27.03.1941
Efri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Bernharð Stefánsson.) :

Þetta frv. er flutt af okkur tveim þdm., sem sæti höfum átt í mþn. í bankamálum, og er frv. samið af henni. N. var kosin á þinginu 1937, og skilaði hún heildaráliti sínu nú í byrjun þessa þings. Ríkisstj. hafði ekki, eftir að þó nokkur tími var liðinn frá þingbyrjun, tekið þetta frv. upp sem stjfrv., og varð það að samkomulagi milli okkar nm. í mþn., sem sæti eigum í þessari d., og hæstv. landbrh., sem þetta mál heyrir undir, að við skyldum flytja það sem þmfrv. Að sjálfsögðu tók mþn. l. um Búnaðarbanka Íslands í heild sinni til meðferðar, eins og hún tók önnur lög, er snertu bankana, til meðferðar í heild sinni. N. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki ástæða til að breyta miklu í þessum l. — Það eru eiginlega ekki nema 3 meginatriði, sem með þessu frv. er lagt til, að breytt verði í búnaðarbankal., fyrir utan ýmis smáatriði eða leiðréttingar, sem ekki þýðir að fara orðum um, sízt af öllu á þessu stigi málsins.

Fyrsta atriðið, sem lagt er til að breytt verði, er það, að numin séu úr l. þau ákvæði, sem gera ráð fyrir því, að Búnaðarbankanum beri sérstaklega að veita rekstrarlánafélögum lán. Þetta ákvæði hefur verið í bankal. frá upphafi, og um sama leyti og búnaðarbankal. voru sett önnur 1. um rekstrarlánafélög. En framkv. á þessu hefur orðið sú, eftir því, sem ég bezt veit, að Búnaðarbankinn hefur ekki veitt einu einasta rekstrarlánafélagi lán, og það er ekki vegna neinnar stirfni frá bankans hendi, heldur af þeirri einföldu ástæðu, að ekkert rekstrarlánafélag hefur beðið um lán. Aftur á móti hefur útibú bankans á Akureyri veitt einu rekstrarlánafélagi lán, og held ég, að það sé eina rekstrarlánafélagið, sem stofnað hefur verið hér á landi samkvæmt þessum lögum.

Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þessu í 11 ár, sýnist því vera alveg óþarft að hafa ákvæðin um þetta áfram í búnaðarbankal. Þess ber þá líka að geta, að þó að þessi ákvæði væru numin burtu úr búnaðarbankal., þá er síður en svo, að nokkurt bann sé lagt við því, að Búnaðarbankinn veiti slíkum félögum lán, ef þau kynnu að koma upp og æskja láns úr bankanum. Bankanum er það vitanlega heimilt samkvæmt öðrum ákvæðum laganna, þó að ekki sé lögð nein skylda á hann í því efni.

Þá er annað atriðið, sem frv. gerir ráð fyrir að breyta, og það er að setja aftur inn í lögin kafla um smábýladeild. Upphaflega var svo ákveðið, að Búnaðarbankinn skyldi starfa í 6 deildum og nánari reglur settar um hverja af þessum deildum. Muna menn sjálfsagt, hvernig sú deildaskipting átti að vera, svo ég þarf ekki að rifja það upp hér. En það fór svo, að 2 af þessum deildum, sem átti að stofna samkv. búnaðarbankal., tóku aldrei til starfa, annað var bústofnslánadeild, hitt var lánadeild smábýla í grennd við kaupstaði og kauptún.

Það er megintill. þessa frv. og aðaltilgangurinn með því að fá þessa smábýladeild tekna upp aftur, svipað því, sem upprunalega var ákveðið, en þó dálítið rýmkað um þau ákvæði, sem upprunalega giltu.

Upprunalega var ákveðið í búnaðarbankal., að ríkissjóður legði smábýladeildinni til 50 þús. kr. á ári í 6 ár, eða 300 þús. kr. samtals. Ég lít svo á, þar sem þessi kafli um smábýladeildina var ekki numinn úr l. fyrr en löngu eftir að þessi 6 ár voru liðin, að ríkissjóði hefði borið skylda til að greiða þessar 50 þús. kr. á ári, jafnvel þó að deildin væri ekki starfandi, og að þá peninga hefði síðan átt að leggja til hliðar, þangað til deildin væri stofnuð. Hér í frv. er lagt til, að þessi smábýladeild verði stofnuð, og að ríkissjóður árið 1942 greiði þessa skuld sína, 300 þús. kr., til þess að stofna deildina með. Það má búast við því, að þessar 300 þús. kr. hrökkvi skammt til lánveitinga, þess vegna er einnig lagt til, eins og upprunalega var í búnaðarbankal., að deildin megi gefa út vaxtabréf og selja þau og afla sér þannig starfsfjár.

Þessu 300 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði verður þá einkum varið til þess að deildin verði fær um að veita lán með lægri vöxtum heldur en ella væri, ef hún ætti eingöngu að starfa með

því fé, sem hún gæti fengið fyrir bankavaxtabréf.

Í frv. er dálítil breyt. frá því, sem áður var, þar sem gert var ráð fyrir því, að lánin yrðu eingöngu veitt til býla í grennd við kaupstaði og kauptún. Mþn. leit svo á, að það væri óþarfi að binda þetta svo, því að við sjávarsíðuna gæti staðið svo á, að gott væri að styðja fólk til þess að koma upp heimilum, þar sem það hefði lítils háttar stuðning af landbúnaði, þó að aðalatvinnan væri sjávarútvegur, og gæti þetta verið á stöðum, sem ekki eru nálægt kaupstöðum eða kauptúnum.

Eins má benda á það, að á síðari árum hefur jarðhitinn víða verið tekinn til notkunar við garðrækt o. fl. Má gera ráð fyrir, að víða geti orðið bezt gagn að þessum náttúruhlunnindum með því móti að koma upp smábýlum í grennd við jarðhita, þar sem garðrækt væri aðallega stunduð. Þar, sem þessi náttúrugæði eru fyrir hendi á annað borð, gæti þetta orðið jafnhentugt inn til dala, upp til sveita og upp til fjalla, þó ekki sé í nánd við kaupstað eða kauptún. Um stærð býlanna er í frv. miðað við landsstærðina, að landið þurfi að jafnaði að vera 1 hektari, en ef sérstaklega vel hagar til um garðrækt eða náttúruhlunnindi á staðnum, þá nægi ½ hektari. En áður var miðað við það, að meðalfjölskylda gæti haft 1/3 framfæris síns af landbúnaði á býlinu.

Það er víða um lánveitingu til landbúnaðar svo ákveðið í lögum, að lána megi út á afgjaldskvöð með eigninni sem tryggingu. Þetta hefur harla lítið verið notað, en að svo miklu leyti sem það hefur verið notað, hefur það gefizt illa. Það sýnist líka ástæðulaust við nánari athugun, að þessi lán verði annað en almenn fasteignaveðslán, því ef ábúandi býlisins á það sjálfur, getur hann veðsett það, og sömuleiðis, ef hann hefur það á erfðafestu. Í þriðja lagi má ætla, að hann sé leiguliði annars manns, og má þá gera ráð fyrir, að eigandinn hafi hagsmuni af því og vilja til þess að útvega lán, ef nauðsynlegar framkvæmdir eru fyrir hendi, enda ber þá eiganda skylda til að sjá um, að húsakynni séu viðunandi.

Töluverð breyting hefur verið gerð í frv. frá því, sem búnaðarbankal. voru upprunalega, um lánsupphæðina. Upprunalega var svo ákveðið, að lán til smábýla mættu nema 15 þús. kr. Þetta var rétt fyrir 1930, þá kom það fyrir, að lánað var upp undir 20 þús. kr. úr Byggingar- og landnámssjóði, og þetta ákvæði hefur verið sett í samræmi við það. En nú orðið mun það vera venjulegt, að byggingarsjóðslán eru alls ekki yfir 6 þús. kr., og varla það, og þetta ákvæði hér í frv., að hámarkslán megi vera 6 þús. kr., er því til samræmis við þetta, og má segja, að sízt sé hallað á þessi smábýli, því að ef gera ætti mun á þeim og jörð í sveit eða reglulegu nýbýli, 10 hektara að stærð, þá væri eðlilegast að álykta, að þessi smábýli hefðu ekki eins mikla þörf fyrir lánsfé og stóru býlin. Þess vegna er sízt hallað á þau með þessu ákvæði.

Í frv. er líka öðruvísi ákvæði, og nokkuð lægra hlutfall sett um það, hvað lána megi út á mikinn hluta fasteignamats smábýla og sett til samræmis við ákvæði í búnaðarbankal. um önnur fasteignalán. Ég álít, að það sé mjög aðkallandi þörf að samþykkja þetta frv., alveg með sérstöku tilliti til þess að láta nú af því verða að stofna þessa smábýladeild, sem lofað var fyrir 12 árum síðan, þegar búnaðarbankal. voru sett árið 1929, en ekki hefur verið efnt enn.

Þessir menn, sem eiga býli, sem ekki eru á kaupstaðalóðum og ekki geta heldur kallazt jarðir eða lögleg nýbýli í sveitum, hafa verið, hvað lánveitingu snertir, allt til þessa tíma eins og utan við lög og rétt í þjóðfélaginu, og er það alls ekki viðunandi ástand lengur.

Mér er fyrir minni, að fyrir nokkrum árum var ég að útvega manni lán hér. Fasteign hans var metin til skatts á 20. þús. kr., og á henni hvíldu engin veð. Það voru aðeins 2 þús. kr., sem ég ætlaði að útvega honum, en það var ekki hægt að fá neitt lán út á eignina, vegna þess að hún var hvorki í kaupstað né heldur jörð í sveit. Aftur á móti hefur milliþn. ekki séð sér fært að gera till. um það að taka upp aftur bústofnslánadeild, sem upprunalega var ákvæði um í búnaðarbankal., en hefur síðan verið felld niður. Bæði kann að vera, að það sé vafasamt ákvæði frá upphafi, og hvað sem um það er, þá hygg ég, að Kreppulánasjóður og þær framkvæmdir geri það í raun og veru þýðingarlaust að fara að stofna slíka deild, vegna þess að fjöldi þeirra manna, sem kannske hvað helzt þyrftu á lánum að halda úr slíkri deild, hafa fengið lán í Kreppulánasjóði á sínum tíma og veðsett þar búpening sinn.

Þá er þriðja atriðið, sem mþn. gerir brtt. við frá núgildandi 1., og ætla ég ekki að fara langt út í það atriði, sökum þess, að ég var þar ekki till. maður, þó að ég hins vegar sjái ekki ástæðu til að kljúfa n, út af því. Það er um að breyta stjórninni við Búnaðarbankann, koma á bankaráði eins og við aðra banka, en jafnframt er gert ráð fyrir því að leggja niður starf gæzlustjóra, sem nú er við Búnaðarbankann, og að bankaráðið, og þá sér staklega formaður þess, annist þau störf, sem nú hvíla á gæzlustjóra. Og í sambandi við þetta er gerð lítils háttar leiðrétting á því, hverjir geta skuldbundið bankann o. s. frv., og er gengið tryggilegar frá því, hverjir megi gefa umboð til að skuldbinda bankann. Áður mátti jafnvel skilja ákvæði 1. þannig, að bankastjórinn gæti gert þetta einn, og var þá vald gæzlustjóra eiginlega að engu gert, ef virkilega mátti skilja 1. í þessu efni á þá leið, sem orðin virtust benda til.

Ég geri ráð fyrir, að það, sem helzt kynni að vera haft á móti þessum breyt., sé það, að þetta sé kostnaðarauki, þar sem komi 3 menn í staðinn fyrir 1. En nú er ekki gert ráð fyrir því, að þessir bankaráðsmenn mundu hafa mikil störf og þar af leiðandi ekki mikil laun, svo ég sé ekki, að þetta skipti miklu máli. En það er tekið fram í grg. frv., að ég persónulega teldi þessa breytingu óþarfa, þó að ég mæli ekki beint á móti henni, og sé þar af leiðandi ekki ástæðu til að rökstyðja þessa till. nánar.

Þá vil ég geta þess, áður en ég sezt niður, að einn af nm. í mþn., meðflm. minn að þessu frv., hefur einnig nokkra sérstöðu að því er snertir frv. Það er um fyrsta atriðið, sem ég nefndi. Hann telur það óþarfa að vera að fella þau ákvæði, sem fjalla um rekstrarlánafélög, burtu úr búnaðarbankal.

Það kann að vera nokkurt álitamál, til hvaða n. eigi að vísa þessu frv. Frv., sem fjalla um bankamál, eru venjulega látin ganga til fjhn., en ég man ekki betur .en að frv., sem fjalla um Búnaðarbankann, hafi að undanförnu verið vísað til landbn., og ætla ég að leyfa mér að skjóta því til hæstv. forseta að gera till. um það, í hvaða n. eigi að vísa þessu máli.