03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Í 4. gr. frv., a-lið, eru ákvæði um umreikning, þ. e. um lækkun tekna áður en skattur er lagður á. Mér var bent á það af hv. 1. þm. N.-M. (PZ), sem á sæti í Ed., en auk þess á sæti í ríkisskattanefnd, að gera þyrfti breyt. á þessari gr. Ég leyfi mér því að bera fram skrifl. brtt. um þetta atriði í samræmi við þessa ábendingu hans. Þessi brtt. er um það, að umreikningurinn nái aðeins til þeirra manna, sem eru búsettir hér.

Í 2. gr. skattalaganna er sér staklega rætt um þá, sem ekki eru hér heimilisfastir, en eiga hér eignir eða hafa tekjur, en í 6. gr. er skattgjald þeirra ákveðið. Þá má og geta þess, að erlendir einstaklingar, sem þannig er ástatt um, njóta ekki persónufrádráttar samkv. 12. gr. l. Af þessu er augljóst, að aðrar reglur gilda nú um þá, sem ekki eru búsettir hér.

Tel ég því rétt að halda þeim aðilum, sem ég hef hér minnzt á, utan við þann umreikning á tekjum, sem gert er ráð fyrir í upphafi 4. gr. frv.

Þessi brtt. mín við a-lið 4. gr. frv. er þannig: Á eftir orðunum „tekjuskattur einstaklinga“ í upphafi a-liðar (55. gr.) komi: heimilisfastra hér á landi. — Ég er sammála hv. 1. þm. N.-M. um það, að rétt sé að gera þessa breyt. hér í Þessari hv. d., áður en frv. fer til Ed., svo ekki þurfi að senda það oftar á milli deilda.

Að lokum vil ég svo afhenda forseta till. með ósk um, að hann leiti afbrigða fyrir hana.