18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Það er svo um þetta mál, eins og hv. þingheimi er kunnugt, að að því hefur verið unnið bæði af mþn. og hæstv. ríkisstj. og að lokum tekizt að finna samningsgrundvöll þann, sem sjá má í þeim tveim frv., sem hér eru á dagskrá. Eins og lýst hefur verið, hafa flokkarnir reynt að sveigja til hver fyrir öðrum og skapa sameiginlega útkomu, sem menn gætu unað við. Ég hygg því, að langar ræður um þetta mál hafi litla þýðingu og þær muni yfirleitt mjög litlu breyta um meðferð málsins, þar sem mér skilst, að flokkarnir séu búnir að binda sig um, að frv. skuli ná fram að ganga í aðalatriðunum eins og það liggur fyrir frá hendi stj. Það hefði verið ástæða til um svona stórt mál að halda langa ræðu, en ég mun varpa þeirri löngun minni frá mér og ræða aðeins örlítið þá brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram við 4. gr., en hún er eins og þar hermir við j-lið eins og hann er í frv., en í frv. er gert ráð fyrir, að útgerðarfyrirtækjum íslenzkra skipa sé heimilað að draga frá skattskyldum tekjum síðasta árs allt það tap, sem þau hafa orðið fyrir frá 1. jan. 1931 til ársloka 1939. Ég verð að segja, að mér finnst, að hér sé helzt til langt gengið um hlunnindi í þessu efni með tilliti til þess góða ástands, sem nú hefur ríkt í afkomu útgerðarinnar á síðastliðnu ári og þessu ári, því sem af er. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. um nokkru meiri takmarkanir á þessum tapsfrádrætti, og legg ég því til, að allt það tap, sem orðið hefur á árunum 1938 og 1939, sé dregið frá, en auk þess megi draga frá þau töp, sem orðið hafa á árunum 1931–1937, þar til eigi hvíla hærri skuldir en svarar til 150000 kr. á hverjum togara og tilsvarandi fyrir önnur skip. M. ö. o., að það sé ekki hægt að fara lengra niður með tapsfrádráttinn en svo, að þessi upphæð sé undanskilin. Enn fremur er gert ráð fyrir, að með önnur fyrirtæki sé farið eftir nánari reglum, sem er ekki gott að setja í svona löggjöf, en verður að setja í reglugerð, en þegar um er að ræða að meta eignarskatt, verður að sjálfsögðu að fara eftir matsverði þess verðmætis, sem skattleggja á.

Þetta er höfuðatriðið í brtt. minni, og virðist mér, að það sé nokkuð sönnu nær en ákvæði frv., því að þar er gert ráð fyrir, að draga megi frá allt það tap, sem orðið hefur á þessu árabili, þótt að vísu sé ætlazt til, að allur gróði útgerðarfyrirtækjanna á þessu árabili sé dreginn frá tapinu. Ég býst nú varla við, að þessar till. fái hljómgrunn í hv. d. frekar en aðrar till., sem hér eru bornar fram, en ég tel samt rétt, að mín skoðun og míns flokks komi fram í sambandi við þetta. Við ræddum þessa till. að sjálfsögðu í fjhn. eins og aðrar till., sem fram höfðu komið, en við vorum sammála um, að n. gæti ekki tekið hana til greina, og þykist ég vita, að forlög hennar séu ráðin eins og ýmissa annarra till., sem hér liggja fyrir.

Um aðrar till. get ég verið fáorður. Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. n. muni lýsa viðhorfi n. til þeirra, en þær eru flestar þess eðlis, að n. sá sér ekki fært að fallast á þær. Hins vegar lágu ekki fyrir n. brtt. á þskj. 202, og ég ætla ekki að gera þær að umtalsefni eða þá ræðu, sem flutt var í sambandi við þær. Það er ekki venja mín að svara manni úr þeim flokki, en fyrst ég stóð upp, vil ég lýsa afstöðu minni til till. á þskj. 191 frá hv. 1. þm. Reykv. Hún var, eins og fleiri till., rædd í n., og voru menn sammála um, að hver bæri sínar till. fram og léti svo slag standa um, hvernig d. tæki undir þær. Ég get lýst því yfir, að ég get ekki greitt henni atkv.

Þá er till. á þskj. 195 frá hv. þm. Hafnf. Hún var eins og aðrar till. athuguð í n. Hv. frsm. mun gera grein fyrir vilja n. til hennar, en ég held, að ég segi ekki of mikið, þó að ég taki fram, að það sé velvilji í n. fyrir henni eða einhverri till. í þessa átt, þó að það verði kannske ekki alveg eins og hv. tillögumaður ætlast til, en ég mun verða með einhverri miðlun í þessu efni.

Ég ætla ekki að ræða mikið till. hv. 1. þm. N.-M. eða svara þeim orðum, sem hann lét falla í sambandi við þær, en ég tel, að sumt af því, sem hann sagði, sé ekki rétt hermt, og í öðru lagi kom þar fram skoðun, sem ég get ekki fallizt á, en út í það fer ég ekki nú, því að ég ætlaði aðeins að lýsa afstöðu minni til brtt., og læt ég því máli mínu lokið að sinni.