18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég verð að segja það, að mér er næsta óljúft að rísa upp oftar við 2. umr. þessa máls til þess að ræða um þau atriði, sem hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. þm. N.-M. nú hafa gert að umtalsefni. En mér er haslaður völlur hér með ummælum hv. þm., og vona ég því, að hæstv. forseti virði mér þess vegna nokkuð til vorkunnar. Þessir hv. þm. hafa nú báðir horfið að því fangaráði, til þess að geta sakað mig um það, sem hv. 1..þm. Eyf. kallar brigzl, að leggja mér það í munn, sem ég hef aldrei sagt. Ég hef aldrei sagt það, að öll vandræði útgerðarinnar og hagur hennar, eins og þeim var komið árið 1938, hafi verið einvörðungu vegna þungra skattabyrða. Hv. 1. þm. Eyf. sannaði þetta nú sjálfur með því að slá upp parti af því, sem ég hef sagt, þó að ég telji það ekki nægilegt til þess að afsanna það, sem hann var að halda fram. Það eru þessi þungu brigzl, sem þá svíður undan, að ég hef bent á sögulega staðreynd, að árið 1938 sér ríkisstj. og Alþ. sig tilneytt að veita útgerðarfélögum skattfrelsi vegna þess, að þá var sýnt, að útgerðarfélögin gátu aldrei reist sig við með þeirri skattalöggjöf, sem þá gilti. Þetta, að ég vísaði til sögulegrar staðreyndar í málinu, virðast hv. þm. ekki kunna að meta að verðleikum, þeir þola ekki, að bent sé á ýmsar sögulegar staðreyndir í málum, en grípa til þess ráðs að kalla slíkt brigzl. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að slíku, því er sjálfvísað til föðurhúsanna, sem það hefur vaxið upp í.

Hæstv. viðskmrh. fór hér um það nokkrum orðum, hvað ég hefði lagt til þessara mála. Hann sagði, að ég teldi enn lengra gengið í skattaálögum í þessu frv. en verið hefði í þeirri löggjöf, sem áður hefði gilt, og getur vel verið, að svo sé. Ég hefði ekkert á móti því, að það væru goldnir háir skattar af miklum tekjum, — ég hef aldrei haft á móti því, að þeir borgi háa skatta, sem verulega geta það. Annars hélt ég ekki, að það þyrfti að vekja svona mikinn óróa hjá framsóknarm., þó að ég gerði aths. við 1. umr. málsins, og ég skal geta þess, að ég er ekki búinn að kynna mér allan skattstigann ennþá og bera hann í öllum atriðum saman við fyrrverandi skattstiga.

Ég kem þá næst að aths. hv. 1. þm. Eyf. um sjóðina. Það, sem ég sagði um þá, er ekki hægt að véfengja eins og ástatt er í dag. Það er ekki hægt að segja um það, hvað verða kann um framboð á hentugum bréfum í framtíðinni, sem þessir sjóðir geta notað. Að síðustu vil ég aðeins segja það, að ég get ekki séð, að það sé neitt athugavert við það, þó að þetta mál sé rætt eins og hvert annað skattamál og minnzt á aðdraganda þess og sögu. Það þýðir ekki að setja það fram, að stuðningsmenn þjóðstj. megi helzt ekki minnast á nokkurn hlut, sem hinum flokknum er óþægilegt að heyra. Ég býst við, að það megi saka mig um það að hafa haldið uppi gagnrýni í þessum málum, en ég get ekki séð, að við það sé neitt að athuga. Annars er það einkennilegt, ef það á að fara að innleiða þá venju hér á hv. Alþ., þegar einhver flokkur eða menn úr einhverjum flokki hafa undirbúið svona mál, að venjulegum þm. sé óheimilt að koma með nokkra gagnrýni um málið. Ég veit ekki, hvernig sá hugsunarháttur ætti að samrýmast því, sem talið er þingræði og lýðræði. Mér skilst, að á bak við orð hv. 1. þm. Eyf. liggi það, að þegar mál eru svona undirbúin, megi þm. ekki, nema þeir séu í opinberri andstöðu við stj., hreyfa neinum mótmælum. Ég get ekki viðurkennt þetta sjónarmið hv. 1. þm. Eyf. (BSt: Þetta er ekki hans sjónarmið). Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en að þetta væri hans sjónarmið, enda kann að vera, að það sé vilji hans flokks að líta þannig á málið. Ég held, að ekki þurfi að líta langt aftur í sögu til þess að finna, að hans flokkur stóð að því að hækka útgjöld og skatta. Það er bláköld staðreynd, sem að vísu heyrir sögunni til, en það ætti þó að vera leyfilegt að minnast á það. (BSt: Hvað gerði okkar fyrsta þing?) Það var margt gert þar, en ég held, að þessi mál, skattamálin, hafi fyrst færzt í aukana, þegar fl. hv. þm. komst í meirihlutaaðstöðu. Það er alveg sama, hvað hv. þm. neitar þessu oft, sögulegum staðreyndum verður ekki hnekkt með þess háttar útúrdúrum.