18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Eins og ég gat um í dag, þegar ég tók tvær af brtt. mínum aftur til 3. umr., hef ég fellt niður till. mína um, að í stað „skylduómaga“ í frv. komi: ómaga, til þess að till. gengi fremur fram.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta, en aðeins geta þess, að ég álít þetta ekki rétt, þótt ég geri það til samkomulags. Ég hef hér lært þá gullnu reglu prestanna, að ef það bezta fæst ekki, þá sé að taka það næstbezta.

Hvað hina till. snertir, þá hef ég breytt henni úr „10 árum“ í tvö ár. Þetta byggist ekki heldur á því, að ég hafi ekki álitið sjálfsagt að festa mat á búfé í 10 ár. Eins og ég hef margtekið fram, er allt annað metið til eignar fast um lengri tíma en búfé og svo kannske verðbréf. Þau geta hækkað, ef mikil sjóðseign hefur myndazt á bak við. Allt annað er eins og óbreytt um mörg ár, skip, bátar og húseignir. Maður, sem virti innbú sitt á kr. 2 þús. í fyrra, gerir það eins nú. 1. þm. Reykv, taldi allt öðru máli að gegna með fénaðinn en fasteignir og sagði í því sambandi, að grasið á jörðinni væri alltaf jafnmikils virði. Ég held þetta sé mesta fjarstæða, það er einskis virði, ef ekki er búféð til að breyta því í aðrar afurðir seljanlegar, og kannske sýnir þetta dæmi hv. þm. bezt, hve réttlátt það er eða hitt þá heldur að láta kvikféð ekki vera með sínu matinu hvert árið. En ég hef farið niður í 2 ár til samkomulags og þá sérstaklega vegna þess, að óvíst er, hvort það mat, sem nú yrði sett, yrði ekki vegna „ástandsins“ óeðlilega hátt til þess að láta það gilda í 10 ár.

Þá hefur og verið rætt um, að gagngerð endurskoðun á skattalöggjöfinni stæði fyrir dyrum. Þó vill nú enginn fullyrða, hvenær þeirri endurskoðun verður lokið. En það stuðlar samt að því, að ég hef fallizt á að breyta þessu úr 10 árum í 2 ár.

Einn hlut langar mig til að vita nánar um, sem orkað hefur tvímælis undir þessum umræðum, og það er, hvort 12% viðaukinn eigi að falla úr gildi. Ég hefði kunnað bezt við, að það hefði verið samþykkt á þingi, að svo yrði. Mér hefur skilizt, að hæstv. fjmrh. vilji veita því fulltingi sitt, en hins vega r virtist mér á ræðu hv. frsm., að halda ætti þessu gjaldi, en eins og menn vita, er ráðherra í lögum veitt heimild til að innheimta það, en það ekki gert skylt.

Þetta hefur áhrif á afstöðu mína til skattstigans, og þess vegna óska ég að fá um það upplýsingar nú.

1) MJ: Með skírskotun til annarrar brtt. segi ég nei.

2) SÁÓ: Þar sem fyrir liggur brtt. frá fjhn., sem fer í sömu átt, segi ég nei.