29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Þeir hv. þm., sem talað hafa og eiga báðir sæti í fjhn., þeir hv. þm. Seyðf. og hv. þm. A.-Húnv., vildu draga í efa, að það væri rétt, sem ég og hv. 1. þm. Rang. höfum tekið fram í nál., að með því fyrirkomulagi, sem nú er, að skattgreiðendum sé leyft að draga frá tekjum sínum útsvör og skatta, sem þeir greiða á skattárinu, áður en skattur er á lagður, komi skatturinn þyngra niður á þeim, sem hafa áhættusaman rekstur og jafnar tekjur frá ári til ár s. En það er alveg ljóst, að svo mundi verða.

Hv. þm. A.-Húnv. víkur að því í nál. og lagði einnig áherzlu á það í ræðu sinni, að með því að afnema nú l. um skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja og láta afnámið verka aftur fyrir sig, væri Alþ. að bregðast loforði, sem það hefði gefið útgerðarfyrirtækjunum. Ég veit ekki, hvort allir flokksbræður hans líta eins á þetta, en ef svo er, hefði útkoman orðið sú, ef sá flokkur hefði einn um fjallað, að útgerðarfyrirtækin hefðu haft 90% skattfrjáls af hinum mikla gróða síðastl. árs. Þetta teljum við ekki rétt og viljum benda á, að vegna þess að gróðinn kom svo óvænt, hafi verið sjálfsagt að gera hér á breyt., en þó ekki svo, að ekki væri fyrir því séð, að útgerðin gæti losnað við skuldir og lagt í varasjóð. En nú telur hv. þm. A.-Húnv. eðlilegt, að á tekjum ársins 1940 sé stríðsgróðaskattur, og þar gætir ósamræmis hjá hv. þm. Ef það er ekki rétt að afnema 1. frá 1938 og láta afnámið verka aftur fyrir sig til 1940, þá er ekki heldur rétt að setja nú ný 1. um skattálagningu á tekjur ársins 1940.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði sem rétt er. að útgerðin hefði verið í kröggum áður, og kenndi hann það því, að illa hefði verið að þeim atvinnuvegi búið. Hann nefndi í því sambandi tolla á nauðsynjum útgerðarinnar og framkvæmd gengisskráningarinnar. En nú er orðin á svona mikil breyt. Útgerðin hefur grætt mikið fé árið, sem leið, og það er óhætt að fullyrða, að sá gróði stafar ekki af því, að öðruvísi hafi verið búið að útgerðinni af hálfu hins opinbera, heldur af því, að í stað aflaleysis og söluerfiðieika er nú nægur afli og markaður viss. Gengisleysi útgerðarinnar stafaði því fyrst og fremst af aflaleysi og þvílíkum erfiðleikum.

Ég vil benda á skýrslu, sem lögð var hér fram 1939 frá milliþn. í sjávarútvegsmálum. Þar kom fram t. d., að tollur, sem útgerðarfyrirtækin höfðu orðið að greiða, var ekki það mikill, að hann gæti haft neina verulega þýðingu fyrir afkomu útgerðarinnar. En eins og hv. þm. Seyðf. tók fram, greiddi útgerðin lítinn tekjuskatt á þessum árum af því hvað útkoman var slæm.

Þá vil ég minnast á gengisskráninguna. Ég ætla nú ekki, þegar komið er fram yfir miðnætti, að fara að rifja upp allt það, sem sagt hefur verið um, að hún hafi valdið töpum útgerðarinnar, en ég vil benda á, að þegar loks var gerð breyt. í því efni, var það ekki fyrst og fremst verk þess flokks, sem hv. þm. A.-Húnv. fylgir. Fleira er það víst ekki, sem ég þarf að gera aths. við.