04.04.1941
Efri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

74. mál, bifreiðalög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Hv. deildarmenn mun reka minni til þess, að fyrir d. var lagt frv. til 1. um frestun á bifreiðal. frá 7. maí 1940 og umferðarl. nr. 110 frá 30. maí sama ár, og var þetta frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem gefin voru út í fyrrahaust. Ástæðan til þess, að bráðabirgðal. voru sett, var sú, að ekki þótti fært að taka upp hægri akstur í landinu, eins og bæði þessi 1. gerðu ráð fyrir, sökum hernámsins. Umferðin á vegum landsins er miklu meiri nú en nokkru sinni áður, og hinn útlendi her, sem hér dvelst, er einmitt vanur við vinstri akstur, eins og við höfum haft til þessa. Mátti vitanlega alltaf gera ráð fyrir nokkurri slysahættu með því að breyta til, en margfalt meiri með því að breyta til nú. Þessu máli var vísað til samgmn., og leit hún einkum á höfuðtilgang bráðabirgðalaganna um að fresta því að breyta til um ökureglur og mælti því með frv. óbreyttu og gekk það því hér í gegnum tvær umr. í hv. d. Við 2. umr. hóf hv. 2. þm. S.-M. máls á því, að þó að hann fyllilega viðurkenndi þörfina á því, að frestað yrði að taka upp hægri akstur, þá efaðist hann mjög um það, að fresta þyrfti að öðru leyti gildistöku umræddra l. og bað n. þess að athuga þetta alveg sérstaklega. N. hefur nú orðið við þessum tilmælum, og sú athugun hefur tekið lengri tíma heldur en ætla hefði mátt, að nauðsynlegt hefði verið, en það er sökum þess, að n. hefur rætt við ýmsa aðila, sem þarna koma til greina, fyrst og fremst dómsmrh., vegamálastjóra og svo bifreiðaeftirlitsmennina. Þegar farið var að athuga þetta mál nánar, kom í ljós, að þeir aðilar, sem mest höfðu með þetta mál að gera, töldu í raun og veru fært að fresta aðeins ákvæðunum, sem lutu að hægri akstri, en láta l. að öðru leyti öðlast gildi. Það kom að vísu fram, að vegamálastjóri var heldur á móti því að fresta, að þessi ákvæði væru tekin út úr 1., og kaus heldur hina leiðina. En það var ekki sökum þess, að hann teldi þetta hafa sérstaka „tekniska“ örðugleika í för með sér, heldur af ótta við, að hægri akstur yrði síður tekinn upp síðar, ef lögunum yrði beinlínis breytt nú. Hvað sem um þetta má segja, gat n. ekki tekið tillit til þess, því það verður að fara eftir þingvilja á sínum tíma, hvort hægri akstur verður tekinn upp eða ekki.

Það hefur því orðið ofan á í n. að bera fram tvö frv., annað það, sem hér liggur fyrir um breyt. á bifreiðal., nr. 75 frá 7. maí 1940, en hitt frv. er um breyt. á umferðarl. Fjalla þessi frv. eingöngu um það atriði að nema úr 1. þau ákvæði, er lúta að því að taka upp hægri akstur. Er till. n. því sú, að halda áfram vinstri akstri, þar til því kann að verða breytt með sérstökum lögum.

Að langmestu leyti eru þessi frv. samhljóða brtt., sem einn af nm. bar hér fram í fyrra, þegar þessi mál voru þá hér til umr., nefnilega hv. 9. landsk. þm. Áður en ég lýk máli mínu, skal ég taka það fram, að ég býst við, að það sé réttara við seinni umr. þessa máls að bæta við nýrri gr. inn í bæði frv., sem eru á dagskrá, um það, að fella beri texta þeirra inn í lögin og gefa 1. út þannig breytt. Ég leyfi mér að minnast á þetta nú við 1. umr. og vona, að hæstv. forseti taki ekki hart á því, því að það getur sparað að mæla fram með brtt. við 2. eða 3. umr., sem ég býst við, að n. beri fram um þetta. Því að þar sem svo margir menn þurfa daglega að lifa undir þessum lögum og þekkja þau til hlítar, þá er nauðsynlegt, að þeir hafi greiðan aðgang að þeim, og til þess þurfa þau helzt að vera í einu lagi, svo að menn þurfi ekki að fletta upp tvennum lögum um þessi mál.