08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

73. mál, umferðarlög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Við 1. umr. þessa máls leyfði ég mér að gera grein fyrir því að nokkru, hvaða breytingar mundi verða lagt til að gera á frv. við þessa umr., og liggja þær nú fyrir á þskj. 147. 1. brtt. er um að nema burt skyldu gangandi manna til að halda sig við vinstri brún akbrautar. Í umferðarl. frá í fyrra er ákveðið, að gangandi menn skuli halda sig vinstra megin akbrautar, um leið og ætlazt var til, að hægri akstur væri upp tekinn. Nú þegar vinstri akstur er aftur lögboðinn, mætti í fljótu bragði ætla, að ástæða væri til að snúa einnig við ákvæðinu um gangandi fólk, en mér virðist nóg að fella ákvæðið niður, því að það er í rauninni sama og að lögfesta venjuna, sem almenningur fylgir og mun fylgja, hvað sem öll lög segja, að víkja út á þá vegarbrúnina, sem er nær þeim, og ganga þeim megin vegar, sem þægilegast er.

Að vísu finnst mér ekki auðsæ nauðsyn á að fella niður eða breyta ákvæðinu um að fylgja reglu vinstri umferðar á gangi, sökum þess að vinstri umferð er aftur lögboðin í akstri, því mér virðist, sem leikmanni í þessum efnum, að ákvæði laganna frá í fyrra hafi stangazt hvað þetta snertir, og ekki skil ég annað en það hefði orðið örðugt að kenna almenningi þveröfuga reglu á gangi við þá, sem í akstri er höfð. En okkur er tjáð af skilríkum mönnum með reynslu og sérþekkingu í þessum efnum, að þetta ákvæði hafi þó verið sett í lögin að vel yfirlögðu ráði. Röksemdir þeirra viðurkenni ég ekki allar né skil svo, að ég kunni að fara með þær að gagni hér, og mun þess ekki þörf. Brtt. nefndarinnar er lausn í þessu efni, sem ég held, að sé hin eina rétta og eðlilega. Hef ég rætt þá uppástungu bæði við Jón Ólafsson bifreiðaeftirlitsmann og sakadómarann í Reykjavík, og hafa þeir fallizt á þessa tilhögun. Auk þessara tveggja manna, sem fallizt hafa á hana, vil ég nefna, að ég hef heimild fyrir því, að vegamálastjóri sé henni samþykkur. — Í b-lið sömu brtt. þarf að leiðrétta í próförk málvillu eða prentvillu „halda sig“ í stað „halda sér“, og beini ég því atriði til hæstv. forseta.

Ég hygg óþarft að skýra málið frekar, nema tilefni gefist.