14.06.1941
Efri deild: 79. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Magnús Jónsson:

Ég tek alveg þátt í þeirri almennu gleði yfir því, að þetta ríkisstjóramál er hægt að leysa á friðsamlegan hátt, að því er snertir kosningu í þessa miklu virðingarstöðu. Það er einmitt þess vegna, sem mér finnst dálítið leiðinlegt að varpa — í mínum huga –nokkrum skugga á málið með því að velja þennan stað fyrir bústað ríkisstjórans. Ég held, að Þorsteini heitnum Erlingssyni gæfi á að líta, ef hann væri risinn upp úr gröf sinni. „Því var nú aldrei um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar“. Hann fann það vel, sá næmi maður, að kringum þennan stað var alveg sérstök óhugnan. Og ég vil alls ekki ganga inn á þá skoðun hæstv. forsrh., að ef við eigum að hafa heldur ímugust á þeim söguminjum, sem bundnar eru við Bessastaði, þá þýði það, að við verðum eins að hafa ímugust á Skálholti og Hólum og ég held Þingvöllum. Hann nefndi þá víst ekki, en það er óhætt. Og Reykjavík, og ég man ekki, hvað marga staði hann nefndi. Þetta er náttúrlega alveg út í bláinn sagt. Ef við lítum á okkar gömlu biskupsstóla, Hóla og Skálholt, eða Alþ. á Þingvöllum, þá eru þetta staðir, sem við eru bundnar þúsundir af fögrum endurminningum. „Hinn hæsta höfuðstað í Skálholti“ kallaði þjóðin þennan stað, og það alveg án tillits til þess, að þar, eins og á öllum stöðum þar sem mikið fer fram, hefur eitt og annað komið fyrir, sem mönnum gezt ekki að og veitir ekki fagrar minningar. Slíkt hefur algerlega drukknað og orðið að engu fyrir þeim stóru atburðum og glæstu minningum, sem bundnar eru við þá staði. Við skulum taka Hólmskaupstað á einokunartímunum. Ég hef aldrei heyrt, að Hólmurinn hafi verið einhver versti staðurinn, — hann var bara ein verstöð gömlu einokunarinnar. Þær voru margar og þaðan kom mikil harðdrægni í garð landsmanna. Hins vegar er um Bessastaði það að segja, að því er söguna snertir, — en ég vil náttúrlega ekki leggja allt of mikið upp úr því, — að það eru frá upphafi bundnar við þá hinar ömurlegustu minningar. Ég man ekki, hvort það er í ritgerð Jóns Gissurarsonar eða annálum Jóns Egilssonar sagt, að Bessastaðir verði til á seinni öldum við það, að hið danska vald kemur. Hann byrjar á því að segja, að þetta var skoðað eitt rýrðarkot. Það er miklu meira en að þeir, sem þarna sætu, væru svona heldur óvinsælir embættismenn. Það var eini staðurinn, þar sem kúgun var innleidd á Íslandi. Í kringum Bessastaði voru menn teknir og látnir inna af hendi dagsverk og kvaðir, teknir á skip og látnir róa. Þetta er eini staðurinn, þar sem þrælahald hefur átt sér stað á Íslandi á seinni öldum, þrælahald, sem þetta útlenda vald á Bessastöðum innleiddi. Við eigum engar slíkar endurminningar annars staðar og enga minnimáttarkennd gagnvart Dönum. Þetta er alls ekki sagt af óvildarhug til dönsku þjóðarinnar: Danir sjálfir hata mikið þetta tímabil í sinni eigin sögu, með átthagabandi og alls konar þrældómi. Þetta kúgunarvald, sem hér var, var bara lítill angi af því valdi, sem danska þjóðin hataði í Danmörku, kom hingað til Íslands og var bundinn við þennan eina stað, sem menn geta nú helzt fundið til þess að láta ríkisstjórann hafa aðsetur sitt. Ég vil nú ekki segja, að þetta geri neitt til í vissum skilningi. En það er ákaflega mikill óþarfi. Alveg eins og mér finnst það óþarfi að velja endilega tugthús fyrir stjórnarráðshús. En það var bara þá langveglegasta húsið í bænum. Það var byggt sem betrunarhús og sem ákaflega merkileg stofnun, og lesi menn bara öll þau plögg og skrif, sem áttu sér stað í þessu sambandi, þá leynir sér ekki, að það átti að fara fram heil þjóðarendurreisn á þessum grundvelli. Þetta átti að vera eitthvað annað en tugthúsin, sem áður voru til. Þarna áttu þessir menn, sem höfðu lent út á glapstigu, að læra alla skapaða hluti og verða að nýtustu mönnum þjóðfélagsins. Þessi trú á betrunarhúsin þá var álíka mögnuð og þetta með „skipulagið“ nú á dögum. En geta má þess til fróðleiks, að þessi endurreisn kom með því ágæta móti, að margir af þessum vesalings föngum dóu bara úr hungri, og þess vegna eru minningar við þetta hús ákaflega sárar frá okkar aumustu og vesölustu tímum, einmitt þegar okkur var stjórnað frá Bessastöðum. Ég álít það mjög leiðinlegt, ef menn fyndu ekki annan stað handa ríkisstjóranum. (JJ: Hæstiréttur er í tugthúsi.) Bæði hv. þm. S.-Þ. og ég viljum hjálpa til að færa hann þaðan sem allra fljótast. En annars er nú skylt skeggið hökunni, rétturinn, sem dæmir menn í fangelsi, og fangelsið sjálft, enda algengt, að fangelsi séu í sambandi við réttarsali.

En svo að ég víki aftur að Bessastöðum, þá get ég alls ekki neitað því, að mér er þetta ógeðfellt, að þessi staður er valinn. En mér dettur ekki í hug, að hæstv. forsrh. hafi valið staðinn af því, að hann hafi vitað, að eigandinn mundi gefa hann, eða að það ráði valinu, alveg eins og það ræður ekki minni afstöðu til málsins, þótt jörðin hafi verið gefin, og það rýrir ekkert þá rausn, sem fólgin er í gjöfinni. En ég tel staðinn þar að auki heldur óhentugan. Ekki að ég telji Fríkirkjuveg 11 hentugan stað, því að það hef ég áður tekið fram. Það hús er allt of mikið innan um fólkið, a. m. k. er næsta umhverfi ekki sem hentugast. Náttúrlega höfum við ekkert að gera með heila sveitajörð fyrir ríkisstjórann, við, þurfum að fá þar stórt „park“ stæði, og svo má hver búa á jörðinni Bessastöðum, sem vill. Það þarf að vera vel gott rúm fyrir skóg til að prýða og skýla kringum húsið, ef þá skógur þrífst á Bessastöðum. Ég vil nú ekki gera því skóna, að þetta sé einn liður í því — ég veit ekki, hvernig ég á að orða það nógu vægt, af því að ég er svo friðsamur í þessari tíð, — en mér finnst dálítil tilhneiging til þess að hafa hlutina burt úr Reykjavík, eiginlega að það, sem er nýtilegast, megi ekki vera í þessu syndabæli, og mun vera óvanalegt um höfuðstað. Menn vilja flytja burt ýmsa helztu skóla, koma þeim helzt upp í sveit, og fleiri stofnanir. Og mér þætti leiðinlegt, ef þessi ákvörðun, að ríkisstjórinn megi ekki sitja t. d. í jaðri Reykjavíkurbæjar, yrði til þess að kæla eitthvað hug manna í þessum bæ, og það yrði nú Álftanesið, sem hlyti nú sérstaklega okkar ríkisstjóra. (JJ: Það eru beztu karlar á Álftanesinu.) Já, Það eru beztu karlar þar, en ég á hér aðallega við það, hvort hér sé á ferðinni eitthvað, sem á skylt við það að vilja hafa hlutina burt úr höfuðstaðnum. Hæstv. forsrh. hefur sagt við mig og í þingræðu, að hann gerði ráð fyrir, að bærinn mundi með tíð og tíma, kannske áður en langt líður, aukast svo suður með sjó, að Bessastaðir yrðu í næsta nágrenni bæjarins. En það á sennilega langt í land, enda er nú verið að berjast gegn aðstreymi í bæinn, sem er að verða þjóðinni ákaflega stórt höfuð og kannske fullþungt.

Ég skal svo ekki ræða fleira um þetta, því að eiginlega er tilgangur minn ekki annað en að fá skýra yfirlýsingu um, að það sé meiningin að velja Bessastaði. Því að þá ætla ég að bera fram brtt. við 3. umr. Þó að svo fari, að ég verði einn um till., þá ætla ég ekki að láta það kæla gleði mína yfir því að fá ríkisstjóra, — sennilega mann, sem mér fellur mjög vel að fá í þá stöðu.