29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Eftir því sem orð féllu hjá hv. þm. A.-Húnv. um annan lið brtt. 294, staðfesti hann nú það, sem mér skildist á fyrri ræðu hans, að þetta ákvæði ætti einnig að ná til iðnfyrirtækja, sem eru í eign og umráðum fyrirtækis, sem jafnframt rekur sjávarútveg. Þá vil ég út af ummælum hv. þm. Borgf. benda á það, að mér virðist þessi breyt. hins vegar, að því er snertir verksmiðjur, vera fullkomlega aðgreind frá sjálfri útgerðinni. Annars voru mér ekki fyllilega ljós orð hans um þetta atriði, og væri fróðlegt að fá um það frekari upplýsingar fyrir 3. umr.

Út af ræðu hv. þm. A.-Húnv. væri hægt að halda sérstaka ræðu, en ég get þó að mestu leitt það hjá mér. Hv. þm. viðurkenndi, að þær tölur, sem ég fór með, mundu sennilega vera réttar, og ég get fullvissað hann um það, að svo er, enda eru þær fengnar úr skýrslum skattstofunnar. En jafnvel þó hv. þm. dragi tölurnar ekki í efa, þá segir hann: Útgerðinni hefur verið íþyngt af ríkisvaldinu samt sem áður.

Ég verð að segja það, að slíkar röksemdafærslur eru lítið sannfærandi. Hv. þm. verður að játa það, að það er fjarri öllum sanni, að það séu skattálögur einar, sem ollu þeim erfiðleikum, sem útgerðin var komin í árið 1938. Það voru a. m. k. alls ekki beinu skattarnir, sem nokkru munaði með, en það kann að vera, að einhverju hafi munað með salt- og kolatollinn, en ég vil benda á, að það var ekki minn fl., sem stóð að þeim hækkunum, sem þar voru gerðar. Dálítið svipað fór hv. þm., er hann talaði um skattfrelsi útgerðarinnar og sagði, að rift væri loforðum, sem gefin hefðu verið, með því að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir. Mig undrar það sannarlega, að hv. þm. skuli ekki með öllu vera á móti frv. og jafnvel vilja fella það.

Þá sagði hv. þm., að ef útgerðin hefði fengið að vera skattfrjáls, hefði henni sennilega engin hætta stafað af því, þó að ný kreppa skylli yfir. Ég skal játa að það væri mjög æskilegt, að hægt væri að búa þannig að útgerðinni og öllum atvinnuvegum landsmanna, að þeim væri engin hætta búin, þó að ný kreppa skylli yfir. En ég verð að játa þá staðreynd, að það er fullkomlega ómögulegt að skoða nokkuð slíkt sem tryggingu fyrir því, að útgerðin eða nokkur annar atvinnuvegur standi á fjárhagslega traustum grundvelli í framtíðinni. Því eins og nú er ástatt í heiminum, er ómögulegt að segja um það, hvers virði peningarnir kunna að verða á næstunni. Hvers virði eru t. d. skipin, ef siglingar stöðvast með öllu? Þetta getur enginn séð fyrir. Hins vegar er ég sammála hv. þm. um það, að það sé þjóðfélagsmál, hvernig um útgerðina fer, og Alþ. viðurkennir, að svo sé. Og þess vegna er ég líka eindreginn hvatamaður. þess, að sá arður, sem skapazt hefur á árinu 1940, verði beinlínis bundinn, að svo miklu leyti sem það er hægt, við það að nota hann í þágu útgerðarinnar til þess að standa undir rekstri hennar og auka atvinnuna. Ég vil leggja áherzlu á það, að það fé, sem lagt verður til varasjóð- anna, verði bundið svo tryggilega, að það komi ekki fyrir, að það verði notað til annarra hluta. Það er óþarfi fyrir hv. þm. að benda á það, að útgerðin hafi þjóðfélagslega þýðingu, a. m. k. er mér það ljóst alveg eins og honum. — Með þessu er að nokkru svarað því, sem hv. þm. sagði um brtt. 294.

Þá kemst ég ekki hjá því að svara nokkrum orðum sessunaut mínum, form. fjhn. Hann vildi halda því fram, að mér gengi erfiðlega að skilja það, sem ég ekki vildi skilja, og að ég væri hverjum manni þrárri. Ég vil þá segja honum, að það er þó eitthvað til í þessu, að ég hef mína galla. En ég þekki einn mann, sem tekur mér stórum fram, og það er. þessi hv. þm. sjálfur, eins og ræða hans bar líka glöggan vott um. Hann sagði, að það væri rétt hjá mér, að mismunur væri á því, hvað dýrt væri að lifa. En mér skildist hann líta á þennan mismun, hvað dýrt væri að lifa, eftir því í hvaða landshluta menn byggju. Hann hélt því fram, að það væri ekki nóg að gera greinarmun á kaupstað og sveitabæ, heldur sagði hann, að það væri mismunandi dýrt að lifa á sama bænum eftir því, hvað menn gerðu miklar kröfur til lífsins. Hann komst að þeirri einkennilegu niðurstöðu, að mismunurinn á því, hve dýrt sé að lifa, byggist eingöngu á því, hvaða kröfur menn gera til lífsins. Það væri æskilegt, að þetta væri satt, en það er ekki satt. Það, sem verður að miða við, er, hvað lífsþarfirnar kosta til sómasamlegs lífernis, til þess að menn líði ekki skort. Það eru lágmarkskröfurnar, áður en farið er að greiða skatta.

Hv. þm. telur, að þeir, sem búa í kaupstöðum, geri svo miklar kröfur til lífsins, að nálgist bílífi, en séu svo verðlaunaðir með hærri persónufrádrætti. Þetta er mesti misskilningur. Ég hef nú heimsótt hv. þm. í sveitina og sá ekki betur en að hann búi eins vel og við í kaupstaðnum og við svipuð þægindi. Mat hugsa ég, að hann borði eins góðan og við og líklega töluvert betri, að mínum smekk a. m. k. Hitt er annað mál, að til eru efnaðir menn, sem búa í nýtízku húsum við öll heimsins þægindi, og kotbændur, sem ekki komast af. Af hverju flytur þá ekki hv. þm. till. um að mismuna persónufrádráttinn fyrir þá? Þess í stað vill hann hafa jafnan persónufrádrátt í sveit og kaupstað. En það er ekki til neins að loka augunum fyrir því, að kjör manna verða ekki jöfnuð með persónufrádrætti í skattal. frekar en hægt er að tryggja fólki sáluhjálp á himnum í skattal. Það, sem ber á að líta, er, að þær nauðsynjar, sem þarf til lífsins viðurhalds, eru mismunandi dýrar á ýmsum stöðum. Það liggja fyrir skýrslur um það, að af fæði manna í Reykjavík eru 75% að verði innlendar vörur, fluttar hingað með ærnum kostnaði, en 25% erlendar vörur. Þessar innlendu vörur, sem Reykvíkingar þurfa að kaupa, kosta þá stórum mun meira en bóndann í sveitinni. Hv. þm. veit, hvað honum er reiknað til tekna, þegar hann á að greiða skatt. Við hér borgum 75 aura fyrir hvern lítra mjólkur. Hjá honum held ég, að mjólkin sé metin um eða innan við 30 aura lítrinn. Hann fær meira en tvöfalt meiri mjólk en við fyrir sömu peninga. Mér er sagt, að kartöflur kosti 55 kr. pokinn núna. Hvað kosta þær fyrir austan? Eða kostar kannske ekkert að flytja vörurnar úr sveitinni og dreifa þeim hér? Það þarf ekki meira um þetta að tala. Allir hv. þm. vita, að margar lífsnauðsynjar kosta tvöfalt og meira til hér í Reykjavík en í sveitunum. Auk þess er ýmislegt annað, sem mætti minna á. Ef maður leyfir sér að eiga nokkur börn og hafa vinnukonu hér, er ekkert tillit tekið til þess við skattálagninguna, en það er gert í sveitunum.

Ég vil endurtaka fyrri gullhamra mína til hv. þm. Ég veit engan mann jafnstaðfastan í að halda við villu sína og hann.

Ég játa það auðvitað, að einstaka erlend vörutegund getur verið dýrari uppi til sveita en hér, en það vegur miklu minna í nauðsynlegum kaupum sveitafólks en innlendar vörur í kaupum bæjarbúa. Annars hygg ég, að ekki hafi neina þýðingu að vera að karpa um þetta lengur.