04.04.1941
Efri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

74. mál, bifreiðalög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Eins og kemur fram í grg. frv., þá sætti ég sem dómsmrh. mig við það, að þessu, sem hér er til umr., verði breytt.

En ég vænti þess, að hv. þd. sjái það einmitt nú, eftir að l. hefur verið breytt, að það var ekki nema um tvær leiðir að ræða, — að láta l. halda gildi eða fresta þeim öllum.

Það hefði verið, eins og hv. þm. sjá nú, hið mesta glappaskot, ef l. hefðu verið látin haldast óbreytt, en ökureglurnar að aka til vinstri hafðar gildandi. Það hefði orsakað svo mikið ósamræmi í texta l., að erfitt hefði verið að átta sig á þeim. Og að fresta 1. í heild hefði komið í veg fyrir nokkurt millibilsástand eða öngþveiti í þessu efni.

En nú hefur verið valin sú leið, sem ég er ekki ósamþykkur, og ég tel að ýmsu leyti til bóta að láta þau 1. um þetta halda sér, sem samþ. voru á síðasta þingi, að öðru leyti en því að breyta þeim í samræmi við það að aka til vinstri.

Um vinstri eða hægri akstur er það að segja, að það má ekki koma fram sá misskilningur, að meira öryggi sé í því að aka vinstra megin heldur en hægra megin. Það er alveg eins mikið öryggi í akstri í Tékkóslóvakíu, Þýzkalandi, Danmörku og Noregi t. d. eins og hvar annars staðar sem er, þó að þar sé hægri akstur. Þess vegna skulum við ekki taka upp neinar deilur um það. Það var orðin almenn regla að aka til hægri, nema í þremur löndum álfunnar. Þess vegna hefði það, að óbreyttum þeim ástæðum, sem voru hér á landi, þegar 1. voru samþ., verið alveg sjálfsagt að taka upp hægri akstur vegna ferðamannastraums frá útlöndum hér á landi og ferðamanna héðan í öðrum löndum. Auk þess, þar sem hægri akstur er svo almennur í öðrum löndum, getum við búizt við því, að geta ekki fengið ökutæki nema í samræmi við þá almennu reglu.

En hitt er annað mál, að ástæður eru nú þannig, að það væri fásinna ein að beygja sig ekki fyrir þeim í þessu efni. Og þeim, sem voru fylgjandi því í fyrra að lögfesta þá reglu að hafa hægri akstur, finnst það jafnsjálfsagt nú að fresta þessum ákvæðum l. Því að það að halda sig við það að breyta ökureglunum nú, álít ég, eins og það hefði verið auðvelt að gera það eins og ástæður voru fyrir ári síðan, eins mikla fásinnu nú og blátt áfram óðs manns æði, því að það mundi að öllum líkindum valda svo miklum slysum, að ófyrirsjáanlegt væri, hve alvarleg og mikil þau mundu verða. Þess vegna er ekki um annað að gera en að halda þeim ökureglum, sem verið hafa hér. Það getur tafizt um nokkur ár, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að taka upp hægri akstur á vegum, og tel ég sjálfsagt að ganga frá löggjöf um þetta atriði eins. og hér er gert ráð fyrir eins og nú standa sakir. Hitt getum við ekki sagt um, hvort vinstri akstur eða hægri akstur verði hafður hér á landi eftir t. d. 2–3 ár. Það fer eftir því, hverjir skipa þá l. í þessum heimi, og fyrir því verðum við að beygja okkur í þessu sem öðru.

Báðar reglurnar — að aka til hægri og að aka til vinstri — eru jafnöruggar. En í umferðinni verðum við að haga okkur í þessu efni eftir þeim umferðarstraum, sem er í þessu landi nú sem stendur. Og við verðum einnig að vera í samræmi við það, sem kemur í þessu efni. Það vita þeir, sem verða að halda uppi 1 og reglu í umferð, sem ég hef gert talsvert og þekki þess vegna nokkuð vel.