29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Það er kunnugt mál, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangur af samningsumleitunum og miklum undirbúningi. Það hefur starfað mþn. í skatta- og tollamálum nú í 2–3 ár. Og mun það hafa farið svo, að það hefur orðið heldur lítill árangur af því starfi í þá átt að koma þessu frv. saman, sem hér liggur fyrir. Svo var það nokkru eftir að þing var byrjað, að hæstv. ríkisstj. tók málið í sínar hendur, og hefur í nokkrar vikur verið unnið að því ásamt nokkrum mönnum, sem til þess voru valdir að semja um þetta stórmál, því þetta er vitanlega eitt stærsta málið, sem fyrir þingið hefur verið lagt.

Eftir að hafa farið gegnum frv. í fjhn., virðist mér það koma fram, að það sé svipað eins og kvæði, sem margir aðilar hafa lagt tíma í að hnoða saman og hver hefur lagt til sína hendinguna eða erindið. Og þar sem sumir kunna að yrkja, en sumir ekki, mundi skáldskapur á slíku kvæði ekki verða neitt sérstaklega glæsilegur. En sá er munur á þessu frv. og því kvæði, að hér er hendingum krækt saman, svo að ekki er gott um að losa. Og menn segja hver um sig: Ef minni hendingu verður raskað, þá breyti ég þinni hendingu, og á þann hátt hefur þetta bundið hvað annað. Afstaða fjhn. þessarar d., sem hefur fengið þetta mál til meðferðar, hefur því verið næsta erfið til þess að koma fram nokkrum verulegum eða stórum breyt. á þessu frv. Og brtt. n. bera líka vott um það, því að meira og minna af þeim eru aðeins orðabreyt. til þess að fá því slegið föstu, að það, sem við er átt, sé orðað þannig, að þar sé ekkert um að villast, heldur en að það sé um stórfelldar efnisbreytingar að ræða. Ég hef í nál. að nokkru leyti sérstöðu í einstökum atriðum málsins, og annar hv. nm., 3. landsk. Skal ég ofurlítið nánar skýra, í hverju sá ágreiningur liggur, þó að hann komi ekki fram á aðalatriðum frv,

Ég er þannig sinnaður, að þegar af hálfu ríkisvaldsins á með 1. að bæta aðstöðu almennings frá því, sem verið hefur, þá gleðst ég yfir því, og er ég fús að fylgja slíkum ráðstöfunum. Og hvað þetta frv. snertir, þá er hægt að segja því það til góðs, að í því felst talsvert mikil skattalækkun í landinu frá því, sem verið hefur. Ágreiningur minn snertir því ekki það, sem að almenningi snýr, heldur að þeirri sérstöku hlið, sem hér hefur mest verið um deilt og veldur mestum ágreiningi, og það er sá liður þessa máls, sem að útgerðinni veit. Þar er að því leyti farið öfugt að við það, sem gildir um allan almenning, í stórfelldri aukningu á greiðslum fram yfir það, sem núgildandi 1. gera ráð fyrir.

Það er kunnugt álit manna hér á landi, að útgerðin, og þá sérstaklega stórútgerðin, væri svo sterkur atvinnuvegur, að óhætt væri að hlaða á þann atvinnuveg gjöldum áframhaldandi, nær án takmarka. En það hefur komið í ljós á undanförnum árum fram að árinu 1938, að búið var að hlaða á þann atvinnuveg gjöldum og gera aðstöðu hans að öðru leyti svo örðuga, að hann var kominn í fullkomin vandræði. Það er ákaflega raunalegt, þegar það kemur fyrir, að annar aðalatvinnuvegur landsins, sem hér er útgerðin, er þannig með farinn, að það verður óaðgengilegra að stunda hann en önnur störf. Og það er óviðkunnanlegt að þurfa að grípa til þess, sem gripið var til 1938, að gera stórfelldar ívilnanir um skattgreiðslu útgerðarinnar fram yfir það, sem gildir um aðra þegna þjóðfélagsins. Nú var þessi undanþága um skattgreiðslu einu sinni veitt, og álít ég þá, að hæstv. Alþ. eigi að standa við það, sem það hefur lofað útgerðinni, þangað til þeim tilgangi hefur verið náð, sem fólst í þessum ívilnunum. Ég tel það fullkomin þingsvik, ef ekki er staðið við gefin loforð. Fyrsta loforðið, sem felst í l. frá 1938, var það, að útgerðarfélög mættu draga frá tekjum sínum, áður en skattur er á þær lagður, það tali, sem orðið hefur á rekstrinum frá því 1931. Þetta loforð er viðurkennt í frv. og ætti ekki að koma til neinnar þrætu framvegis. Nokkuð hefur á því bólað, að menn hafa talið vafasamt, hvort ætti að halda það, þegar hægt er að komast hjá því.

Í öðru lagi er ákveðið í þessum l., að heimilt skuli bæjar- og sveitarstjórnum að undanþiggja þessi félög útsvarsgreiðslum að öllu eða nokkru leyti. Var nokkuð um það rætt á síðasta þingi, hvort afnema skyldi þetta, og yrði ekki sagt, að um væri að ræða neina brigðmælgi af hálfu löggjafarvaldsins, þó að sú heimild félli niður þetta ár. Í l. frá 1040 er útgerðarfélögum íslenzkra botnvörpuskipa heimilað að draga frá skattskyldum tekjum sínum 90% af því, sem þau leggja í varasjóð, en í frv., því, er hér liggur fyrir, er þessu breytt þannig, að þau mega að eins draga frá 50% af því, sem þau leggja í varasjóð af tekjum sínum árið 1940. Útgerðin hefur grætt mikið upp á síðkastið, svo að hér er um miklar upphæðir að ræða. Við hv. 3. landsk. teljum því líka eðlilegt, að nokkur stríðsgróðaskattur sé lagður á þessi félög. En hitt, að taka félögin þegar undir almennan tekjuskatt, mundi skapa varhugavert fordæmi, sem er nýtt í þingsögu vorri, því að fráleitt er að afnema 1. og láta það afnám verka aftur fyrir sig.

Þá er það, sem hv. frsm. veik að, að sanngjarnt væri að gera meiri mun á útgerðarfélögum og öðrum félögum, sem reka milliliðastarfsemi og leggja fé í varasjóð. Ég fór fram á, að útgerðarfélögin mættu draga frá 3/5 af því, sem þau leggja í varasjóð, í stað þess, að hin mega draga frá 2/5, en aðrir hv. nm. vilja færa hin fél. lengra niður og láta útgerðarfél. standa þar, sem þau eru. Það kann að virðast undarlegt, að ég, sem er bændafulltrúi, skuli vilja ganga lengra en aðrir í því að undanþiggja útgerðina skatti fyrir síðastl. ár, en ástæðan er sú, að ég álít mikla nauðsyn á því, að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar bindi gróða sinn sem mest í tryggingarsjóðum. Þó að gróði hafi orðið mikill árið 1940, getur farið svo, að hann verði allur upp étinn, þegar stríðinu er lokið, hvað þá í kreppu þeirri, sem hlýtur að koma eftir stríðið.

Þá vil ég víkja að nokkrum till., sem fela í sér efnisbreytingar á frv. og hv. frsm. fór ekki nógu ýtarlega út í. Fyrst er sú till., sem breytir frv. um það, hve mikla upphæð útgerðarfélög megi eiga á biðreikningi í sterlingspundum. Till. n. var sú, að þetta væri fært upp í 60%, og féllst ég á það, en ég tek þó fram, að ég er óánægður með þetta. Hv. frsm. veik ekki að þessu, en ég vil taka það skýrt fram, að ef ekki fást frekari breyt. í þessu efni, mun ég biðja hæstv. fjmrh. að taka málið til athugunar, ef það mætti hafa áhrif um það, að þau félög, sem leggja mest af mörkum, fái að hafa talsvert meira á biðreikningi en þetta. Þetta gildir einnig um ný félög, sem verða að borga mikið af skuldum, verða að hafa mikið af reiðufé og leggja mikið í nýbyggingarsjóð.

Þá er önnur till., sem hv. frsm. veik að. Við höfum fallizt á litla breytingu á þeirri till., en hún fer fram á, að það, sem útgerðarfélög áttu

í varasjóði skv. efnahagsreikningi 31, des. 1939, sé ekki bundið þeim böndum, er felast í a- og c-lið 2. gr. Er það undarlegt, ef hv. þm. geta ekki samþ. svo sanngjarna till. Væntanlega má því gera ráð fyrir, að till. nái samþykki, úr því að hv. frsm, hefur fallizt á hana, með lítilli breytingu.

Þá er till. okkar til breyt. á 4. gr., þar sem talað er um félög, er stunda sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur. Við viljum, að þar með sé talin vinnsla á útgerðarvörum. Þetta getur haft mikla þýðingu. Stundum getur það orkað tvímælis, hvort aðalatvinnureksturinn sé útgerð eða vinnsla á útgerðarvörum. Okkur hv. 3. landsk. finnst eðlilegt, að starfsemi, sem er svo nauðsynleg sem vinnsla síldar og niðursuða fiskjar, sæti sömu kjörum og hrein útgerð.

Ég fer ekki að þessu sinni út í persónufrádráttinn. Ég geri ráð fyrir, að hv. form. fjhn. mæli með þeirri till., sem ég er meðflm. að, að færa persónufrádráttinn. í sveitum hærra en nú er.

Þá er það atriði, hvort skattar og útsvör skuli dregin frá tekjunum við ákvörðun skattskyldra tekna. í nál. er getið um þau rök þeirra fyrir þessu, að það mundi verða til að lækka skatta á þeim, sem hafa ójafnar tekjur. Ég held, að ekkert sé hægt að fullyrða um það, því að þetta færi eftir atvikum, sem ekki er hægt að sjá fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það mun vera að miklu leyti ráðið, hvernig afgreiðsla málsins á að verða, þó að vafi leiki á um einstakar brtt. Vænti ég þess, að hæstv. forseti sjái svo um, að sem flestir hv. þm. verði viðstaddir, er afgreiðsla fer fram.