05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

18. mál, áfengislög

Bjarni Snæbjörnsson:

Þeir, sem hafa haldið því fram, að samþ. beri frv. þetta, hafa samt allir látið þá skoðun í ljós, að drykkjuskapur sé hér svo mikill, að full ástæða sé til að ugga um fjárhagslega og heilbrigðislega afkomu þjóðarinnar. En þá skil ég ekki vel þeirra hugsanagang, þar sem þeir vilja gera það, sem hægt er, til að stemma stigu fyrir drykkjuskap í landinu, en samt hafa fleiri tegundir áfengis á boðstólum en áður. Það hefur komið skýrt fram í umr. hér, að ekki er ætlazt til, að ölbruggið hætti, þó að setuliðið hverfi héðan, heldur á ölið að vera handa Íslendingum, þegar fram í sækir.

Ég skil ekki röksemdafærslu þeirra, sem vilja samþ. frv., nema ef þeir væru þeirrar skoðunar, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það eigi að stefna að því, að allir Íslendingar verði svo ósjálfbjarga af vínnautn, að brýna nauðsyn beri til að stemma stigu fyrir henni, þegar út. í öngþveiti er komið. Ég veit, að hv. þm. finnur, ef hann athugar málið, að sú reynsla yrði of dýrkeypt.

Það er ekki vafamál, að öldrykkja er undir flestum kringumstæðum byrjun til víndrykkju, en þar sem bæði hæstv. forseti og hv. þm. S.-Þ. eru á þeirri skoðun, að víndrykkja sé löstur, skil ég ekki þeirra afstöðu.

Ég vann hér í eyrarvinnu, þegar ég var innan við fermingu. Þá var öldrykkja hér mikil bæði meðal verkamanna og annarra. Þá voru hér unglingar, sem byrjuðu á bjórdrykkju, og margir þeirra urðu síðan ræflar, rónar, eins og það er kallað nú. Öldrykkjan var fyrsta sporið á þeirra óheillabraut. Íslendingar eru öðruvísi en aðrar þjóðir „mentalt“ séð í þessum efnum. Þeir kæra sig ekki um upplyfting. Þeir vilja verða drukknir.

Þrátt fyrir það, þó að leyft sé að verzla með sterka drykki hér, kinokar ríkisstj. sér við að leyfa að selja landsbúum öl, af því að hún veit, að það fæst ekki samþykkt fyrir því á Alþingi, og þjóðin vill það ekki heldur.

Eftir atkvgr. í Nd., þar sem samþykkt hafðizt með eins atkv. mun bæði við 2. og 3. umr., sést, að ef um hefði verið að ræða að leyfa ölbruggun fyrir landsmenn sjálfa, hefði það verið fellt. Af hverju á líka að þrengja slíku upp á þjóðina, þegar allir eru sammála um, að drykkjuskapur hér er miklu meiri en góðu hófi gegnir?

Þá kem ég að atriði, sem hæstv. forsrh. gat um, að ef ríkisstj. hefði ekki hafizt handa, hefðu Englendingar flutt inn öl. Það virðist sem ríkisstj. hafi verið sannfærð um, að ölið væri ekki heppilegt fyrir Íslendinga, annars hefði hún gefið það frjálst. Þar sem hún hefur þessa skoðun, er það siðferðileg skylda hennar að sporna við því, að ölbrugg sé yfirleitt leyft hér. Ef Bretinn hefði heimtað það, þá hefði hann brotið landslög. Þeir um það. Það var siðferðilega miklu réttara að láta útlendinga knýja þetta fram með lögbroti en að ríkisstj. sé að hjálpa þeim til að brjóta 1. á móti vilja mikils hluta þingsins. Það er svo hæpið, að ég efa, að ríkisstj. sé ánægð yfir þeim Pyrrhusarsigri. Og þegar við bætist, að þetta á að réttlæta með því, að nokkrar þúsundir komi í ríkissjóð fyrir að brugga það, sem er Íslendingum skaðlegt, má hún vel sætta sig við, að málið gangi ekki fram.

Það má vel vera, að aftur komi fram einhver krafa frá brezka setuliðinu og því þyki henta að fá hér eitthvað, sem útheimtir lagabreyt., það bjóðist til að borga nokkur þúsund í ríkissjóð fyrir lagabreyt., og þá eigum við að vera. boðnir og búnir til að gera þetta. Við gerum margt, sem er siðferðilega rangt, en það bætir ekki úr skák að sama sem bjóðast til að gera það fyrir peninga, fyrir ofurlítinn gróða. Þá mundi reynslan sanna okkur fljótlega, að það er hættuleg braut.

Í aðra röndina viðurkenna menn, að þetta sé skaðlegt, drykkjufýsn Íslendinga sé svo mikil, að það verði að stemma stigu fyrir aukningu hennar. En í öðru orðinu segja sömu menn, að það verði að fullnægja henni og virðast taka fegins hendi við tilmælum brezka setuliðsins, ef það gæti leitt til þess, að þorstanum í sterka ölið yrði að fullu svalað innan skamms, og verðlaunin fyrir að brjóta þessar varnir okkar niður eiga að verða fáeinir aurar frá Bretum í ríkissjóð. En þá er metnaður Íslendingsins orðinn lágur, ef hann lýtur að þessu.

Ég ætla ekki að gera orð mín fleiri. Ég á bágt með að skilja, að í þessari deild fáist meiri hl. til að hjálpa ríkisstj. til að vinna þennan Pyrrhusarsigur, heldur verði deildin til þess að forða henni frá því í framtíðinni að hafa borið þetta mál fram gegn vilja hálfs þingsins, — til einskis sjáanlegs gagns nema brjóta niður lögin og auka á verðbólguna í landinu.