins ákveðinn 75 þús. kr. Þetta er hin gamla konungsmata. Nokkrir hv. þm. hafa talað um, að þetta fé skyldi ekki ganga til konungs, og mun það hafa verið álit hv. fjvn. Nú vil ég spyrja, hvort þetta fé muni verða greitt framvegis til konungs og hvort það yrði þá greitt lengur en þetta ár, hvort þessar 75 þús. kr. eigi þá ekki að ganga til ríkisstjórans, ef þær verða ekki greiddar til konungs. Ég tel vafalaust, að það sé á móti vilja landsmanna, að fé sé greitt í þetta málamyndakonungssamband.

Þá er spurning viðvíkjandi 7. gr. frv. Þar er ákveðið, að ríkisstjóri skuli greiddar 30 þús. kr. á ári af ríkisfé, auk kostnaðar af risnu. Vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort ætlazt sé til þess, að ríkisstjóri gefi reikning fyrir útgjöldum sínum í hvert sinn. Nú er á fjárl. ekki lagt til, að risnufé til ráðh. sé meira en 6000 kr., nema ef það skyldi talið, að utanríkismrh. fær 3000 kr. fyrir húsnæði, sem hann borgar víst ekki fyrir meira en 2000 kr.

Ég hef heyrt, að það sé siður hæstv. forsrh. að fá keypt vín og tóbak án þess að greiða af því toll, eins og aðrir menn verða að greiða. Vil ég nú spyrja, með hvaða lagaheimild þetta sé gert, því að mér er ekki kunnugt, að 1. heimili þá undanþágu.

Út af ákvæði 10. gr. um bústað ríkisstjóra vil ég segja það, að ég tel það ekki skipta miklu máli, hvort ríkisstjóri býr innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur eða ekki, hvort Bessastaðir verða valdir eða einhver annar staður. En þar sem hæstv. forsrh. gaf upplýsingar um það, með hvaða kjörum mætti fá húseignina á Fríkirkjuvegi 11, er Thor Jensen átti einu sinni, vil ég mælast til, að hann gefi sams konar upplýsingar að því er Bessastaði snertir. Mér er sagt, að kaupverð Bessastaða hafi ekki farið fram úr 150 þús. kr.