16.04.1941
Efri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það mun þykja viðeigandi, að þeir flokkar, sem standa að ríkisstj., láti eitthvað frá sér heyra um þetta mál við 1. umr. Það hefur orðið að ráði, að ég segði nokkur orð um afstöðu Framsóknarflokksins.

Mér finnst einfaldast að skipta þessu máli í 2 kafla og ræða annars vegar um skattgreiðslu útgerðarinnar, eins og hún er ákveðin samkvæmt þessu frv., og hins vegar hin almennu ákvæði.

Áður en ég vík að höfuðatriði málsins, vil ég segja það, að það er óhætt fyrir okkur að segja sama og hv. 1. þm. Reykv., að Framsfl. mundi ekki hafa gengið frá því frv., sem hér liggur fyrir, á þennan hátt, ef hann hefði einn ráðið, heldur er það árangur af langvinnum samningaumleitunum. Ég skal víkja að því um leið og ég kem að meginatriðum málsins, hvað það er, sem Framsfl. hefði talið eðlilegra, að væri öðruvísi.

Fyrst tel ég nauðsynlegt að víkja að því, að á árinu 1938 voru sett sérstök 1. um skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja. Í þessari löggjöf voru 3 meginatriði. Í fyrsta lagi, að útgerðarfyrirtækjum var heimilað að draga frá tekjum sínum, áður en skattur var á, lagður, rekstrartöp, er orðið höfðu á árunum 1931–1938. Í öðru lagi átti útgerðarfyrirtækjum að vera heimilt að fá skattfrjáls 90% af fé því, er þau legðu í varasjóð, en áður höfðu verið skattfrjáls 50%. Þriðja meginatriði 1. var það, að hreppsnefndum og bæjarstjórnum var óheimilt að leggja á útgerðarfélögin hærri útsvör en þau höfðu borið 1938. Jafnframt var svo heimild fyrir sömu aðila til þess að undanþiggja útgerðarfélögin útsvörum.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, eru þessi l. afnumin. Ég geri ráð fyrir og veit raunar, að allir muni fallast á það út af fyrir sig, að Það sé eðlilegt að afnema þessi 1. eða a. m. k. að breyta þeim,. vegna þess að ástæður eru allar gerbreyttar frá því l. voru sett. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru 2 af ákvæðum skattfrelsislaganna felld niður og ekkert tekið upp í þeirra stað. Þetta eru ákvæðin um heimild handa bæjarstjórnum og hreppsnefndum til að láta útgerðarfélögin vera útsvarsfrjáls eða að öðrum kosti leggja ekki á þau hærra útsvar en þau báru 1938. Hitt ákvæðið er um að heimila að láta 90% af fé, sem lagt er í varasjóð, vera skattfrjáls. Um þriðja atriði skattfrelsislaganna frá 1938 er öðru máli að gegna. Það var um heimild fyrir útgerðarfyrirtækin til þess að draga rekstrartöp frá tekjunum áður en skattur væri lagður á þær. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að útgerðarfélögunum sé þetta heimilt að því er snertir framtöl fyrir árið 1940. Þessum hlunnindum er haldið, en þó með þeim takmörkunum, sem nánar er til tekið í frv., sem fyrst og fremst eru þær, að það fé, sem þannig verður skattfrjálst, skoðist sem varasjóðstillag. Síðan eru ákvæði um, að ef þessu fé verði nokkru sinni varið til annars en að mæta hreinum rekstrarhalla, þá skuli greiða fullan skatt af því, eins og greiða hefði átt af því 1940. Það má því segja, að þessu atriði sé í verulegum atriðum breytt frá því, sem var, og segja megi, að undir vissum kringumstæðum verði hér um frestun á skattgreiðslum að ræða. Þá er ákvæði um, að fyrningarafskriftir verði nokkuð takmarkaðar, þannig að ekki megi telja til skatts meiri afskriftir en svo, að hver togari sé færður niður í 150 þús. kr. Þetta er mikilsvert ákvæði, því að eftir núgildandi reglum má afskrifa 6% árlega, unz skip er afskrifað niður í ekki neitt.

Þegar skattfrelsislögin voru sett, sem svo hafa verið kölluð, var aðdragandi þess sá, að menn voru hræddir um, að útgerðinni mundi verða gersamlega um megn að reisa við fjárhag sinn, ef útgerðin þyrfti að greiða fulla skatta af þeim gróða, sem henni kynni að áskotnast, án þess að eldri töp væru tekin til greina við skattálagningu. Og það er auðvelt að sýna fram á, að þetta var eðlilegt sjónarmið. Ef ekki hefði verið tekið tillit til fyrri tapa, þá voru engar líkur til, að útgerðarfélag gæti unnið sig upp, þó það græddi talsvert, ef skattalöggjöfinni væri háttað á þennan veg. Sjá það allir menn, að útgerðarmenn eða framleiðendur hafa engar líkur til þess að geta unnið sig upp, væri skattalöggjöfinni hagað þannig. Annað atriði kemur ákaflega áberandi fram, að ef ekki er leyft að draga rekstrartöpin frá skattskyldum tekjum, þá verða þeir menn, sem tapa stundum og græða stundum, að greiða miklu hærri skatta en hinir, sem alltaf græða, því að sá, sem alltaf græðir, getur dregið allan sinn rekstrarkostnað frá, en hinn ekki nema nokkurn hluta hans þau árin, sem tapið á sér stað. Þegar þessi mál voru til meðferðar árið 1938, taldi Framsfl. aðeins tvær leiðir koma til greina í þessu sambandi. Önnur leiðin var að hafa meiri tapsfrádrátt en áður, en hin leiðin var sú að lækka skattstigann og hafa hann svo lágan, að þeir menn, sem óvissan atvinnuveg stunda, gætu unað hag sínum sómasamlega, enda þótt þeir töpuðu í mörg ár. En ef sú leið hefði verið valin, mundi það hafa valdið almennri skattalækkun, því að lækkun skattanna mundi ekki aðeins hafa orðið hjá þeim, sem græða einstök ár og tapa önnur, heldur líka hjá þeim, sem græða alltaf. En Framsfl. taldi ekki rétt að lækka beinu skattana. Framsfl. var andvígur því og hefur alltaf verið, að framleiðendum yrði leyft að jafna tekjur sínar með því að lækka skattstigann. Við höfum alltaf haldið því fram, að lækkun skattstigans mundi alls ekki verða til þess að koma meiri jöfnuði á, því að með því móti sleppa þeir menn betur, sem hafa jafnan stórgróða, en engin töp. Þetta mundi svo aftur leiða til þess, að óbeinu skattana yrði að hækka töluvert, ef ríkissjóður ætti að hafa sömu tekjur og áður. Út frá þessu sjónarmiði var það, að Framsfl. var með því að heimila tapsfrádrátt árið 1938. Nú má að vísu segja sem svo, að þótt eðlilegt væri að leyfa tapsfrádrátt að vissu marki, hafi það verið of langt gengið að leyfa slíkt um alllangt tímabil, 8–9 ár. Enn fremur hafa menn sagt, að það væri nokkuð langt gengið að leyfa aðdraga frá töp margra ára á einu og sama ári og að eðlilegt væri að takmarka þann frádrátt nú verulega frá því, sem ákveðið var árið 1938. Það má vel vera, að þessar skoðanir eigi einhvern rétt á sér. En frá sjónarmiði okkar framsóknarmanna teljum við það fjarri lagi að taka meira af stórgróða útgerðarfyrirtækja með því að ganga út frá hinum almenna skattstiga, því að með því móti mundi ekki aðeins verða tekið tillit til rekstrarkostnaðarins þau árin, sem töp hafa átt sér stað, heldur rekstrarkostnaðarins yfirleitt. En rekstrarkostnaðurinn á undanförnum árum mundi í mörgum tilfellum ekki koma til greina vegna þess, að þá hafa ekki verið neinar tekjur til að draga frá.

Við í Framsfl. höfum því til samkomulags valið þá leið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þar er tapsfrádráttur heimilaður, eins og gert var ráð fyrir í 1. frá árinu 1938, en þó með þeim mikilsverðu breyt., að vissar takmarkanir eru settar um ráðstöfun þess fjár, sem sé að það fé, sem menn fá þannig skattfrjálst, verður að vera bundið í fyrirtækjunum. En verði það ekki bundið þar áfram, heldur varið til þess að greiða skuldir umfram hreinan rekstrarhalla eða til annarra afnota, skal telja 60% af. þeirri upphæð til skattskyldra tekna, en ekki aðeins helming, sem annars er gert ráð fyrir. Í þessu frv. er svo um hnútana búið, að ekki er unnt að úthluta fé úr varasjóði smátt og smátt og láta það koma í lægri skattstiga. Ef það er gert, þá verða félögin að greiða þann sama skatt sem þau áttu að greiða á því ári, sem féð var tekið úr sjóðnum, og þar með talinn stríðsgróðaskattur. En þau ákvæði, er ég minntist áðan á, eru sett í frv. með það fyrir augum, að því fé, er kemur til frádráttar við ákvörðun skattskyldra tekna, verði varið til þess að styrkja atvinnurekstur fyrirtækjanna sjálfra. Aðeins með því skilyrði gátum við leyft þeim félögum, sem um ræðir í 3. gr. a., tapsfrádrátt eins og gert var árið 1938. Það liggja sömu ástæður til þess nú sem þá, og hef ég reynt að skýra það mál með örfáum orðum.

Ég vil leggja áherzlu á það, að frá sjónarmiði okkar framsóknarmanna er ekki hægt að hugsa sér nema tvær stefnur í skattamálunum, a. m. k. hér á Íslandi, þar sem þannig hagar til, að margir menn græða annað árið, en tapa hitt, — annaðhvort þá, sem hér er farin, eða þá lækkun skattstigans. En með lækkun beinna skatta hljóta tollarnir að hækka, og sú leið, sem mönnum hefur þótt eðlilegast að fara, er að hafa heldur hærri beina skatta en óbeina. En við rekstur útgerðar þurfa menn á ýmsu að halda, sem ekki getur alltaf notið sín til skattafrádráttar. Eins og ég drap lauslega á áðan, þá er það svo samkv. l. um skattfrelsi útgerðar og útgerðar fyrirtækja, að þessi fyrirtæki mega fá skattfrjáls 94% af því, sem lagt er í varasjóð.

Í þessu frv. eru mjög veruleg nýmæli um varasjóðshlunnindi útgerðarfyrirtækja. Ég skal fyrst taka það fram, áður en ég ræði það mál nánar, að í Framsfl. hefur ákaflega mikið gætt þeirrar skoðunar, að varasjóðshlunnindi þau, sem gert er ráð fyrir í skattal. frá árinu 1935, séu yfirleitt of mikil. Ég tek það fram, að hér á ég ekki við 1. um skattfrelsi útgerðarinnar frá árinu 1938. En heimilað er í 1. frá 1935 að draga frá sem skattfrjáls 50% af því fé, sem félögin leggja í varasjóð. En ef það fé er notað í öðru skyni en því að mæta töpum, skal greiða skatt af 3/5 þeirrar upphæðar. En það má telja, að þessi hlunnindi séu of mikil, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum, sem ekki hafa verulega áhættusaman rekstur, og sú skoðun var ofarlega í Framsfl., að einmitt nú væri ástæða til að takmarka að allverulegu leyti þessi hlunnindi. Menn skulu veita því athygli, að gera má ráð fyrir, að á síðastl. ári hafi ýmis hlutafélög grætt allháar upphæðir, og það orkar tvímælis, hvort eðlilegt væri, að þessi félög gætu lagt allan gróða sinn í varasjóð og fengið helming þess fjár skattfrjálsan. Það var því ofarlega hjá mörgum, að eitthvað yrðu takmarkaðar þær upphæðir, sem félögin mættu leggja í varasjóði. Við nánari athugun reyndist það ýmsum annmörkum bundið að finna slíka takmörkun, og niðurstaðan varð sú, bæði af þeim ástæðum, sem tilgreindar eru í frv., og til að samkomu- lag næðist um málið, að leggja til, að þeim félögum, er stunda sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, skuli heimilt að fá skattfrjáls 50% af því fé, er þau leggja í varasjóð af tekjum sínum á árinu 1940, en öðrum félögum skuli aðeins heimilt að draga frá skattskyldum tekjum 40% þeirrar upphæðar, og hefur þá upphæðin hvað hin síðar töldu snertir verið lækkuð um 10%. Við álitum rétt að lækka þessi hlunnindi nokkru meira, en til samkomulags gengum við inn á að sætta okkur við það lagaákvæði, sem hér er gert ráð fyrir, jafnframt þeim miklu nýmælum, sem þar eru og gera það að verkum, að menn sætta sig miklu betur við ákvæðin um þessa varasjóði. Ég á þar við d-lið í 4. gr., sem sé að útgerðarfélag, er skattaívilnunar hefur notið, skuli leggja 40% af því fé, sem það leggur í varasjóð af tekjum ársins 1940, í sérstakan nýbyggingarsjóð.

Eins og hv. frsm. (MJ) mun hafa skýrt frá, er gert ráð fyrir, að ráðh. skipi 3 manna n. eftir þeim fyrirmælum, sem sett eru í g.-lið 4. gr.n. á að hafa eftirlit með því, að þetta fé sé fyrir hendi, og jafnframt á sú n. að sjá um, að þessu fé verði ekki varið til annars en endurnýjunar á framleiðslutækjum á sviði útgerðar. Skattfrelsi útgerðarfyrirtækja er þeim skilyrðum bundið, að félögin hafi lagt í nýbyggingarsjóð ákveðinn hluta af tekjum ársins 1940. Þetta gerði það að verkum, að við framsóknarmenn féllum frá því að halda til streitu þeirri skoðun, er var talsvert ofarlega hjá okkur, að takmarkanir yrðu settar viðvíkjandi því, hve háar upphæðir félögin mættu leggja í skattfrjálsa varasjóði.

Það er líka annað atriði, sem við teljum mikilsvert í frv., sem sé að hlutafélög, sem hafa notfært sér hlunnindi þau, er þar um ræðir, mega ekki verja fé úr varasjóði til neins annars en þess, sem við kemur rekstri félaganna. Ef félag brýtur þessi fyrirmæli, þá á að reikna þá upphæð til skattgreiðslu, sem þannig hefur verið ráðstafað, eins og hún hefði verið tekin úr varasjóði. Þetta er mjög þýðingarmikið á kvæði. Eins og þm. vita, hafa verið talsverð brögð að því, að ýmis hlutafélög hafi notfært sér varasjóðshlunnindin eins og það fé væri þeirra eign samkv. 1. Síðan hafa félögin ráðstafað fjármunum sínum eins og þeir menn, er að þeim stóðu, höfðu mest gagn af, stundum án þess að það kæmi beint við rekstri félagsins. En því fé, sem lagt var í varasjóð, var komið undan ákvæðum skattal., og enginn skattur var reiknaður af því. En í frv. eru skýr ákvæði til að fyrirbyggja óbeina úthlutun fjár frá félögunum. Við, sem fylgjum Framsfl. að málum, gengum inn á tapsfrádrátt og varasjóðsfrádrátt þessara félaga einmitt vegna þess, hve örugglega er búið um ákvæði þessa frv. Þau eiga að fyrirbyggja, að það fé verði notað til annars en þess að hjálpa þeim félögum, sem hlut eiga að máli, til að standa undir töpum, sem kunna að verða á rekstri fyrirtækjanna. Einmitt vegna þess, hve skynsamlega er að okkar dómi búið um hnútana í þessu frv., vildum við ganga inn á þá stefnu, sem þar kemur fram. Við vildum taka fullkomið tillit til þess, hve sjávarútgerð er áhættusamur atvinnuvegur, og koma í veg fyrir þyngri álögur á þá, sem þann áhættusama atvinnuveg stunda, en hjá verður komizt. Hér er um lágmark að ræða, sem löggjöfin reynir að setja til þess, að þeir, er þá atvinnugrein stunda, verði ekki langtum harðar úti en hinir, sem aldrei leggja neitt í hættu, og þess vegna er þeim leyft að draga frá skattskyldum tekjum vegna rekstrarhalla.

Hitt er annað mál, að þegar búið er að taka fullt tillit til þeirra, sem stunda slíkan atvinnurekstur, þá er í þessu frv. gengið talsvert langt í því að skattleggja það, sem þá er umfram af tekjunum, enda liggur hér í d. fyrir frv. um sérstakan stríðsgróðaskatt. Þar er gert ráð fyrir því, að ef skattskyldar tekjur nema 50000–75000 kr., greiðist 4% af því, sem er umfram 50000 kr., og fer sá skattur síðan stighækkandi. Af 200000 kr. og þar yfir greiðist 26000 af 200000 og 35% af, afganginum.

Það er bezt að segja það eins og það er, að það hefði verið ómögulegt að setja 1. um stríðsgróðaskatt, sem gengi svona langt, ef ekki hefði áður verið búið að sjá sómasamlega fyrir skattafrádrætti útgerðinni til handa til, að bæta hag þeirra, sem þann áhættusama atvinnuveg stunda, og sömuleiðis að stofna varasjóði bæði til að mæta hinum gífurlegu töpum útgerðarfyrirtækjanna frá fyrri árum og líka þeim rekstrartöpum, sem kunna að verða í framtíðinni. Það er skoðun okkar framsóknarmanna, að ekki sé unnt að hafa beinu skattana eins háa sem æskilegt væri og ber að gera ráð fyrir, nema því aðeins, að sómasamlega sé fyrir þessu séð. Við höfum talið eðlilegt að ganga inn á þetta og að stríðsgróðaskatturinn sé hafður svo ríflegur sem frv. á þskj. 179 gerir ráð fyrir. Við töldum alls ekki rétt að leggja á svo háan stríðsgróðaskatt áður en búið væri að sjá fyrir þörfum framleiðenda með þeim hætti, sem þetta frv., gerir ráð fyrir, með tapsfrádrætti og varasjóðshlunnindum. Þetta tvennt hlýtur að efla og styðja hvort annað. Ef þessi leið hefði ekki verið valin, þá hefði vitaskuld niðurstaðan orðið sú, að ekki hefði verið unnt að hafa stríðsgróðaskattinn eins háan og nú er hægt, og þá mundu þeir framleiðendur, sem hafa fengið stríðsgróða, sleppa mun betur heldur en ef þetta frv. verður látið verða að 1. óbreytt. Ég geri ráð fyrir, að þm. hafi yfirleitt sæmilegan skilning á því, að það er eðlileg stefna, að sá gróði, sem ýmsum mönnum hefur áskotnazt í stríðinu, renni að nokkru leyti til opinberra þarfa, einkum þar sem yfirleitt má segja, að sá gróði hafi aðeins komið að litlu leyti fyrir beinan tilverknað þeirra manna, er verða hans aðnjótandi. Það ber að taka tillit til þessara aðstæðna og taka meiri skatta af þessu fé heldur en tíðkast um annað fé.

Ég hygg, að óhætt sé að gera ráð fyrir því, að verði það frv. samþ., sem hér liggur fyrir, ætti að verða sæmilega séð fyrir því, að sá gróði, sem útgerðinni hefur hlotnazt og öðrum reyndar líka árið 1940, renni að langsamlega mestu leyti til þess að greiða eldri skuldir til þess að tryggja rekstur útgerðarfyrirtækjanna og skipaflotans og loks til opinberra þarfa. Það er mjög mikilsvert, að með löggjöfinni sé tryggt, aðmeiri hl. stríðsgróðans verði varið á þennan hátt.

Ég ætla ekki að eyða meir í tíma í að tala um skattgreiðslur útgerðarmanna. Nú ætla ég að minnast með nokkrum orðum á þau ákvæði þessa frv., er snerta almenning meira en þau sérákvæði, er ég hef minnzt á. Skoðanir manna hafa verið mjög skiptar um það, hve langt skuli ganga í því að leggja á beina skatta og hvort rétt sé að nota meira eða minna þá aðferð að leggja tolla á vörur. En ef skattarnir eru lækkaðir, þá verður að hækka tollana, ef tekjur ríkissjóðs eiga ekki að minnka. Það hefur verið fundið að því á undanförnum árum, að skattstigi sá, sem notaður hefur verið, væri of hár, sérstaklega með tilliti til þess, að útsvarsstiginn væri einnig mjög hár og skattgreiðslur manna keyrðu úr hófi fram. Um þetta hefur margt verið rætt, og það kann að vera, að sumt af því megi til sanns vegar færa.

En ég vildi benda þm. á það, að þegar um álagningu beinna skatta er að ræða, þá dugir ekki að einblína á skattstigann. Menn verða að gæta þess, að skattstiginn er miðaður við tekjur manna, eftir að dregnir hafa verið frá greiddir skattar og útsvör. Þetta hefur það í för með sér, að hjá mönnum, sem hafa jafnar tekjur, sýnast skattgreiðslurnar miklu meiri en þær raunverulega eru. Við skulum hugsa okkur mann, sem hefur haft 25 þús. kr. tekjur á síðastl. ári eftir að skattar og útsvar frá fyrra ári hefur verið dregið frá. Skattar og útsvar hafa verið 5 þús. kr. Tekjur hans af atvinnurekstri eða laun hans hafa verið 30 þús. kr., og hann hefur greitt 5 þús. kr. í skatta. Þá mundu margir segja, að hann hefði eftir 20 þús. kr. En þetta er ekki alls kostar rétt. Hann hefur 20 þús. kr. afgangs eftir að skattar og útsvör tveggja ára hafa verið dregin frá tekjum hans.

Þetta gerir það að verkum, að skattstiginn sýnir hærri greiðslur en í raun og veru eiga sér stað. Það er mjög villandi að setja dæmið upp á Þennan hátt, en það er þó venjulega gert. Aftur á móti er það augljóst mál, að ef þessi maður hefði ekki borgað neinn skatt og útsvar til tekið ára en haft síðan 30 þús. kr. tekjur á ár í og orðið að greiða þar af 5000 kr. í skatta og útsvör, þá væri dæmið rétt reiknað þannig, að hann hefði haft eftir 25000 kr. handa sjálfum sér. Skattar og útsvör geta komið mjög þungt og illa niður á þeim mönnum, sem hafa háar tekjur eitt árið, en lágar tekjur á því næsta. Þá getur það komið fyrir samkv. þeim útsvars- og skattastigum, sem gilt hafa, og þeim, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og þeir eru raunar hærri en þyrfti að vera,. ef nýtt fyrirkomulag væri upp tekið, að menn þurfi að borga nærri allar tekjur sínar eitt árið í skatta og útsvör. En ef þessir menn hefðu haft sömu tekjur næsta árið, þá hefðu þeir fengið að draga skatta og útsvör fyrra árs frá skattskyldum tekjum og orðið nærri alveg skattfrjálsir. Það er augljóst mál, að þetta er mjög óheppilegt fyrirkomulag og að það er óviðunandi, að þeir menn, sem fá stórgróða eitt árið, en græða ef til vill alls ekki neitt eða tapa annað árið, verði að greiða hærri skatta en þeir, er hafa jafnar tekjur. En nú er eftir að athuga málið almennt. Það er mjög auðvelt að villa mönnum sýn, þegar þetta fyrirkomulag er haft. Framsfl. er þeirrar skoðunar, að þessu fyrirkomulagi verði að breyta og gera það með þeim hætti að fella úr skattal. þau ákvæði, sem heimila frádrátt á útsvari frá tekjum áður en skatturinn er lagður á. Jafnframt eigi að breyta skattinum þannig að lækka skattstigann enn, þó þannig, að ríkissjóður fái svipaðar tekjur og verið hefur. Þetta hefur marga kosti, sem of langt yrði upp að telja. Fyrst vil ég telja þann kostinn, sem mestur er, og hann er sá, að með þessu móti er útilokað, að þeir aðilar, sem eitt ár fengju talsverðar tekjur, yrðu að láta þær mestallar í skatt. Það er mjög óheppilegt, að þetta geti átt sér stað, og ég vil segja, að í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem atvinnureksturinn gengur svo misjafnlega, er þetta sérstaklega óheppilegt fyrirkomulag. Ég vil benda á annað í þessu sambandi, og það er sjónarmið þeirra, sem álíta, að beinu skattarnir séu réttlátir. Eins og fyrirkomulagið er nú, er ákaflega erfitt að ganga eins langt og réttlátt væri um álagningu beinna skatta, og hætta er á því, að skattstiginn reki sig upp undir, ef svo mætti segja, áður en skattabyrðin hefði náð eðlilegri hæð. Niðurstaðan getur orðið sú, að menn verði að borga allar sínar tekjur í skatt einstök ár, en orðið síðan skattlausir önnur ár, þótt um mjög háar tekjur sé að ræða. Þá er sá stórkostlegi kostur við þá leið, sem við viljum fara, að með þessu móti væri torvelt að villa mönnum sýn um það, hverjir skattarnir raunverulega væru, en auðvelt að gera grein fyrir því, hvað einstaklingar borga í skatt. Eins og nú er ástatt, er ákaflega flókið að ræða þessi mál svo, að menn fái um þau fullkomið yfirlit, og má í því sambandi benda á hinar þrálátu deilur, sem um þessi mál hafa verið að undanförnu. Það er í rauninni ekki hægt að finna nema eina röksemd, sem mælir með því að láta undir höfuð leggjast að gera þessa breytingu, og hún er sú, að hætta gæti verið á því, að menn vanræktu að greiða á réttum tíma tekjuskatt og

útsvar. Þetta er af þeim ástæðum, að nú er ekki leyft að draga frá nema það, sem menn hafa borgað. Það munar þess vegna miklu á næsta ári, hvort staðið er í skilum. Nú vilja því sumir segja, að með þessari nýju leið, ef hún yrði farin, yrði miklu verra að innheimta tekjuskatt og útsvar. Ég skal játa, að þetta er nokkur röksemd, ég þekki svo vel, hvað mikil hvöt það hefur verið mönnum til þess að ljúka þessum greiðslum fyrir áramót. En til þess að vinna á móti þessu, er hægt að taka upp það fyrirkomulag að láta sérstaka sekt falla á öll þessi gjöld, ef þau eru ógreidd um áramót, og þá munu menn þrátt fyrir breyt. taka þann kostinn að ljúka greiðslum áður en sektin fellur á, þann 31. des. ár hvert. Með þessu móti er hægt að minnka mjög þá hættu, að þessi breyt. gerði innheimtuna örðugri en verið hefur. Nú vil ég taka það fram, að enda þótt þetta hafi verið hér sagt um þessa breyt. og Framsfl. hafi ákveðið að beita sér fyrir því að koma henni á, hefur það þó verið gert til samkomulags að flytja ekki þessa breyt. á þessu þingi (eins og nú standa sakir). En ég verð þó að nota tækifærið til þess að lýsa því yfir, að við framsóknarmenn munum reyna að koma þessari breyt. fram seinna, enda þótt við flytjum ekki sérstaka till. um það að þessu sinni. Ég vil einnig geta þess um leið, af því að ég gleymdi að tala um það áðan, að við höfum fallizt á að takmarka ekki árið 1940 þær upphæðir, sem aðilar mættu leggja til varasjóða. En eigi að síður teljum við, að þessar takmarkanir verði að setja, vegna þess að við álítum, að þessi varasjóðshlunnindi geti ekki náð lengra en að vissu marki.

Ég vil svo að lokum aðeins minnast á skattstigann sjálfan, sem er tekinn upp í þetta frv. Það mun mega telja, að þessi skattstigi sé samkomulagsatriði, sem orðið hefur til eftir miklar samkomulagsumleitanir. Skattstiginn, sem hér er ætlazt til, að verði notaður, er mitt á milli skattstigans frá 1935 og hátekjuskattstigans, sem notaður hefur verið undanfarin kreppuár, og varð samkomulag um að sigla þannig bil beggja um þetta atriði. Það, sem gerzt hefur raunverulega um skattgreiðslur almennt, er, að af 5–6 þús. kr. tekjum upp í 40–50 þús. kr., er skattstiginn lítið eitt lækkaður frá því, sem hann var 1936 –1938, og má segja, að skattbyrðarnar séu að þessu leyti færðar yfir til hinna, sem hafa tekjur yfir 75 þús. kr. En eftir að kemur yfir 75 þús. kr., telja menn, að stríðsgróðinn sé kominn til sögunnar. Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um persónufrádráttinn. Um hinn svo kallaða umreikning vil ég segja það, að ég held, að hann verði nokkuð örðugur í framkvæmd, en inn á það hefur þó verið gengið til samkomulags. Hv. 1. þm. Reykv. gerði að vísu skilmerkilega grein fyrir því, í hverju umreikningurinn væri fólginn, en ég efast um, að það sé eins einfalt í framkvæmdinni og hann vildi vera láta. Það mætti kannske hugsa um það, hvort ekki væri hægt að finna einhverja leið, sem gerði framkvæmd hans einfaldari.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en taldi rétt að fara um það nokkrum orðum fyrir hönd flokksins við þessa 1. umr. málsins.