20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

18. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á áfengisl.,

felur í sér staðfestingu bráðabirgðal., sem gefin voru út af hæstv. ríkisstj. 29. október 1940. Efni þeirra bráðabirgðal. er það, að ríkisstj. skuli vera heimilt að leyfa tilbúning öls, sem hefur inni að halda meira en 2¼ af hundraði af vínanda að rúmmáli, til þess að selja hinu brezka setuliði. En þetta er hámark þess áfengismagns, sem hefur mátt vera í öli, sem framleitt er hér á landi.

Þetta mál mun hafa legið þannig fyrir á síðasta hausti, að ríkisstj. mun hafa borizt vitneskja um það frá hinu brezka setuliði, að það mundi telja sér nauðsyn á að flytja inn áfengt öl handa setuliðinu til neyzlu, ef ekki væri hægt að fá þetta öl keypt hér á landi. Það var þá skoðun hæstv. ríkisstj., að ástæðulaust væri að láta þann innflutning fara fram á þessari erlendu framleiðslu og réttara væri þá að gefa undanþágu frá íslenzkum 1., til þess að þessi framleiðsla mætti fara hér fram, þó með þeim takmörkunum, að salan færi eingöngu fram til þeirra útlendinga, sem hér er um að ræða, en ekki til íslenzkra manna.

Meiri hl. allshn. getur fallizt á, að þær forsendur, sem virðast hafa legið til grundvallar fyrir útgáfu þessara bráðabirgðal., séu nokkuð veigamiklar, bæði með tilliti til þeirra tekna, sem ríkissjóður getur af þessu haft, og svo með tilliti til þess, að það á að vera hægt að hafa allrækilegt eftirlit með þessari framleiðslu, sem er í íslenzkum höndum, og virðist því meiri hl. n., að ekki væri ástæða til þess að hindra það, að þessi bráðabirgðal. verði endanlega staðfest. N. hefur því lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Einn af nm. meiri hl. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann, að ég hygg, gera sérstaklega grein fyrir honum. En minni hl. n., hv. þm. N.-Ísf. (VJ), hefur ekki getað fallizt á að skrifa undir álitið með meiri hl. og hefur lagt fram sérstakt nál., þar sem hann leggur til, að frv. verði fellt, og mun hann væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins.