11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég hafði nú eiginlega ekki ætlað mér að blanda mér mikið inn í þessar umr . En ég sé þó ástæðu til, út af húsnæðinu eða Bessastaðamálinu, að gefa nokkrar frekari upplýsingar en fram hafa komið áður viðvíkjandi því. Skal ég þá út af aths. frá hv. þm. Borgf., í sambandi við það ákvæði frv. að undanskilja búsetuskilyrðið fyrir kjörgengi ríkisstjóra frá almennum kjörgengisatriðum, taka það fram, að það er misskilningur, að ég hygg, að það sé sett inn í frv. vegna þess manns, sem nú er gert ráð fyrir, að verði fyrir kjöri í þetta. Því að hans vegna þurfum við ekki að gera þessa undanþágu: En hv. þm. Borgf. og hverjum öðrum, sem kann að falla miður að sjá undanþáguna í 1., er opin leið til að koma með brtt. um að fella þetta niður. Í því sambandi er það náttúrlega hins vegar athugandi, að ef ekki er gerð þessi undanþága, þá getur það orðið til þess, að Íslendingar, sem vegna 5 ára búsetuskilyrðisins t. d. hafa misst búsetu hér á landi og þess vegna kjörgengi og kjörrétt hér á landi, þeir geta ekki verið kjörgengir í þetta starf. Fyrir mitt leyti verð ég að játa, að ég kann illa við að hafa þetta undantekningarákvæði í 1. En hitt verð ég einnig að játa, að það getur verið viss ástæða til þess að hafa það, þó að ekki sé vegna þess manns, sem nú er sérstaklega um að ræða, þá vegna annarra, sem svipað kynni að standa á um. Og ég geri ráð fyrir, að finnanlegir séu menn hér í landinu, sem misst hafa búsetu í landinu og þess vegna kosningarrétt og kjörgengi.

Annars skal ég gefa nokkrar frekari upplýsingar viðkomandi aðsetursstað ríkisstjórans. Það er alveg upplýst, eða ég leit svo á, að gengið væri út frá því sem nokkurn veginn sjálfsögðu eða a. m. k. að það væri rétt, að ríkið fengi umráðarétt yfir og eignaðist húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg hér í bænum, og að mér skildist beinlínis með það fyrir augum, að æðsti maður ríkisins fengi þá húseign fyrir bústað. Ég veit ekki betur en að öllum hafi komið saman um, að það hús væri mjög sómasamlegur bústaður fyrir slíkan mann. Og ég verð að segja þess vegna, að mér kom það dálítið á óvart, hvað hæstv. forsrh, tók því fjarri í ræðum sínum, að nokkuð slíkt gæti komið til mála.

Saga máls þessa er annars sú, að því leyti sem ríkisstjórnin hefur haft það með höndum, að málið var tekið upp í utanrmrn., þar sem samþ. var að grennslast eftir því, hvort þessi eign mundi vera fáanleg til kaups og hvort hægt væri að ná samkomulagi um kaup á þessari eign sem bústað fyrir ríkisstjórann. Ég átti svo að grennslast eftir þessu. Í því skyni var svo samkomulag milli núverandi eiganda eignarinnar og mín um, að mat skyldi vera látið fara fram á eigninni, og voru tilnefndir tveir menn til þess að meta eignina, annar af hálfu eigenda og hinn af hálfu fjármálaráðuneytisins. Matið varð svo á þann veg, að matsmaður eigenda mat eignina sem næst 500 þús. kr. virði, en matsmaður ríkisstj. sem næst 300 þús. kr. virði. Ég gaf svo skýrslu um þetta, og þótti mér hvort tveggja matið of hátt. En nokkurn veginn samkomulag virtist mér vera um það í utanrmrn., — á þeim fundum, sem um þetta var rætt, voru allir ráðherrarnir —, að sanngjarnt væri að gefa núverandi eigendum kost á því, að ríkissjóður gengi inn í kaupin, sem þeir hefðu gert á eigninni, og tæki að sér að greiða þann viðgerðarkostnað og umbætur, sem þeir hefðu haft í sambandi við eignina, og auk þess nokkurt álag á verðið, þannig að kaupverðið yrði 250 þús. kr. Ég orðaði það að vísu þannig, að þeir fengju sem næst 50 þús. kr. álag, og ætla ég, að það muni þá láta nærri, eftir því sem þá stóð, að eignin hefði komizt í 260 þús. kr. eða nálægt því.

Í sambandi við ummæli hv. þm. A.-Húnv. skal ég upplýsa, að þar sem hann sagði, að kaupverð eignarinnar hefði verið. 136 þús. kr., þá er það ekki alls kostar rétt, því að nafnverði til var eignin af núverandi eigendum keypt fyrir 170 þús. kr. En það verð var talið jafngilda nokkur n veginn 136 þús. kr. vegna sérstakra greiðsluskilyrða, sem voru á andvirðinu. En út frá nafnverðinu, 170 þús. kr., var gengið, þegar ég talaði um þetta umrædda kaupverð ríkissjóðs, 250 –260 þús. kr. En svo er náttúrlega það að athuga í þessu sambandi, að núverandi eigendur þurfa ekki að láta eignina af hendi fyrir annað verð heldur en þeim þykir hæfilegt. Og ég veit, að þeim þykir ekki hæfilegt verð 250 þús. kr. Þeim þykir ekki einu sinni hæfilegt verð 300 þús. kr., eða matsverð þess manns, sem mat eignina fyrir hönd ríkissjóðs. Þeir telja eignina 500 þús. kr. virði. Og ég hef ekki fengið neitt endanlegt loforð frá þeim um að selja eignina fyrir annað verð. Hitt er annað mál, hvað hægt er með meiri eða minni hörkubrögðum að fá þá til að ganga inn á. Það skal ég ekkert fullyrða um. En að sjálfsögðu er þeim í lófa lagið að halda sér að sínum eignarrétti og neita að láta eignina af hendi, nema samkvæmt eignarnámi, en við slíkt mat skal ég ekki segja, hvað eignin yrði metin hátt eða lágt. Og þó að núverandi eigendur hafi gert eigninni nokkuð til góða innan húss og utan og kostað til þess nokkru fé, þá hygg ég, að ef ætti að gera húsið að sómasamlegum bústað fyrir ríkisstjórann, þá þyrftu að fara fram allsherjar umbætur á því, — það yrði, eins og sagt er í daglegu tali, sjálfsagt að taka húseignina alveg í gegn, utan húss og innan og frá mæni til kjallaragólfs. — Hve mikill kostnaður yrði við það, skal ég ekki um segja og get ekki nefnt neina upphæð í því sambandi. En af þessu má þó sjá, að jafnvel þó að ríkissjóður ætti kost á að fá eignina keypta fyrir það verð, sem talað var um í utanrmn., með álaginu, þá eru ekki öll kurl komin til grafar, heldur bætist að verulegum mun þar við. Ég leit eigi að síður svo á, að ef ekkert annað hefði verið því til fyrirstöðu, að þessi eign hefði verið keypt handa ríkisstjóranum, — og mér hafði skilizt það eftir þeim umr., sem fram höfðu farið um þetta —, þá hefði ekkert annað komið til mála heldur en að kaupa þessa eign handa honum. Mér skilst nú á hæstv. forsrh., að hann hafi alltaf haft sínar efasemdir um það, eða hann hafi alltaf verið á móti því, að þessi húseign yrði keypt, vegna þess, hvernig hún er sett í bænum. En það hafði ekki frá upphafi komið fram. En þegar til átti að taka, kom fleira til greina í þessu sambandi, og þá fyrst og fremst það, að þegar átti að fara að kjósa ríkisstjórann, sem átti að taka til starfa þegar í stað, þá var ekki sjáanlegt, að nokkru nær væri um að leggja honum til húsnæði, þó að húseignin væri keypt, vegna þess að húsið er fullsetið. Og má segja, að það vilji svo heppilega til, að í því eru opinberar skrifstofur, sem ríkisstjórnin getur ráðið yfir, hvort látnar eru vera þar eða ekki. En til þess að geta látið þær fara, verður að vera húsnæði til þess að vísa á. En það hef ég ekki séð, að séu nein tök á. Ég sé ekki betur en að húseignin nr. 11 við Fríkirkjuveg sé alveg setin, og þar sé því ekki rúm fyrir ríkisstjórann að svo komnu, né heldur, að hægt sé að gera þær umbætur, sem nauðsynlegar eru, áður en ríkisstjóri geti flutt í húsið. Þess vegna var það, að þegar nú á síðustu stundu kom að því að taka ákvörðun um það, hvar ríkisstjórinn skyldi hafa búsetu, kom uppástunga um það að kaupa Bessastaði til þess, og þegar það upplýstist, að þar væri fullnægjandi húsnæði fyrir hann, þá tók ég því fyrir mitt leyti fegins hendi. Mér sannast að segja kom ekki til hugar sú mótbára, að þar mætti bústaður ríkisstjórans ekki vera, vegna þess að Bessastaðir hefðu fyrr verið aðsetur danskra valdhafa. Þegar ég heyrði þá mótbáru fyrst, rak mig alveg í rogastanz af þeim hugsunarferli, sem þar stæði á bak við. Mér finnst felast í þessu svo áþreifanleg minnimáttarkennd, að það sé ekki sæmandi Íslendingum, sem hugsa til þess, að landið verði sjálfstætt ríki, að ala slíka tilfinningu í brjósti. Eigum við að leggja fæð á einstaka staði í landinu vegna þess, hvað á þeim hefur skeð fyrir hundruðum ára? Mér finnst þetta vera svo mikil fásinna, að mér hefði aldrei komið til hugar, að nokkur maður gæti falið í sínu brjósti slíkar tilfinningar. Ef staðurinn er sæmilega hentugur til bústaðar fyrir æðsta ráðamann ríkisins, þá finnst mér slík viðbára vera einskis virði og langt fyrir neðan það að vera einskis virði. Mér finnst miklu frekar ástæða til þess að gera slíkan stað að höfuðsetri til þess að afmá slíka tilkenningu úr hugum manna, fall getur aðeins orðið mönnum til viðvörunar. Hins vegar skal ég segja það, að fyrir mitt leyti er mér ekki sérstakt kappsmál um Bessastaði frekar en annan stað, þar sem þessi embættismaður ríkisins hefði búsetu, og ef hentugri stað er hægt að finna, þá tek ég því fegins hendi. En hér er úr vöndu að ráða, ég sé ekki annan stað hentugri. Það hefur að vísu verið stungið upp á öðrum stöðum, t. d. Laugarnesspítala, en ég get ekki viðurkennt, að það sé nein minnimáttarkennd, sem felst í því, en samt gæti ég ekki til þess hugsað, að bústaður ríkisstj. yrði þar. Ég greiddi atkv. með brtt. forsrh. um heimild í fjárl. um það, að ríkisstj. heimilaðist að kaupa Bessastaði, Fríkirkjuveg 11 eða annan stað í nágrenni Reykjavíkur fyrir ríkisstjórabústað. Ég hef að vísuheyrt, að hæstv. ráðh. hafi orðað þetta svo, að hann mundi leggja þann skilning í samþ. á þeim till., að meiri hl. þingsins væri því samþ., að þessi leið yrði farin. Af þessum ástæðum var það, að ég hikaði við, þegar að mér kom í nafnakallinu við atkvgr. Ég nennti ekki að fara að gera grein fyrir atkv. mínu í því sambandi, hins vegar hefði ég ekki kosið, að mitt atkv. væri skilið þannig, að ég vildi þennan stað og engan annan. Því er ekki svo háttað, að ég mundi, ef fáanlegur væri annar staður, sem mér þætti eins vel henta, standa á móti því, að ríkisstj. hefði heimild til þess að kaupa þann stað. Þess vegna er í rauninni ekkert á móti því, að atkvgr. færi fram um þetta, sérstaklega ef menn óska þess, þó að ég geri ráð fyrir, að það sé fyrirfram vitað, hvernig sú atkvgr. færi.