16.04.1941
Efri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal játa það fúslega, að mér er ekki alveg ljóst, hvernig þessu máli er varið. Í öðru orðinu er talað um, að samkomulag hafi náðst um þetta frv., að hér sé á ferðinni bræðingur, sem allir séu orðnir sammála um, en í hinu orðinu er talað um, að allir aðstandendur þessa frv. hafi óbundnar hendur með að flytja alls konar brtt. En ég hygg, að undirbúningur málsins sé nú ekki betri en svo, að margt standi enn til bóta í frv., þrátt fyrir langan undirbúningstíma. Enda virðist mér, að málið hafi meira hvílt á einstökum mönnum, t. d. í fjhn., heldur en að til þm. hafi verið leitað álits almennt.

Ég vil hér benda á einstök atriði, sem mér virðist, að hv. n. þyrfti að breyta. Og í því sambandi vil ég taka það fram, að mér finnst, að úr því verið er að breyta þessari löggjöf, þá þurfi að gera gagngera breytingu á ýmsu, sem miður hefur verið heppilegt í gildandi lögum.

Það er þá fyrst 19. gr. í 1. um tekju- og eignarskatt. Þar er sagt í b-lið, að yfirskattan. eigi að meta búfé bænda til skatts. Þetta mat er svo venjulega miðað við áætlað söluverð vorið eftir að skattur inn er lagður á. Þetta skapar alls konar ósamræmi og verður til þess, að matið hoppar upp og niður ár frá ári. Gallar þessa fyrirkomulags eru alveg augljósir, og því finnst mér það koma mjög til álita nú, hvort ekki beri að setja samkv. löggjöfinni fast verð á búfé, t. d. á 10. ára fresti. Þetta atriði vil ég, að hv. n. taki til rækilegrar athugunar. Því að búfé er í raun réttri aðeins framleiðslutæki bændanna á sama hátt og skip og veiðarfæri hjá útgerðarmönnum, en verðmæti þess í eignaframtali er ekki breytt upp og niður eftir söluverði. En þar er fast mat viðhaft og fastar reglur um afskriftir.

Þá er í öðru lagi viðvíkjandi 30. gr. l. Hún mælir svo fyrir, að í kauptúnum, sem eru hreppur fyrir sig, skal greiða skattanefnd 2%, sem annars staðar á landinu 4% af þeirri upphæð, sem skatturinn nemur. Þó skuli borgunin ekki fara fram úr 8 kr. og ekki vera minni en 4 kr. fyrir hvern starfsdag nefndarmanns. Nú hefur allt kaupgjald hækkað stórlega, og þá hlýtur svo að fara, þegar tillit er tekið til fólkseklunnar í sveitunum, að erfitt verði að fá menn til að taka að sér þessi skattanefndarstörf. Þetta gat gengið, þegar skattanefndarstörfin voru að mestu unnin sem þegnskaparvinna að vetri til. En eins og nú er komið dragast þessi störf langt fram á vor og sumar, og eru lítil líkindi til þess, að bændur fari að hlaupa frá orfi sínu til að gegna þessum störfum, sem sama og ekkert eru launuð, á þeim tíma, þegar engan mann er hægt að fá til starfa í sveitum, nema fyrir mjög hátt dagkaup, eða allt að fimmföldu kaupi nefndarmanna. Í sambandi við þetta er rétt að benda á það atriði í 27, gr. 1., að leggja skuli fram skattskrár fyrir 25. maí ár hvert hér í Reykjavík. í framkvæmdinni hefur skattskráin ekki verið lögð fram fyrr en í júní. En einkum er það víst, að þetta ákvæði 1. getur ekki orðið framkvæmt núna vegna þeirra breytinga, sem verið er að gera á löggjöfinni. Hvers vegna er ekki lagt til að breyta eins sjálfsögðum atriðum og þessum.

Sama gildir um alla fresti í IV. kafla skattalaganna, þeim þarf öllum að breyta eða heimila ráðh. að breyta þeim.

Þessi þrjú atriði, sem ég hef bent á, eru svo sjálfsögð, að ekki þarf um þau að deila, og þeim á að breyta, úr því l. er breytt á annað borð.

Úr því verið er að afnema skattfrelsi útgerðarinnar, finnst mér undarlegt, að ekki skuli vera tekið upp í frv. ákvæði um afnám l. um skattfrelsi iðnfyrirtækja. Mér hefur þó skilizt á blöðunum, að allir séu nú sammála um, að þessi l. hafi frá því fyrsta verið óskapnaður og á allan hátt óviðeigandi að efni til.

Ég vil biðja hv. n. að athuga þetta, því varla getur verið nokkurt ósamkomulag um það í n., og taka þetta upp í frv.

Ég ætla ekki að tala mikið um 1. og 2. gr. frv. að þessu sinni, en skal aðeins taka það fram, að ég hef alltaf talið sjávarútveginn mjög áhættusaman atvinnuveg. Og ég skil ekki þá menn, sem segjast vera sömu skoðunar, en gera lítið til að leiðrétta þann glundroða, sem er ríkjandi í skatta- og útsvarsálögum hér á landi, en þó einkum ósamræmið, sem er milli. einstakra manna, sem hafa árlega sömu tekjur, og hinna, sem hafa þær mjög misjafnar, og undir þá síðari heyra útgerðarmenn. Tökum t. d. fyrirtæki, sem hefur 100 þús. kr. í skattskyldar tekjur annað hvert ár. Það eru samtals 500 þús. kr. í 10 ár. Meginið af þessu fer í skatta og útsvör, en þó misjafnt eftir því, hvar maðurinn er búsettur, því útsvörin eru misjöfn á hinum ýmsu stöðum.

Annar maður eða fyrirtæki, sem hafði líka 500 þús. kr. tekjur á 10 árum, misjafnt á hverju ári, mundi aftur hafa um helminginn eftir, þegar búið væri að greiða alla skatta og útsvör.

Þetta mikla ósamræmi þarf að hverfa, til þess að þeim fyrirtækjum, sem hafa áhættusaman rekstur og því misjafnar tekjur frá ári til árs, sé ekki gert örðugra fyrir en þörf er á og þau beitt rangindum gagnvart öðrum með jafnar árstekjur.

Þess vegna skil ég ekki þá menn, sem telja sig fulltrúa þeirra, sem hafa áhættusaman atvinnurekstur, en vilja þó ekki veita þeim fyrirtækjum, sem eru í áhættusömum atvinnurekstri og hafa miklar tekjur annað árið, en hitt árið litlar, þær breyt., að ganga inn á þann grundvöll, sem hæstv. viðskmrh. lýsti hér í dag, að láta skattinn verða jafnháan á þessi fyrirtæki á þessu tíu ára bili, þó að annað fyrirtækið hafi jafnar tekjur, en hitt misjafnar.

Þetta álít ég mestan galla á okkar skattalöggjöf, hvað þau atvinnufyrirtæki, sem hafa misjafnar tekjur, hafa orðið hart úti. Þess vegna er ég alveg hissa á því, þegar menn sjá leiðina til þess að laga þessa galla, að þeir skuli ekki vilja líta við henni.

Um 3. gr. er það að segja, að ég verð vitanlega ekki með henni. Ég hef aldrei verið með neinum sérstökum ívilnunum fyrir neina sérstaka menn, af því að þeir búa í Reykjavík eða öðrum kaupstöðum. Ég barðist á móti þessu 1935. Þangað til hafði sú skynsemi ríkt í skattamálum, að allir hefðu jafnan persónufrádrátt. Það hafði engum dottið í hug þá, að menn hefðu meiri persónufrádrátt fyrir það, þó að menn færu á bíó og reyktu sígarettur. En því er meira að segja hér á hæstv. Alþingi haldið fram, að þeir menn, sem væru hér í þéttbýlinu í Reykjavík, eyddu meiru, og af því ættu þeir að fá meiri persónufrádrátt. Um þetta flutti ég brtt., hvort sem hv. n. vill taka hana til greina eða ekki.

Þá flyt ég brtt. um það, að í staðinn fyrir orðið „skylduómagar“ komi: ómagar. Þetta er eins og það hefur verið í gömlum l. Það er leiðinlegt að geta ekki látið bónda fá frádrátt fyrir það að hafa t. d. föðursystur sína, sem hann framfærir og komin væri í kör, fyrir ekki

neitt í stað þess að láta hana fara á sveitina, og ég ætla, að á hverju ári séu mörg slík dæmi, að maður hafi á framfæri gamla konu eða gamlan mann; sem unnið hefur um marga áratugi hjá bóndanum. Þegar hann er orðinn óvinnufær, tekur bóndinn hann á sitt framfæri til þess að verja hann því að fara á sveit. En fyrir slíkt fær hann engan persónufrádrátt. Ég vil láta orðið „skyldu“ falla framan af orðinu „skylduómaga“ vegna þessara manna, sem eru svo velviljaðir sínu sveitarfélagi og sínu fólki að framfæra þetta fólk í stað þess að láta það fara á sveitina.

Þá hefði mátt gera ákvæði 4. gr. einfaldari. Það eru nú í landinu 220 undirskattan. og 20 yfirskattan., og vegna hvers einasta skattþegns þurfa þær að umreikna skattstigann eftir því, hver vísitalan er. Og meðalvísitala ársins verður útkoma mánaðarvísitalnanna deilt með tólf, og gæti því verið misjöfn eftir því, hve margir desimalar eru teknir. Ég held, að það sé tiltölulega auðvelt að finna ákveðna formúlu fyrir því, hvernig skattstiginn breytist eftir vísitölunni. Það er með því að lækka skattstigann hlutfallslega eftir því, sem vísitalan hækkar, til þess að ná nákvæmlega sömu niðurstöðu og á að ná með þeim útreikningi öllum, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. Ég hygg, að það sé auðvelt að koma þessu fyrir með því að láta fjármálaráðuneytið reikna út í jan. á hverju ári, hvernig skattstiginn á að lækka eftir því sem vísitalan hefur hækkað eða hækka eftir því sem vísitalan lækkar.

Ég vil biðja n. að athuga það vel, hvort það sé ekki fært að gera þetta. Það er allt að því óforsvaranlegt að setja svo mikla vinnu á hendur skattan. í landinu eins og verður, þegar þessi l. koma til framkvæmda, ef þessu verður ekki breytt.

Ef ekki finnst gerlegt að breyta þessu, þá þarf a. m. k. að ákveða, að meðalvísitala ársins sé í heilli tölu og sé ekki reiknuð með ótal desimölum og sitt á hvað hjá skattan., því að meðalvísitala ársins getur staðið alla vega af sér, þegar deilt er með 12, en hún þarf að vera sú sama yfir allt landið. Annars gæti hugsazt, ef 220 desimalar væru teknir, að talan yrði sin hver hjá öllum undir skattan.

Þá held ég, að sé gengið nokkuð langt í því að láta nýbyggingarsjóðshluta varasjóðs vera 40% af varasjóðnum. Ég held, að eins og dæmið liggur fyrir hjá atvinnufyrirtækjum hér í Reykjavík, sé það vafasamt, að mörg þeirra þoli að festa svo mikið fé utan við sjálfan atvinnureksturinn, og það mundi vera alveg nóg að hafa þennan varasjóðshluta 30%.

Enn fremur er mér ekki ljóst, hvernig á að fara að viðvíkjandi þessum 150 þús. kr., sem er lágmark fyrir því, sem má afskrifa skip niður í.

Ég þekki eitt félag, sem aldrei hefur haft tapsfrádrátt, og þau eru raunar fleiri eða líklega fjögur alls. Það er komið með skip sitt niður í 70 þús. kr. með eðlilegum afskriftum. Á nú að drífa skipið upp í 150 þús. kr. og láta telja félaginu þá hækkun sem tekjur? Eða á að láta það fyrirtæki, sem aldrei hefur tapað, fá minna í frádrátt af því að það hefur aldrei tapað?

Ég held, að það hafi ekki verið hugsað nóg, hvernig það í þessum tilfellum eigi að vera og menn eigi eftir að athuga það betur og vonandi laga það. Vona ég, að hv. n. eigi eftir að taka þetta til greina.

Ég mun ekki flytja margar brtt. við frv. við 2. umr., en a. m. k. gagnvart persónufrádrættinum mun ég koma með brtt. og kannske um fleira við 3. umr., ef. þessu verður ekki breytt áður, svo n. taki athugasemdir mínar til greina.