14.06.1941
Efri deild: 79. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það hafa heyrzt raddir um, að þinginu yrði ekki lokið fyrir þriðjudag. Ég skal ekki ræða um það, en ég segi samt, að þingið er búið að standa svo lengi, að það ætti að vera fært að afgreiða dýrtíðarmálin fyrir þriðjudag.

Það er einkennilegt, að mál, sem hafa verið rædd innan flokkanna og í n. og einnig meðal þingmanna sjálfra, skuli þurfa að ræða hér fram á nótt. Ég mun svo ekki ræða það frekar, en mér finnst þingið vera orðið æðilangt.

Svo ég snúi mér þá að hinu, þá virðist mér sem nokkurs misskilnings gæti hjá mönnum hér, þegar þeir ræða þetta mál, um ríkisstjórann, þegar menn halda, að þessi gjöf jarðarinnar þurfi að ráða, hvar bústaður ríkisstjórans verði. Ef það verður samþ. að kaupa eign utan Reykjavíkur, þá álít ég, að hv. Alþ. mundi vera með að kaupa Bessastaði. Ég hygg, að í þessari hv. d. sé meiri hlutinn með því að ákveða Bessastaði sem ríkisstjórabústað. Enda þótt Fríkirkjuvegur 11 sé myndarlegt hús, þá þyrfti það mikillar viðgerðar, sem mundi eigi standa til neinnar frambúðar, því húsið er gamalt. Í sambandi við þetta hafa komið fram ýmsar firrur viðvíkjandi Bessastöðum. Það er minnzt á Bessastaðavald, og Bessastaðir eru gerðir að hálfgerðri grýlu í augum manna.

Ég á bágt með að hlusta á slíkt. Að nokkur staður sé vanhelgur, þó þar hafi setið erlent vald, — þá yrðu þeir nokkuð margir, slíkir staðir hér á landi.

Hvernig var með Skálholt? Þar sátu biskupar, sem bændur voru neyddir til að beita þeim ráðstöfunum, sem óþekktar eru í sögu allra þjóða. Þar var hálshöggvinn einn af beztu mönnum þjóðarinnar ásamt sonum sínum. Ég held, að maður mætti þá fara að yfirgefa Reykjavík. Hólmurinn var langmesta einokunarbæli, sem sögur fara af hér á landi, og ég hygg, að hvergi hafi verið beitt meiri kúgun og hvergi fleiri blóðdropar sognir úr þjóðinni heldur en þar.

Eins er með stjórnarráðið. Það er fallegt hús, en gamalt danskt tugthús, þar sem voru hafðir í haldi íslenzkir menn, sem risu gegn erlendu valdi, og Trampe greifi sat í ráðherraherbergjunum, sem nú eru. Hvort sem um er að ræða Bessastaði, Hóla eða Skálholt, þá tökum við þá staði og gerum íslenzka. Ég get tekið undir með hæstv. fjmrh., að það sé ekki hlustandi á aðra eins minnimáttarkennd hjá þjóð, sem á að heita sjálfstæð. — Um það, að staðurinn sé ekki fagur, mun ég ekki ræða, því það er viðurkennt, að þetta er fegursti staðurinn í nágrenni Reykjavíkur. Hann var valinn sem skólasetur af tveimum Íslendingum, sem dvöldu erlendis, sem elskuðu Ísland og unnu því, sem fagurt var.

Ég vil nú skora á þennan hv. þm. að taka sig upp að loknum fundi og fara suður af Bessastöðum og skoða þá. Ég er þess fullviss, að þegar hann hefur gengið um landareignina, þá hefur hann orðið snortinn af fegurð staðararins og skipt um skoðun.