18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er um brtt. á þskj. 220, sem ég á með hv. 1. þm. N.-M., sem ég vildi segja nokkur orð.

Ég játa það, að Reykjavík er dýrasti staður landsins til að lifa á, og þess vegna er rétt, að persónufrádráttur sé þar meiri en annars staðar. Hins vegar er víða ekki mikill munur á framfærslukostnaði í sveitum og ýmsum kauptúnum landsins, og í ýmsum kauptúnum, þar sem hægt er um mjólkurframleiðslu og gnægð af fiski, er framfærslan jafnvel ódýrari en í sveitum. Það, sem helzt munaði þá á, væri framfærsla barnsins, en í þeim till., sem fyrir liggja, er enginn munur gerður á frádrætti vegna barnsins, heldur er hann alls staðar 600 kr. Till. okkar fer ekki fram á að draga úr persónufrádrættinum á neinum stað, en hins vegar er lagt til, að fólk í sveitum og kauptúnum verði gert jafnt. mér virðist tæplega geta staðizt að hafa börnin jöfn á báðum stöðunum, en ég tel rétt að hafa fullorðna fólkið jafnt.

Svo er það skriflega till. Ég játa, að ég er ekki hrifinn af henni, þó að ég sé meðflm. að henni, en ég vil fyrirbyggja það, sem skaðlegra er, að miða verðlag búpenings við 10 ár, og vil því ganga inn á tvö ár, því að ég álít ekki skaðlegt að gera það. Ég greiði því atkv. með till., en hvet engan til að gera það. Ég er búinn að segja tilganginn með þessu, að hann er sá að koma í veg fyrir það, sem lakara er, eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði áðan. Annars er ég öðruvísi gerður en sá hv. þm. Hann sagðist ekki vilja lifa á bræðingi, en ég hef orðið að gera það og þykir hann sæmilegur, þegar hann er góður, og ég hef ekki átt kost á að lifa á 8 króna smjöri, en þegar ég kom með hann til þessa hv. þm., fannst mér hann kunna prýðilega átið.