03.04.1941
Efri deild: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það eru aðeins örfá orð til að gera grein fyrir ástæðunni, að ég varð að lokum sammála hv. frsm. um skipunartíma formanns bankaráðsins. Ég hreyfði því líka í n., og er bezt, að ég segi það nú, hvað kom mér til þess að fallast á, að það yrðu 6 ár.

Eins og stendur í frv., þá er skipunartími bankaráðsins aðeins 4 ár, og þeir eru aðeins þrír. Og ef formaður er líka skipaður til aðeins 4 ára, þá gæti farið svo, að skipt yrði um alla stj. á einum og sama degi. Þetta er ekki þægilegt, og þurfa að vera reglur, sem koma í veg fyrir þetta. Þess vegna var það, að ég vildi, að þótt skipt væri um aðra nm., þá væri formaðurinn eins og seglfesta, eins og kunnugur maður, sem stjórnaði störfum ráðsins og hyrfi ekki úr því fyrr en hinir nýkosnu menn væru orðnir kunnugir málefnum bankans.

Ég þarf svo ekki að orðlengja um þetta frekar, við erum að öðru leyti alveg sammála um þessi atriði. Ég get sætt mig við, að skipunartími formanns sé þetta langur, með þeirri ósk, að valinn væri sæmilegur maður til þessa starfs, þó að ég jafnvel beri ekki fullt traust til þess, að það verði gert.