04.04.1941
Efri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

73. mál, umferðarlög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Ástæðurnar til þess, að samgmn. ber fram. þetta frv. um breyt. á umferðarl., eru nákvæmlega þær sömu eins og liggja til þess, að hún bar fram það frv., sem afgr. var hér núna rétt áðan. Þarf ég því ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá, og get látið nægja að vísa til þess.

En í sambandi við þetta mál skal ég þó bæta einu við, sem sýnir, hvað það var. nauðsynlegt að láta 1. öðlast gildi, að svo miklu leyti sem hægt var, þó að ekki væri hægt að taka upp hægri akstur. Áætlanir langferðabíla eru beinlínis byggðar á þeim ökuhraða, sem er leyfður í þessum nýju l., sem er töluvert hærri heldur en var í gömlu l., þannig að það hefði algerlega stangazt á áætlanirnar og lögin, ef ekki hefði verið að þessu ráði horfið.

Ég leyfi mér að geta þess, að ég geri ráð fyrir, — en það er ekki fullathugað —, að það þurfi að gera smábreyt. við 3. málsgr. 13. gr. frv., um umferð gangandi manna á vegum, og svo auðvitað að gera einnig þá brtt. við þetta frv., að það skuli fella það inn í texta umferðarl., þegar það verður orðið að lögum.