04.04.1941
Efri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

74. mál, bifreiðalög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Aðeins örfá orð. Ég stend ekki upp til þess að andmæla þessu frv. n., heldur miklu frekar til þess að þakka n. fyrir.

Það vill svo til, að Alþfl. á engan mann í þessari n., og þess vegna þykir mér hlýða að taka til máls.

Ég var einn af þeim þm. hér í hv. d. á síðasta þingi, sem andmælti því að breyta til um akstur þannig, að í staðinn fyrir vinstri kæmi hægri akstur. Fyrir rás viðburðanna hefur reynslan orðið, að við höfum fylgt okkar gömlu reglu í þessu efni. Og ég er þeirrar trúar, að við munum gera það áfram á næstu áratugum, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu.

Ég er ekki í neinum vafa um, að það eru svo fullkomin rök, sem n. færir fram fyrir þessu máli og sömuleiðis því máli, sem er síðar á dagskrá, umferðarl., að þingið ætti að hraða afgreiðslu þessara mála.

Vil ég svo þakka hv. n. fyrir röggsamlega afgreiðslu þessa máls.