18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég tók einmitt eftir því, að hv. frsm. gekk út frá því, að heimildin til að innheimta 12% viðaukann yrði notuð.

Hann mun byggja á því, að í vor, áður en þessar breyt. voru komnar á rekspöl, var gert ráð fyrir því í orðsendingu, sem ráðun. sendi skattanefndunum um að fara að undirbúa skattaálagninguna. Síðan hefur viðhorfið breytzt, en það er rétt, að þá var gengið út frá þessu.

Ég geng út frá, í sambandi við samkomulag flokkanna, að þessi 12% viðauki falli niður, án þess ég minnist þess sérstaklega, að þetta hafi borið á góma á fundum n. En það má fullyrða, að um þetta atriði er ekki ágreiningur milli mín og hæstv. viðskmrh.

Hins vegar mætti segja, að ástæða væri til að láta sveitar- og bæjarfélög fá eins mikinn hluta stríðsgróðaskattsins og þetta nemur.