30.04.1941
Efri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta frv. er komið aftur frá hv. Nd., og hefur hún gert nokkrar breyt. á því. Aðalbreyt. er sú, að þar sem gert var ráð fyrir því hér í hv. d., að landbrh. skipaði bankastjórann, er nú gert ráð fyrir því í frv., að bankaráð skipi bankastjóra, bókara og gjaldkera. Þessa breytingu mun hv. Nd. hafa gert til þess að fá fram samræmi við reglurnar um Landsbankann, en þar ræður bankaráð bankastjóra, bókara og gjaldkera. Má deila um það, hvort þessi breyting er til bóta eða ekki, og tel ég ekkert unnið með henni, en mun þó sætta mig við hana. Þó hefur hv. Nd. láðst að breyta 68. gr. l. til samræmis við þetta, en þar stendur, að ráðh. skipi bókara og féhirði. Höfum við gert viðeigandi breyt. á þeirri gr. Í stað þess að segja, að ráðh. skipi bókara og féhirði, leggjum við til, að sagt sé: „Bankastjóri ræður aðra starfsmenn bankans en bókara og féhirði.“ Svo er önnur brtt. á þskj. 310, þar sem við leggjum til, að „féhirðir“ komi í stað „gjaldkera“, og er það talin betri málfræði. Þá er enn brtt. við 4. gr., þar sem vitnað er til „sömu laga“, en þar er í rauninni ekki um að ræða sömu 1., heldur breytingu á þeim l. Þessar brtt. eru allar sjálfsagðar og þarf ekki að gera ýtarlegar grein fyrir þeim. Aðalatriðið er það, hvort hv. Ed. vill fallast á breyt. hv. Nd., að bankaráð skipi bankastjóra, bókara og féhirði, í stað þess, að ráðh. skipi þá.