14.06.1941
Efri deild: 79. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Jónas Jónsson:

Við 1. umr. gat ég um brtt., sem ég mundi ef til vill bera fram viðvíkjandi því, að ríkisstjórinn tæki við 17. júní. Ég mun ekki bera fram þessa brtt., því ríkisstj. hefur undirbúið málið þannig, að ég tel till. minni borgið.

Ef ríkisstjórinn verður kosinn 17. júní, þá er það á miklum degi og því slegið föstu, að hann er kosinn til eins árs. Næsta ár mætti vel kjósa fyrr, því það þarf ekki endilega að binda það við 17. júní. Forseti Bandaríkjanna er t. d. kosinn á haustin, en svo líða allmargir mánuðir, þar til hann tekur við völdum. Svo er það annað atriði í sambandi við ríkisstjóra, sem ég vil minnast á. — Fjvn. hefur í bréfi til ríkisstjórnarinnar lagt til, eða 6 menn af 9 í n., að greiðsla til konungs falli niður frá næstu áramótum. Ég ætla ekki að fara út í neinar ríkisréttindadeilur, en mér finnst rétt, að greiðsla falli niður til hans, þar sem hann er ekki lengur konungur. Ég hygg, að það sé skoðun þjóðarinnar, að ríkisstjóranum, sem nú fer með vald konungs, verði greitt með því fé, sem fór til æðstu stjórnar áður.

Mér lízt vel á Bessastaði sem aðsetursstað ríkisstjóra, enda þótt húsið sé ófullnægjandi, en við eigum ekki völ á betri stað. Síðar gætu menn sett markið hærra. Ég vil skjóta því til fjmrh., að æskilegt væri að halda áfram með umleitanir á Fríkirkjuvegi 11 og reyna að festa kaup á honum, þó að það verði ekki ríkisstjórabústaður, því ríkið þarfnast hans samt til ýmissa annarra hluta, og ég álít, að málið um Fríkirkjuveg 11 sé ekki dauðadæmt með þessu, ef sæmilega er samið. Og það er enginn betur fallinn en hæstv. fjmrh. að halda þeim athugunum áfram. En um það, hvernig þingið og stj. hafa haldið á þessu máli yfirleitt, vil ég álíta, — ekki sízt sem skilnaðarmaður —, að allar ástæður séu fyrir þjóðina að gleðjast yfir því, hve litlar efnislegar deilur hafa verið um ríkisstjórann, og hve vel þing og stj. hafa unnið að því að fá æðsta vald í landinu eftir margra alda burtveru í hendur eins manns, sem þjóðin velur. Þó að nokkur skoðanamunur sé um það, hvar hann eigi að búa, eru það minni háttar atriði. Ég lít svo á, að vald ríkisstjórans sé mjög svipað valdi forsetans, þegar hann kemur, — þar verði enginn eðlismunur, og að við, sem óskum eftir, að Ísland verði sem fyrst viðurkennt lýðveldi, getum varla annað betra gert en að hlynna að þessu skipulagi og reyna að gera sem veglegast starf ríkisstjórans í því skyni, að þjóðin setji sinn metnað í það að vera fullkomlega sjálfstæð. Ég álít enn fremur, að ástæða sé til að telja þinginu til tekna, að það lítur út fyrir, að engar deilur verði um mannval í þessa stöðu, sem vel gat komið fyrir. Ef harðvítugar deilur hefðu orðið um þessa kosningu, hygg ég, að margir menn hefðu e. t. v. komizt á þá skoðun, að betra væri að hafa útlendan mann í öðru landi sem æðsta valdamann heldur en að eiga í deilum um það í landinu sjálfu. Þess vegna er fullkomin ástæða til að gleðjast yfir, hvernig þetta mál hefur þróazt. Og ekki sízt finnst mér ástæða til að þakka þann þegnskap, sem einstakur maður hefur sýnt með því að gefa verulegan hluta af mikilli jarðeign í þessu skyni. Mér finnst allt spá góðu um, að þetta bráðabirgðaskipulag stefni að góðri framtíð í þessu efni fyrir land og þjóð.