22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Pétur Ottesen:

Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara að því er snertir 1. gr. frv., og var fyrirvarinn byggður á því, að gert var ráð fyrir, að rekstrarlánadeild yrði felld niður og borin fram sú ástæða, að þessi lánastarfsemi hafi aldrei komizt á þann rekspöl, sem ætlazt var til í öndverðu. Enda er nú orðið rýmra um viðskipti á þessu sviði en var, þegar lögin voru sett um þetta. Ég vildi með fyrirvaranum aðeins vekja athygli á, að þarna er verið að nema úr gildi ákvæði, sem þannig var litið á í öndverðu, að gæti haft þýðingu til hagkvæmrar verzlunaraðstöðu.

En eftir að hafa athugað þessa hlið málsins nánar, get ég fallizt á, að eins og nú er komið sé þessa ekki brýn þörf og að við þessa breytingu megi hlíta.