18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Fjhn. hélt fund í gær, fór í gegnum frv. og athugaði þær umr., sem fram fóru við 1. umr. málsins, og þær brtt., sem þá voru tilbúnar. N. kom sér saman um að flytja eina brtt., sem sjá má á þskj. 200, og mun hún geyma sér rétt til að flytja fleiri brtt. við 3. umr.

Þessi eina brtt. er um að bæta við einu nauðsynlegu bráðabirgðaákvæði, sem heimilar ráðh. að breyta tímaákvörðunum og frestum þeim, sem um ræðir í IV. kafla, eftir því sem þörf krefur, við álagningu skatts 1941. Þetta er af því, að dráttur málsins á Alþingi hefur farið alveg í bága við sum ákvæði þessa kafla, og er því að þessu sinni alveg óhjákvæmilegt að veita . þessa fresti. Býst ég við, að um þetta verði enginn ágreiningur.

Síðari liður till. er um það að heimila að greiða skattan. á árinu 1941 allt að helmingi hærri þóknun en um ræðir í 30. gr. Er þetta lagt til sökum þess, að n. verða nú að vinna þetta verk á þeim miklu óhagstæðari tíma vegna þess dráttar, sem orðið hefur á málinu. Ég býst ekki heldur við, að þessi till. sæti andmælum. Það gæti aðeins komið til greina, hvort menn vildu í stað síðari liðsins setja varanlegt ákvæði, en það er hægt að gera það við endurskoðun l., sem má búast við, að fari fram áður en langt um líður.

Ég skal svo snúa mér að einstökum brtt., sem fyrir liggja, í þeirri röð, sem fyrir þeim hefur verið talað, og skal ég reyna að hafa ekki fleiri orð um þær en nauðsynlegt er.

Það eru þá fyrst till. á þskj. 202 frá hv. 1. landsk. Ég skal ekki fara út í þær almennu umr., sem hann hóf um málið, af því að þær áttu að koma við 1. umr., og var honum frjálst að hefja þær þá. En bæði er það alkunnugt, og líka sást það af hans ræðu, að það þýðir ekki að taka upp umr. við hans flokk, því að hann segir, að hann og hans flokkur sé andvígur þeim grundvelli, sem frv. er byggt á, og ef ætti að fara að taka upp almennar umr. við kommúnista um skattamál almennt, þá mundi það tefja málið óhæfilega mikið. Hv. þm. sagði, að hér hefðu verið höfð mikil vélráð, þegar skattfrelsisl. voru sett, því að þeir, sem hefðu sett þau, hefðu gert ráð fyrir, að eitthvað mundi koma óvænt. Ég læt hann um að skýra þessa setningu, því að ég hef heyrt, að það, sem kæmi óvænt, væri það, sem kæmi án þess að gert væri ráð fyrir því. Skattfrelsið var gefið með þeirri von, að eitthvað rættist úr, og þá væri skattfrjálst það, sem hægt væri að greiða upp í töpin. Með það fyrir augum voru þessi l. sett. Skýrasta sönnunin fyrir því, að þau voru ekki sett með núverandi ástand fyrir augum, er það, að nú eru allir sammála um að breyta þessum 1. Þetta er því alger afsönnun þeirra dylgna, sem hann fór með um það, hvaða ástæður lágu fyrir, þegar l. voru sett.

Ég þarf ekki að svara því, sem hann sagði um, hvers vegna menn væru með orðagjálfur og fyrirvara og hvers vegna menn notuðu ekki harðfylgi til að keyra sín mál í gegn, því að menn eru með fyrirvara sitt á hvað, og það var borið fram, sem menn gátu komið sér saman um, en það, sem menn treystu sér tæplega til að koma fram, var borið fram sér. Orðagjálfrið er orðið að brtt., sem menn hafa borið fram, þar sem hver og einn sýnir, hvað hann vill.

Ég skal svo snúa mér að brtt. hans. Fyrsta brtt. hans er um það að færa skattfrjálsa hlutann af varasjóðstillaginu niður í 40%, og þó ekki hærra en 1/3 hluta af innborguðu hlutafé eða stofnfé félagsins. Þetta var nú rætt mikið, því að það voru til menn, sem vildu gjarnan takmarka þetta fé, en þetta varð að samkomulagi, sem í frv. stendur, enda er augljóst, að ef takmarka ætti þetta við hlutafé, væru þessar undanþágur gerðar nálega gagnslausar. Þetta er augljósast, þegar það er athugað, að hlutafé margra útgerðarfyrirtækja hefur verið innborgað á tíma, þegar peningarnir höfðu allt annað gildi en nú. T. d. má nefna félag, sem hefur einn togara og. hefur verið stofnað með 100 þús. kr. hlutafé. Það var stór fé á þeim tíma, allt að því að vera verð togarans. Því væri sanngjarnt, að menn mættu leggja í varasjóð upphæð, sem jafngilti þessum 100 þús. kr., þegar þær voru innborgaðar sem hlutafé.

Það eru ekki sömu krónurnar nú og þegar hlutaféð var innborgað. Þess vegna finnst mér ekki rétt að hinda þetta meir en gert er í frv. þá leggur þm. til að hækka allmikið persónufrádráttinn umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir, og aukaútsvar og tekjuskatt vill hann ekki leyfa að draga frá tekjum, — en án þess að umsaminn sé allur skattstiginn, væri slíkt ógerlegt. Það má segja um þessar brtt. yfirleitt, að þær ríði í bág við það samkomulag, sem náðst hefur um meginatriði frv., og geta því tæplega náð samþykki hér.

Þá kem ég að brtt. hv. 1. þm. N.-M. (PZ), Um 1. brtt. hans og persónufrádráttinn get ég sagt, að þar er ekki um neitt meginatriði samkomulagsins að ræða. En ég fellst ekki á það, að þegar hærri frádráttur er leyfður í Reykjavík en annars staðar, sé verið að mismuna mönnum eftir því, hvað þeir eru búnir að skapa sér mikil þægindi. Það er vissulega misdýrt að draga fram lífið við sams konar aðbúð í Reykjavík og á öðrum stöðum á landinu. Húsaleiga er hærri á einum stað en öðrum, mjólk, garðmeti, fiskur og margt fleira, sem veldur miklu um framfærslukostnað. Fjölskylda, sem lifir t. d. vestur í Ólafsvík eða Sandi, þarf ólíkt minna til frumstæðustu þarfa en ef hún lifði í Reykjavík. Þetta munar því meira, tiltölulega, sem menn lifa óbrotnara lífi. Þetta veit hv. þm. og skilur, að persónufrádráttur var hafður misjafn til að vega upp móti þessum mun.

Þá getur n. ekki fallizt á, að fyrir orðið „skylduómagi“ komi: ómagi. Það gæti talizt sanngjarnt, en yrði afar erfitt í framkvæmd. Meginregla skattal. er sú, að ekkert sé frádráttarbært, sem gefið er til guðsþakka. Enginn „lúxus“ er þar leyfður, hvort sem hann kemur fram í illum verkum eða góðum. Það yrði erfitt reiptog fyrir skattan. og yfirskattan. að hafa hemil á þeim ómagafjölda, sem talinn yrði fram í skattskýrslum, ef brtt. yrði samþ. Svo erfitt sem hv. flm. hefur þótt að þurfa í yfirskattan. að neita um frádrátt fyrir ómaga, sem voru ekki beinir skylduómagar, yrði þetta sýnu örðugra verk.

Þá er 2. brtt. Ég sé enga sanngirni í því að ákveða fast verðlag til 10 ára á öllum búpeningi, svo sem fasteignamat væri. Við skulum segja, að maður, sem býr stöðugt á sömu jörð, sé ekki svo háður verðsveiflum, að rétt sé að breyta matsverði jarðarinnar af þeim ástæðum. En verð fénaðar er miklu meiri sveiflum háð, — samanburður verður þar hæpinn. Ákvæði um slíkt mat yrði þó, býst ég við, enn virkara við útsvarsálagningu en skatts. Svo er brtt. um að hækka kaup skattan.manna. Mér finnst eðlilegra að samþykkja aðeins bráðabirgðaákvæði í þá átt, eins og lagt er til á þskj. 200. Þá er brtt. um að heimila fjmrh. að framlengja tímatakmarkanir þær, sem um ræðir í 32. gr., og tímaákvæði 36.–40. gr., um kærufresti o. fl. Ég vil fyrir mitt leyti alls ekki framlengja frestina, nema þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, svo sem nú, þegar löggjafarvaldið sjálft er seinna á ferð en þurft hefði með afgreiðslu þessara laga, sem nota á við álagningu skatts á árinu. Og á þskj. 200 er bráðabirgðaákvæði um þetta efni. Það tel ég nægja.

Loks er síðasta brtt. þm. um að afnema lög um hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki og lög nr. 44 frá 26. maí 1938 ásamt breyt. frá í fyrra á þeim lögum. Þarna er furðu óskildum efnum blandað saman, og það er næg ástæða til að samþ. ekki tillögu í slíkri mynd. Ef breyt. á l. um hlunnindi iðju og iðnaðar lægju hér fyrir í fullri alvöru, væri auðvitað skylt að vísa því máli til iðnn. Ég get vel verið hv. þm. sammála um, að þau lög hafi verið missmíði, og gæti orðið honum samferða að breyta þeim.(PZ: Gott er það). En það má ekki gera í almennum skattal.

Þá var þm. að tala um, að breyta ætti útreikningnum til skatts. Þetta hefur verið nokkuð rætt, og það varð að samkomulagi, að ég skyldi sem frsm. skjóta því til ríkisstj., að hún kæmi því svo fyrir, að þetta yrði reglugerðaratriði við framkvæmd laganna, og virðist þá engin þörf að lögbinda neitt um það, en nokkur áhætta.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 195, frá hv. þm. Hafnf., um að hækka úr ¼% í ½% þann hluta af fé nýbyggingarsjóðs, sem vera má innistæða á biðreikningi í sterlingspundum. Persónulega er ég þessu algerlega meðmæltur. Þetta var rætt í fjhn., og er þar til athugunar, hvort ekki geti náðst samkomulag um að rýmka þetta eitthvað. Ég skýt því til hv. þm., hvort hann vildi ekki taka brtt. sína aftur til 3. umr. — Samkv. ákvæðunum um nýbyggingarsjóð verða menn að geyma hann þar, sem hann gefur tiltölulega lítinn arð. Samtímis verða sömu fyrir tæki að geyma mikinn gjaldeyri erlendis, þar sem hann færir þeim lítinn sem engan arð eða stuðning við atvinnureksturinn, en má teljast nokkurn veginn trygg eign, eftir því sem nú er völ á. Þá sýnist hart aðgöngu að mega ekki nota allmikið af því fé í nýbyggingarsjóð. — En menn mega ekki gleyma, að í frv. er gert ráð fyrir, að með nefndarleyfi megi meira en ¼ hluti sjóðsins vera á biðreikningi, þegar knýjandi nauðsyn er á.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 201, frá hv. 2. landsk. (SÁÓ). Hann svaraði henni bezt sjálfur í inngangi sínum, þegar hann sagðist vita, að allt þetta frv. væri bundið rígföstu samkomulagi og brtt. færi í bága við það. Það er satt, að samkomulag hefur náðst um annað en þarna er lagt til. Auk þess held ég, að svona breyt. yrði ákaflega slæm í framkvæmd, aðferðin mundi leiða til margvíslegrar mæðu. Matið, sem fram þyrfti að fara, ekki aðeins á skipum, heldur á öllum eignum fyrirtækjanna, smáum og stórum, arðgæfum og óarðgæfum, yrði ærið umbrotasamt og að lokum mjög valt á að byggja. Það er misskilningur, að útgerðarfélag, sem stendur skuldlaust, hljóti að vera öflugt og öruggt fyrir eignahruni. Eignir þess geta verið metnar milljóna virði í dag, án þess að nokkur viti með vissu, nema þær þyki lítils virði á morgun, ef markaðsástand snýst við. Það eru ekki mjög mörg ár, síðan maður var talinn eiga 1¾ millj. kr. umfram skuldir, og þótti gætilega metið. Þessi maður dó nokkru seinna, og það varð þrotabú, án þess að nokkur veruleg rýrnun hefði orðið á eignunum sjálfum. Við heyrum um kaup á togurum fyrir hundruð þúsunda, skipum, sem hefðu varla þótt til annars á venjulegum tímum en að höggva þau upp. — Það var mikið rætt um svona mat í n., en ég held flestir hafi fallizt á, að það yrði ekki framkvæmanlegt að gagni.

Á þskj. 191 á ég sjálfur brtt. um, að stafl. c í 4. gr. falli niður. Auðvitað læt ég atkvæði ráðast um hana eins og aðrar brtt., þegar þar að kemur. Þessi c-liður gildir aðeins fyrir ári 1941, þ. e. um álagningu fyrir síðastl. ár, og það er ætíð betra að fara sem skemmst í því að láta lög verka aftur fyrir sig. Takmörkun þessa

c-liðar á hinu frádráttarbæra varasjóðstillagi af tekjum ársins 1940 styðst engan veginn við sömu rök að því er snertir útgerðarfyrirtæki og annan atvinnurekstur, enda er það 10% meira, sem útgerðarfyrirtækjum er leyft að draga frá. — En bezta lagfæringin á þessum c-lið er að fella hann niður.

Um leið og ég hverf frá þessum brtt. einstakra þm. vildi ég ræða ýtarlegar atriði, sem menn hafa ruglað saman. Það fé er sitt hvort, sem félög fá skattfrjálst vegna tapsfrádráttar, og hitt, sem þau mega leggja í varasjóð, að hálfu leyti án skattlagningar. Og einkum verða menn að varast að blanda nýbyggingarsjóði saman við venjulegan varasjóð. Þegar búið er að gera upp skattskyldar tekjur útgerðarfyrirtækis á árinu 1940, rekstrarkostnaður frá dreginn o. þ. h., en áður en rætt er um, hvað lagt skuli í varasjóð, hefur fyrirtækið rétt til að draga frá tap fyrri ára, og er það skattfrjálst, og rennur féð í varasjóð, að kallað er, þótt orðið varasjóður sé þá villandi. Líklega hefði verið rétt að nefna það heldur öðru nafni, t. d. tryggingarsjóð. Í 4. gr., j, sést glöggt á ýmsum sérákvæðum, að þetta er enginn venjulegur varasjóður. þessi sjóður á t. d. að verða til hjá einstaklings- fyrirtækjum og sameignarfélögum, sem hafa engan eiginlegan varasjóð. Til þessa „varasjóðs“ má ekki grípa fyrr en varasjóður fyrirtækisins, hinn eiginlegi varasjóður, og aðrar eignir þess hrökkva ekki lengur til að jafna rekstrarhalla. Sé eitthvað tekið úr sjóðnum til sömu notkunar og aðrar eigur fyrirtækisins, skal greiða tekjuskatt af 60% þeirrar fjárhæðar, jafnháan þeim skatti, sem hefði orðið að greiða af fénu, þegar það var lagt fyrir, ef það hefði þá verið skattskylt. Ef svo félag er gert upp, sem á slíkan varasjóð, gengur hann til þess að greiða skuld félagsins og þar með hlutaféð. En sé hann fram yfir það, kemur allt, sem umfram er, undir þessa geysiháu skattaprósentu. Það nær því engri átt, að hluti af þessum varasjóði sé nýbyggingasjóðsskyldur, enda var till. um það dregin til baka.

Ég vildi láta þetta koma hér skýrt fram. Þegar svona félag hefur tekið frá skattfrjálsan þann hluta, sem töpin nema, getur það lagt það, sem eftir er, í varasjóð, og þá fyrst koma hin venjulegu varasjóðsfríðindi til greina. Ég vona, að þessi skilgreining komist rétt inn í þingtíðindin. Af því fara svo 40% í nýbyggingasjóð. Hjá þeim fél., sem engan tapsfrádrátt hafa, lendir þetta í venjulegum varasjóði. Hann er sérstakur sjóður, myndaður í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef þá víst minnzt á allar till. fyrir hönd nefndarinnar.