29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um það, að það væri nokkurt ósamræmi í því frá hálfu Alþingis að taka tekjur útgerðarfélaganna undir almennan tekjuskatt. Hins vegar játa ég, að eðlilegt væri, að á þau væri lagður stríðsgróðaskattur. Í þessu er ekkert ósamræmi, því að þegar lagður er á nýr skattur, alveg með sérstöku tilliti til þess ástands, sem ríkir, og vegna þess gróða, sem stafar af stríðinu, þá er það alveg bundið við þann sérstaka gróða, sem stafar af stríðinu, og er ekkert í sambandi við þá skatta, sem áður giltu. — En hitt, að taka af þeim hluta tekna útgerðarfélaganna, sem lögbundið var, að ekki skyldi leggja skatt á, það er allt annað mál.

Hvað það snertir, sem hv. þm. Seyðf. var að tala um, að undarlegt væri, að ég skyldi ekki út frá þessu sjónarmiði kljúfa n. og snúast gegn frv., þá er það að segja, að ég mundi vafalaust hafa gert það, ef ekki hefði verið búið að semja um afgreiðslu þessa frv. áður.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. var að tala um, að það væri algerlega ómögulegt að gera ráð fyrir því, að hægt væri að veita útgerðinni eða nokkrum öðrum atvinnuvegi þá tryggingu, sem þyrfti til þess að geta staðizt þær kreppur, sem fyrirtækin kynnu að lenda í, þá er það rétt, að fulla tryggingu er aldrei hægt að veita. En einmitt í þessu sambandi lít ég svo á, að þeim upphæðum, sem nú hafa verið teknar af útgerðinni í almennan tekjuskatt fyrir árið 1940, þeim verði á engan hátt betur varið en með því að tryggja framtíð útgerðarinnar, að svo miklu leyti sem hægt er, þegar kreppa skellur yfir næst.

Frá hagsmunalegu sjónarmiði álít ég, að þeim hluta teknanna hafi verið miklu betur varið á þann hátt en ætla hefði mátt eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram í dag, þegar verið var að þjarka um, hvernig verja ætti afgangstekjunum, hvort ætti að leggja þær í sérstakan sjóð eða verja þeim til framkvæmda o. s. frv.

Hvað snertir þær deilur, sem fram hafa farið milli mín og hv. þm. Seyðf. og hv. frsm. vék að, snertandi heppni og óheppni útgerðarinnar á liðnum árum, þá er nú hvorki tími né ástæða til þess að lengja þær umr. frekar. Þar heldur hver sinni skoðun, og ætla ég ekki að þreyta þolinmæði hæstv. forseta og annarra þeirra, sem hér eru, með lengri ræðu um það.