05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

18. mál, áfengislög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Mér virtist ræða hv. þm. Hafnf. (BSn) byggð að sumu leyti á misskilningi og verð að svara nokkrum atriðum. Samkv. frv. er ekki verið að framleiða öl fyrir íslenzkan markað, svo að hér er ekki um ölhneigð Íslendinga að ræða. Engu að siður er rétt að minna þessa sérfræðinga í öldrykkju á það, hvernig stendur á því, að aðrar þjóðir, sem hafa áfengi um hönd, hafa ekki þessa sérstöku íslenzku hræðslu við ölið. Eða hvar er það nema hér, að leyft sé að drekka gin og whisky og alla hina sterkustu drykki, en öl bannað? Eins og ég benti á í framsöguræðu, hefur aðferð Íslendinga við vínneyzlu gerbreytzt á síðari árum. Hv. þm. Hafnf. talaði um, hve mikið hefði verið drukkið hér við höfnina. Það er rétt, að menn drukku bæði öl og sterkt áfengi óblandað, og unglingum þótt vínið beizkt, þar sem það var skenkt á staupin við búðarborðið. Nú þegar sterku drykkjunum er hellt út í sítrón og ávaxtasafa eða vatn, er ekkert sem torveldar kvenfólki og unglingum neyzlu þeirra. (IngP: Er „svartidauði“ drukkinn blandaður?). Það er engin fullyrðing út í loftið, að 14, 16–18 ára unglingar og kvenfólk komast strax upp á það að drekka hvaða sterkan drykk sem er, einnig „svartadauða“, með ýmsum blöndunaraðferðum. Þess vegna er hitt rangt, að með ölneyzlu einni komist menn heldur á lagið að drekka. Þessari höfuðröksemd andmælenda frv. álít ég, að hiklaust beri að mótmæla, eins og venjur eru breyttar.

Það hefur komið hér fram, að ríkisstj. hafi ekki viljað koma fram með frv. um öl fyrir íslenzkan markað, af því að hún viti, að meiri hl. þingsins sé móti því. Stj. veit, að þetta er deilumál, og hún er ekki á einu máli um það. Hún sér enga ástæðu til að koma fram með slíkt frv. á þessum tíma. En þegar hv. þm. Hafnf. (BSn) staðhæfir, að meiri hl. þjóðarinnar hafi lýst sig fylgjandi banni á öli, er það tilhæfulaust, og ég leyfi mér að fullyrða, að líkur séu fyrir hinu gagnstæða; að meiri hl. þjóðar mundi fylgja því við atkvgr. að leyfa öl, fyrst sterkt áfengi hefur verið leyft. Ég held, að skoðun sumra hv. þm. í þessu efni sé óþörf kosningahræðsla. Mér hefur aldrei dottið í hug að segja annað hér á Alþingi né á kjósendafundum en að ég tel ekki nokkra ástæðu til að banna öl, eftir að sterkir drykkir eru leyfðir. Þetta hef ég m. a. oft látið í ljós í Strandasýslu, og þótt þar sé lítið drukkið, eins og yfirleitt á Vestfjörðum, hef ég aldrei vitað, að þetta reytti af mér fylgi, fremur hið gagnstæða. Ríkisstj. taldi ekki eðlilegt að hreyfa málinu nú. En það sat ekki á okkur, sem höfum leyft hið sterka áfengi, að gerast forsjá fyrir brezka hernum og reyna eftir getu að fyrirmuna honum að ná í hið hættulausa öl. Og mér er spurn, hvar í veröldinni sá her muni finnast, sem lætur sér lynda að hafa ekki öl. Ég býst sízt fremur við því um andstæðinga brezka hersins í þessari styrjöld. Þeir þiggja ölið, ef ég þekki þá rétt. Herstjórnir eru þeirrar skoðunar, að öldrykkja sé langsamlega skaðlausasta áfengisneyzlan, sem um er að velja, en reyna hins vegar að halda hermönnum frá hinum sterku drykkjum.

Hér er ekki farið fram á neitt, nema að ölgerðin fari hér fram á þann hátt, að tollur renni af til ríkisins. Spurningin er aðeins þessi: Eigum við að taka við tolli af þessari framleiðslu fyrir brezka herinn eða ekki? Ölið fá þeir hvort sem er. Deildin ræður, ef hún vill fella frv., en það þýddi ekki nokkurn skapaðan hlut nema afsal á tekjum.